31.01.1985
Sameinað þing: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2552 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

Umræður utan dagskrár

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki hafa þetta mjög langt í þetta sinn. Ég varð satt að segja alveg hissa á þessum belgingi í hv. þm. Guðmundi Einarssyni hér áðan og skil nú allra síst hvern ég ætti að öfunda, ekki a.m.k. hann eftir svona stranga andvökunótt með samkennurum sínum inni við Grensásveginn. En orðaleppa hans að öðru leyti læt ég mér í léttu rúmi liggja.

Ég sagði áðan að ég hefði ekki haft tíma til að fletta upp í lögum, mér þætti það miður að geta ekki stúderað þessi lög nánar af því tilefni að hér ætti að tala um lagagildi þessara hluta. Auðvitað hef ég lesið flest það sem um þetta hefur verið skrifað og miklu meira en hv. þm., ég er alveg viss um það. Það vill svo til að þetta hefur verið mitt brennandi áhugamál af eðlilegum orsökum í mjög mörg ár. Meðan hv. þm. var enn í barnaskóla var ég líklega farinn að fylgjast með þessu.

Ég las m.a. þykkar skýrslur í sumar. Ég treysti því ekki að þær sýni eitt né neitt. Ég er þó nokkuð vanur að lesa vísindaleg rit, hef eytt í það mörgum árum meira að segja, en ég get ekki af þeim niðurstöðum treyst því að þær hjálpi nokkuð til að finna sannin í þessu máli.

Varðandi málflutning Kvennalistans er hann af sama toga og venjulega gagnvart atvinnustarfsemi og ég leiði hann hjá mér.

Það var minnst hér á að Náttúruverndarráð og valdsvið þess væri fótum troðið. Ég er hræddur um að svo kunni að fara. Náttúruverndarráð á nefnilega, því miður verð ég að segja, formælendur ansi fáa orðið. — (Gripið fram í: Hvað sagði þm.? Í Sjálfstæðisflokknum?)

Ég þekki nú þennan samning sem hér var gerður að umtalsefni og af því að hv. 3. þm. Reykv. rétti mér hann vinsamlegast hér áðan, þá hefði verið freistandi að lesa hann. Hann er allmargar blaðsíður en ég fletti aftur upp á þeim greinum sem ég taldi máli skipta og þær geta þm. auðvitað kynnt sér. Það er þá sérstaklega 1. og 3. liður 2. gr., og einnig 1. og 2. tölul. 3. gr. En í þessu stendur ekkert, ég fullyrði það, það stendur ekkert í þessu sem á nokkurn hátt gæti farið í bága við ákvarðanir iðnrh. í þessu máli. Það eru að vísu nokkrar blaðsíður hér um hvernig ráðstefnur skuli vera á vegum UNESCO í samræmi við þennan samning, um það eru einar tvær blaðsíður, en hér í 2. tölul. 11. gr. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Sérhver samningsaðili getur sagt upp aðild að samþykktinni eftir að fimm ár eru liðin frá þeim degi sem samþykktin öðlaðist gildi, með því aðeins að tilkynna það skriflega. Uppsögn aðildar skal öðlast gildi fjórum mánuðum eftir þann dag sem tilkynningin berst vörsluaðila.“

Að svo mæltu læt ég máli mínu lokið, herra forseti.