31.01.1985
Sameinað þing: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2561 í B-deild Alþingistíðinda. (2029)

Umræður utan dagskrár

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil aðeins taka það fram að hæstv. iðnrh. svaraði ekki þeim spurningum sem ég beindi til hans áðan. Ég endurtek þær nú aftur hér. Ég spurði: Fyrst ráðh. notaði það sem rök máli sínu til stuðnings að starfsleyfi verksmiðjunnar muni e.t.v. ekki vara nema í þrjú ár, hvers vegna fór hann þá ekki að tillögum Náttúruverndarráðs um fimm ára leyfisveitingu? Ráðh. svaraði mér með orðum um langtímafjárfestingu og atvinnuöryggi, sem eru vissulega brýn mál, en er þá ekki öllu verra að gefa fólki loforð til 15 ára í staðinn fyrir til fimm ára og svipta það síðan afkomunni með leyfissviptingu óforvarandis eftir þrjú ár? Eða á ekki að taka tillit til niðurstöðu rannsóknanna? Er það það sem þetta þýðir?

Við síðari spurningu minni kom ekkert svar. Hún var á þá leið að ef ráðh. gerir ekki ráð fyrir að efnistaka fari fram á Syðri-Flóa vegna þess að það þurfi ekki, það sé nóg í Ytri-Flóa, og notar það sem rök máli sínu til stuðnings, hvers vegna er þá ekki leyfisveitingin til verksmiðjunnar miðuð við efnistöku úr Ytri-Flóa?

Þetta voru spurningar mínar. Við þeim komu ekki svör og ég vænti þeirra varla úr þessu.