04.02.1985
Efri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2579 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að leitast við að rökstyðja nokkuð þá staðhæfingu mína að Íslendingar kaupi olíur á hærra verði en nokkrir aðrir. Ég get að sjálfsögðu ekki á þessari stundu sannað þessa staðhæfingu, en ég tek hana ekki til baka. Ég held að það geti engan skaðað þó að ég skýri frá því hér og nú að þegar unnið var að því að reisa litla olíuhreinsunarstöð á Íslandi á árunum 1970–1971, ef ég man rétt, þá lagði ég á mig talsvert erfiði til þess að fyrirtækið gæti séð dagsins ljós og raunar fjármuni líka og við gerðum það fleiri. En það var náttúrlega stöðvað eins og ýmislegt annað sem til framfara gæti horft í þessu landi. Þó var svo langt komið að það var búið að fullvinna þessar áætlanir og fá breska sérfræðinga, einmitt þá sömu og margsinnis hefur verið rætt um hér í sambandi við álmálin, Coopers & Lybrand, til þess að yfirfara allar áætlanir og reikninga.

Þetta var mjög arðvænlegt fyrirtæki. Þetta var olíuhreinsunarstöð sem mundi hafa hreinsað svona rúmlega þá olíu sem við ætluðum að við mundum þurfa næstu áratugina eða svo og flutt lítið eitt út. En það sem kom svolítið flatt upp á okkur Íslendingana, sem vorum að vinna að þessu, var það að hagnaðurinn af fyrirtækinu var ekki ýkja mikill, kannske um 10%, eða svo sem álíka eins og menn gátu ávaxtað sína peninga í áhættusömum rekstri, t.d. í Bandaríkjunum. Og það var bandarískt firma sem að þessu stóð, Whitney að nafni, ef ég man rétt, sem ætlaði að fjármagna þetta fyrirtæki. Við áttum að eiga 55% og þeir 45%. Og þar kom að ég fór þess á leit við Jóhannes Nordal, sem hafði mikið hjálpað okkur í þessu starfi — reyndar tóku olíufélögin þátt í því líka að gera þessa athugun, ég vil láta menn njóta þess sannmælis — að hitta aðalforstjóra þessa fyrirtækis, sem hafði þá komið hingað einu sinni eða tvisvar til viðræðna við okkur, úti í New York til að spyrja hann að því beint út hvernig á því stæði að þeir fjárfestu ekki í einhverju svipuðu fyrirtæki í sínu eigin landi úr því að þeir ætluðu ekki að hafa nema þennan 10% hagnað.

Hann horfði á okkur, eins og við værum algerir hálfvitar, lengi, lengi, lengi og sagði svo: Vitið þið ekki að það kaupir enginn maður á þessum skráðu verðum. Auðvitað fáum við stórfelldan afslátt. Ég er hérna með verðlag náttúrlega langt undir Rotterdamverði í þessum skýrslum. En þegar ég veit að þessi skýrsla á að fara fyrir þjóðþing Íslendinga, þá yrði mér ekki líft ef ég sýndi réttu tölurnar. Við ætlum ekki að svindla á ykkur. Þið fáið þennan afslátt rétt eins og við. Ég staðhæfði að það er enginn sem kaupir olíur á Rotterdam-verði, það staðhæfi ég, nema Íslendingar.

Og við þurfum ekki vitnanna við. Menn þurfa ekkert að vera miklir sérfræðingar í olíuviðskiptum til þess að fá 30% afslátt af olíu á einn tank á fiskiskip úti í Bretlandi. Það getur hver sem er. Halda mennirnir kannske að þetta breska olíufélag, sem er að selja með 30% afslætti, hafi keypt vöruna á Rotterdamverði? (Gripið fram í.) Nei, við skulum ekki vera að spila okkur þá kjána eða svo bláeyga að sjá ekki þessi ósköp.

Ég ætla að standa við þessa fullyrðingu og ég reyni auðvitað með hjálp góðra manna og þeirra ágætu manna sem hér hafa talað í þessu máli að sanna þessa fullyrðingu. Við skulum reyna það öll saman.