31.01.1985
Sameinað þing: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2558 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætlaði út af fyrir sig ekki að lengja þessar umr. Ég hef hlýtt á þær með athygli og tel að margt fróðlegt hafi komið hér fram. En að gefnu tilefni, þar sem hv. 3. þm. Reykv. Svavar Gestsson spurði mig að því sérstaklega og óskaði svars um það hvort þetta mál, eða eins og hann orðaði það, þessi vinnubrögð hafi verið samþykkt af þingflokki Framsfl., þá er mér bæði ljúft og skylt að svara honum.

Ég býst við að það sem hv. þm. kallar „þessi vinnubrögð“ sé framlenging á leyfi, útgáfa á námaleyfi af hálfu iðnrh. til Kísiliðjunnar við Mývatn til 15 ára. Þetta mál hefur alls ekki verið rætt í þingflokki Framsfl. Það hefur ekki verið þar á dagskrá. Það fór fyrir mér eins og sumum fleirum, sem hér hafa talað í dag, að ég vissi lítið um þetta mál og raunar alls ekki að það væri til umfjöllunar í dag utan dagskrár fyrr en ég las það í Þjóðviljanum í morgun. Einhvers staðar hafa því þeir ágætu menn, sem það blað skrifa, fengið upplýsingar og vita betur en þeir sem hér mæta á þingfundi kl. 2, enda er þetta ekki heldur dagskrármál. Lokamálsliður í þessari frétt í þjóðviljanum í dag, er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Í dag má búast við að málið verði tekið fyrir utan dagskrár á Alþingi.“

Þetta hygg ég að enginn af þm. Framsfl. hafi vitað og þar af leiðandi hefur þetta ekki verið til umr. á þingflokksfundi þar. Ég álít líka að það sé að sjálfsögðu í höndum iðnrh. að fjalla um þetta. Kísiliðjan hefur af eðlilegum ástæðum leitað eftir því að fá þetta atvinnuleyfi framlengt í bréfum sem einhver hefur verið svo hugljúfur að senda mér í dag. Að vísu fylgir ekkert nafn þar, en umslagið er merkt Náttúruverndarráði. Þeir ágætu starfsmenn þar hafa verið svo hugljúfir að senda mér margvíslegar upplýsingar um þetta mál í dag sem ég hef verið að kynna mér hér á meðan ég hlustaði á þessar umr. Þar kennir að sjálfsögðu ýmissa grasa. Ég vil segja það við þá náttúruverndarráðsmenn að ég met þeirra starf mikils og mér dettur ekki í hug að fara lítilsvirðingarorðum um vísindamenn okkar á þessu sviði frekar en öðrum. Ég ber fullt traust til þeirra og ég veit að þeir vilja vinna sitt starf vel og af kostgæfni. En ég vil þó benda þeim á að þeir verði einnig að gæta sín örlítið í vinnubrögðum og fara ekki offari, þannig að þeir fái e.t.v. einhvern hluta af fólkinu í landinu algerlega á móti sér, vegna þess að þau mál sem þeir fjalla um eru svo ákaflega þýðingarmikil, það sem þeir gera og það starfsfólk sem vinnur á vegum Náttúruverndarráðs og þessir ágætu vísindamenn okkar, að þeir verða að hafa fullt traust fólksins í landinu.

Fyrst ég er nú kominn hér, forseti, þá held ég að ég verði að fá að bæta við örfáum orðum. Ég skal reyna að vera stuttorður. Ég vil taka undir það, sem kom fram hjá Vigfúsi Jónssyni hér áðan, þegar hann sagði að að sjálfsögðu væri lífríki við Mývatn, þessi ,perla íslenskrar náttúru, meira virði en Kísiliðjan. Og ef öðru hvoru er fórnað, þá auðvitað hljótum við að fórna Kísiliðjunni, það er auðvitað ekki spurning. En ég tel hins vegar að við verðum að skoða allar hliðar þessa máls gaumgæfilega. Og þegar talað er um hagsmuni fólks, þá verðum við að tala um hagsmuni alls þessa fólks sem þarna býr. Við erum að tala um hagsmuni þess fólks sem vinnur við þetta fyrirtæki, hefur afkomu sína af því, hefur byggt sig upp þarna á undanförnum árum, hefur fjárfest á þessu svæði. Og auðvitað hefur sveitarfélagið verulegar tekjur af þessari atvinnustarfsemi svo og nærliggjandi sveitarfélög, eins og kemur hér fram í einu af þeim bréfum sem mér voru fengin í dag án þess að nú sé tími til þess að lesa það upp, og væri það þó sjálfsagt þarft.

Mér finnst hafa komið hér fram í þessum umr. einnig nokkur lítilsvirðing varðandi þær fjárveitingar sem nú er fyrirhugað að verja til rannsókna á þessu landsvæði. En það held ég að sé stærsti þátturinn í þessu máli að nú fá okkar vísindamenn fjármagn úr að spila meira en nokkru sinni fyrr. Eitt af þessum gögnum úr umslaginu góða er um fjárlagabeiðni. Ég veit að vísu ekki hverra, því að það skjal er algerlega ómerkt, hér stendur bara „Fjárveitingar til Mývatns og Laxár árin 1982–1985.“ Þar segir: „Fjárlagabeiðni 1985 var 1 millj. 856 þús. kr.“ Þetta segir okkur að nú á að verja til þessara rannsókna meira fjármagni en hér er þó beðið um, ef þetta eru fjárveitingabeiðnir frá Náttúruverndarráði, sem ég get þó ekki fullyrt því að það kemur ekki fram á skjalinu. Þess vegna vil ég leggja mikla áherslu á það að ég tel að iðnrh. hafi þarna unnið gott starf og auðvitað þá líka bætt fyrir þá skömm sem fjárveitingavaldið, og ég skorast ekkert undan minni ábyrgð í því á undanförnum árum, hefur sýnt með því að verja of litlu fjármagni og kannske oftast nær nánast engu til þeirra rannsóknarstarfa sem þarna hefur að sjálfsögðu verið nauðsynlegt að vinna.

Mig langar aðeins, af því að ég nefndi hagsmuni fólksins, að geta þó um það að á einu skjalinu, sem ég er hér með undir höndum og er afrit úr fundargerð rannsóknarstöðvarinnar við Mývatn haldinn í Reykjavík hinn 10. jan. 1985, segir svo, með leyfi forseta:

„Eftirfarandi tillaga kom fram og var samþykkt með 4 atkv.“ Nú veit ég ekki hvort þarna hafa verið fjórir á fundi eða e.t.v. fleiri og þá hvort einhverjir hafa setið hjá, en tillagan sem samþykkt er hljóðar svo:

„Fundur stjórnar rannsóknarstöðvarinnar við Mývatn haldinn í Reykjavík 10. janúar 1985 lýsir yfir fullum stuðningi við bréf Náttúruverndarráðs til iðnrn., dags. 18. des. 1984, varðandi námaleyfi til handa Kísiliðjunni hf. við Mývatn.“ Svo segir: „Böðvar“ — ég hygg að það sé Böðvar Jónsson bóndi á Gautlöndum í Skútustaðahreppi, sem á sæti í stjórn þessarar rannsóknarstöðvar en er jafnframt sveitarstjórnarmaður í Skútustaðahreppi, „Böðvar gerði grein fyrir atkvæði sínu á þennan hátt:

„Tímalengdin í bréfi Náttúruverndarráðs gefur sveitarfélaginu ekki nægjanlegt svigrúm aðlögunar ef rannsóknir leiða í ljós að Kísiliðjan verður að hætta starfsemi sinni að þessum leyfistíma loknum.““

En eins og menn vita, þá stóð í þessu bréfi Náttúruverndarráðs að það mælti með framlengingu á leyfinu til 5 ára eða til 1991. Einn af sveitarstjórnarmönnum lætur það koma hér fram í bókun að hann telji að þetta sé of skammur fyrirvari og það þurfi að huga þarna að fleiri málum. Það þurfi þess vegna einnig að huga að hagsmunum þess fólks sem þarna starfar og þarna á þó alltjent sínar eignir, hvort sem menn kalla það stundargróða, stundarhagsmuni eða að menn hafi sett þar einhver annarleg sjónarmið ofar öðrum, þegar þeir ákváðu að hefja störf við þessa verksmiðju og auðvitað þá líka að setja sig niður til að búa þar og fjárfesta þar í sínu íbúðarhúsnæði og skapa sér þar gott mannlíf. Því að það er það virkilega í Skútustaðahreppi. Það er það einmitt í þessari sveit. Og því betur þá hygg ég að á undanförnum árum hafi líka ríkt þarna nokkuð góð samstaða um innansveitarmál, þótt auðvitað megi sjálfsagt rekja einstök atriði sem ágreiningur hefur verið um, eins og gerist í flestum sveitarfélögum, jafnvel á stundum verið meira í Mývatnssveit heldur en nú um sinn. Því harma ég það, og ég tek undir það með hæstv. iðnrh. að mér finnst sumt af þeim umr. sem hér hafa farið fram vera fremur til þess að efna til óvinafagnaðar heldur en bera vopn á klæðin, en það hygg ég þó að væri miklu skynsamlegra og auðvitað nauðsynlegt í þessu máli, að reyna að vinna á þann hátt að okkur takist að skapa þarna samstöðu um þær rannsóknir sem þarf að framkvæma. Og ég hygg að allir Mývetningar eða íbúar í Skútustaðahreppi muni verða ánægðir með það fjármagn sem á að verja til rannsóknanna, og vera ánægðir með það að á þeim skuli síðan verða byggt, því að auðvitað kemur það fram í yfirlýsingum og þeim skilyrðum, sem hæstv. iðnrh. hefur sett fyrir þessari leyfisveitingu, að það verður farið eftir því og það verður tekið tillit til þeirra rannsókna, sem þarna á að framkvæma undir eftirliti ágætrar nefndar, sem ég hygg að veljist í valinkunnir og góðir menn. Ég treysti því að sjálfsögðu. M.a. er upplýst að formaður þeirrar nefndar verði Pétur M. Jónasson, sem ég veit að Mývetningar allir bera traust til eftir þau störf sem hann hefur þegar unnið við rannsóknir á Mývatni.

Mér sýnist því það vera æðimargt sem hér horfir til bóta og ég er viss um það að um þetta mál næst samstaða á Mývatnssvæðinu ef við leyfum heimamönnum að fjalla um þetta mál og treystum þeim til þess að leysa sín mál, standa saman um það, en forðumst að efna til óvinafagnaðar og gerum allt sem við getum til þess að skapa samstöðu um þetta mikilvæga mál eins og það hlýtur að vera fyrir alla íbúa þessa svæðis.