04.02.1985
Efri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2578 í B-deild Alþingistíðinda. (2045)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Haraldur Ólafsson:

Virðulegi forseti. Það er eins og ég hef haldið fram nú um nokkurra ára skeið, að byltingin hlyti að koma frá hægri. Ég vil sérstaklega fagna yfirlýsingum hv. 4. þm. Norðurl. v. um að öll þessi olíumál skuli tekin til gagngerðrar endurskoðunar. Og meira en endurskoðunar, til gagngerðrar breytingar.

En það var annað í hans ræðu sem ég held að væri nú, meðan byltingin er ekki um garð gengin, gaman að fá nokkrar upplýsingar um. Það er sú fullyrðing að engin þjóð kaupi olíu á jafnháu verði og Íslendingar. Ég vildi mjög gjarnan fá upplýsingar frá hæstv. viðskrh. um hvort unnt sé að fá yfirlit yfir olíuinnkaup liðinna ára og samanburð við olíukaup þeirra nágrannaríkja okkar sem helst væri hægt að bera sig saman við. Þetta er ákaflega stórt mál og ég held að afgreiðsla á öllum breytingum og tillögum um olíudreifingu og olíusölu hljóti að byggjast á því hverra kjara Íslendingar njóta í sambandi við olíuinnkaup, hvernig gengið hefur verið frá þeim málum og hvort á því sviði er ekki unnt að betrumbæta sitthvað.

Það er að mínu mati mjög þarft að taka olíumálin almennt til umr. Það frv. sem hér liggur fyrir er spor í rétta átt, en það er einungis spor, þannig að það væri mjög æskilegt að fá mjög víðtæka umræðu um olíumálin, ekki í dag heldur seinna í vetur og fá þá fram þær upplýsingar sem ég hef hér beðið um.