04.02.1985
Sameinað þing: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2565 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfs

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Borist hefur svohljóðandi bréf:

„31. jan. 1985.

Eggert Haukdal, 6. þm. Suðurl., hefur ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég vegna sérstakra anna heima fyrir get ekki sótt þingfundi á næstunni leyfi ég mér með skírskotun til 130. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að 1. varamaður Sjálfstfl. í Suðurlandskjördæmi, Siggeir Björnsson bóndi, Holti, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.“

Þetta er yður hér með tilkynnt, herra forseti.

Birgir Ísl. Gunnarsson,

forseti Nd.

Til forseta sameinaðs þings.“

Siggeir Björnsson hefur áður tekið sæti á Alþingi á þessu kjörtímabili. Býð ég hann velkominn til starfa.

Svohljóðandi bréf hefur einnig borist:

„31. jan. 1985.

Sverrir Hermannsson, 3. þm. Austurl., hefur ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og get því ekki sótt þingfundi á næstunni leyfi ég mér með skírskotun til 130. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að vegna forfalla 1. varamanns taki 2. varamaður Sjálfstfl. í Austurlandskjördæmi, Gunnþórunn Gunnlaugsdóttir skrifstofumaður, sæti á Alþingi í fjarveru minni.“

Þetta er yður hér með tilkynnt, herra forseti, með ósk um að fram fari í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Birgir Ísl. Gunnarsson.

forseti Nd.

Til forseta sameinaðs þings.“

Hér fylgir svohljóðandi bréf:

„30. jan. 1985.

Vegna aðkallandi skyldna get ég ekki tekið sæti á Alþingi sem 1. varamaður Sjálfstfl. í Austurlandskjördæmi í fjarveru Sverris Hermannssonar, 3. þm. Austurl.

Tryggvi Gunnarsson.

Til forseta sameinaðs Alþingis.“

Með fylgir kjörbréf Gunnþórunnar Gunnlaugsdóttur, en hún hefur ekki áður tekið sæti á Alþingi. Þarf því að fara fram rannsókn á kjörbréfi hennar. Vil ég leyfa mér að biðja hv. kjörbréfanefnd að taka kjörbréf þetta til meðferðar. Á meðan verður fundinum frestað í 5 mínútur. — [Fundarhlé.]