22.10.1984
Neðri deild: 5. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

48. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Að sjálfsögðu set ég mig ekki upp á móti því þó að umr. um þetta mál sé frestað. Ég legg þvert á móti áherslu á að þetta mál fái sem ítarlegasta meðferð á hv. Alþingi og hef ekkert á móti því að umr. standi hér lengur um þetta mál, síður en svo. Hins vegar bendi ég á að umsagnir um frv. hljóta að verða teknar fyrir í hv. félmrn. og koma þess vegna þaðan til meðferðar þingsins.

Ég sé ekki á þessu augnabliki ástæðu til að ræða neitt frekar um það sem hér hefur komið fram. Ég fagna því að sjálfsögðu að hv. þm. hafa áhuga fyrir þessu máli. Ég mótmæli því hins vegar að hér sé um að ræða frv. sem hefur ekki ákveðinn tilgang. Það er að mestu leyti óbreytt frá hendi þeirrar nefndar sem samdi frv. það eru nokkur áhersluatriði, sem hér hafa verið rædd, bæði á síðasta þingi og nú, sem er ágreiningur um, en að öðru leyti er frv. merkt innlegg í jafnréttisbaráttuna og ég vona að hv. þm. gefi sér tíma til að skoða þetta mál.