04.02.1985
Efri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2576 í B-deild Alþingistíðinda. (2042)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Svara skal ég því hvort eðlilegt sé að olíufélögin reki matvöruverslun. Ég get svarað fyrir mig og sagt að mér finnst það ekki eðlilegt. Varðandi það dæmi sem hv. 5. landsk. tók í sinni fyrri ræðu um olíufélag A sem kaupir á hagstæðu verði er því til að svara að frv. gerir einmitt ráð fyrir að það olíufélag sem getur fengið hagstæðara verð en hin geti látið það koma fram í verðinu til viðskiptamanna sinna.

Hér var vikið að því að þetta væri ekki nægjanlegt, það þyrfti að gera víðtækari breytingu á verðlagningu og dreifingu. Eins og ég sagði áðan stendur ekki á mér að taka við slíkum tillögum. Hins vegar met ég það svo af þessum umr.þm. telji að flutningsjöfnun þurfi að vera fyrir hendi, þannig að ekki geti verið um mismunun að ræða öðruvísi en að það sé vegna hagkvæmni hjá olíufélögunum og þess vegna sé eðlilegt að um hámarksverð sé að ræða.