04.02.1985
Neðri deild: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2585 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

262. mál, almannatryggingar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyting á lögum um almannatryggingar á þskj. 440. Eins og fram kemur í grg. með frv. er markmið þess að hækka greiðslur makabóta til þeirra sem bundnir eru heima við vegna örorku eða langvinns sjúkdóms maka og geta ekki af þeim sökum aflað sér tekna.

Í 13. gr. almannatryggingalaga eru ákvæði þess efnis að greiða megi maka elli- og örorkulífeyrisþega makabætur allt að 80 % einstaklingslífeyris ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Í framkvæmd hefur ákvæði þessarar greinar verið þannig að eingöngu hefur verið miðað við grunnlífeyri án tekjutryggingar og er upphæð makabóta nú 3394 kr. 78 konur njóta makalífeyris og 4 karlar.

Með frv. þessu er lagt til að makabætur geti numið allt að 80% af samanlögðum grunnlífeyri og tekjutryggingu eða 8154 kr. í stað 3394 kr.

Það er ljóst að elli- og örorkulífeyrisþegar hafa oft ekki annað sér til framfærslu en lífeyri almannatrygginga. Þegar þar við bætist að maki elli- og örorkulífeyrisþegans getur ekki aflað heimilinu tekna vegna þess að hann er bundinn heima við vegna örorku hans eða langvarandi sjúkdóms og hefur því einungis makabætur almannatrygginga, eða rúmar 3000 kr., þá hlýtur framfærslan að vera slíku heimili mjög erfið.

Ég vil aðeins fara nokkrum orðum um það hvenær þetta ákvæði kemur fyrst inn í almannatryggingarnar og hvaða breytingum það hefur tekið. Þetta ákvæði kemur fyrst inn í almannatryggingarnar 1946. Ákvæðið var þá þannig að makabætur mátti greiða eiginkonu elli- og örorkulífeyrisþega enda þótt hún væri ekki fullra 67 ára eða sjálf öryrki. Bótaupphæðin var þá miðuð við að samanlagðar bætur hjónanna færu ekki fram úr hjónalífeyri. Þá var tekjutrygging ekki komin til sögunnar þannig að á þeim tíma þegar ákvæðið kemur fyrst til framkvæmda er miðað við hæstu lífeyrisgreiðslur eins og þær voru á þeim tíma. Þá var miðað við hjónalífeyri, eins og þá sagði, en hjónalífeyrir með tekjutryggingu er nú tæpar 18 þús. kr. Ef við miðum við ellilífeyrisþega eða örorkulífeyrisþega, sem hefur ellilífeyri eða örorkulífeyri og fulla tekjutryggingu, þá nema tekjur hans í dag 10 þús. kr. Ef frv. þetta yrði að lögum kæmu til viðbótar til framfærslu þessa heimilis 8 þús. kr. Hér er þá orðið um 18 þús. kr. að ræða, en það er sama eða svipuð upphæð eins og hjónalífeyririnn.

Á þinginu 1955–56 er ákvæði þessarar greinar breytt og miðað við að makabætur skuli vera allt að 60% af óskertum einstaklingslífeyri. Á þinginu 1959–1960 er þessu breytt aftur og makabæturnar hækkaðar og miðað við 80% af lífeyri og áfram er talað um óskertan lífeyri. En á þeim árum var einungis heimili að veita makabætur eiginkonu öryrkja eða ellilífeyrisþega. Þegar mál þetta kemur aftur til kasta Alþingis 1962–1963 voru gerðar ýmsar breytingar á almannatryggingalöggjöfinni þó að ekki væri lögð til breyting á ákvæði makabóta. Nefndin sem fjallaði þá um frv. um breytingar á almannatryggingalögum gerði þær

Almannatryggingar. 2586 breytingar að makabætur, sem áður voru einungis greiddar eiginkonu, náðu nú einnig til eiginmanna, þannig að maki elli- og örorkulífeyrisþega fékk greiddar makabætur í sérstökum tilfellum. Hins vegar féll brott orðið „óskertur“ (einstaklingslífeyrir) — án þess þó að á því væri gefin sérstök skýring eða að af verði ráðið að makabæturnar hafi lækkað — enda áfram miðað við 80% af hæstu greiðslu til elli- og örorkulífeyrisþega.

Á árinu 1971 voru sett ný lög um almannatryggingar. Voru helstu nýmæli þeirra hin svonefnda tekjutrygging. Tekjutryggingin leggst við elli- og örorkulífeyri ef sjálfsaflatekjur lífeyrisþegans eru undir ákveðnu marki sem nefnt hefur verið frítekjumark. Þó að með þessu ákvæði hafi greiðslur hækkað verulega til elli- og örorkulífeyrisþega, sem ekki hafa aðrar tekjur en einstaklingslífeyri almannatrygginga, þá hafa makabæturnar ekki fylgt þessari breytingu og eru nú miðaðar, eins og áður sagði, einungis við grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega en ekki hæstu lífeyrisgreiðslur, þ.e. samanlagðan grunnlífeyri og tekjutryggingu, eins og áður var.

Í þessu frv. er einungis eins og áður miðað við maka elli- og örorkulífeyrisþega. Þó er bent á það í grg. með frv. að vissulega kæmi til athugunar hvort ekki væri rétt að þetta ákvæði næði einnig til fleiri hópa í sambærilegum tilfellum. Má þar nefna t.d. tímabundnar aðstæður einstæðra foreldra vegna veikinda barna um lengri tíma, þar sem fólk getur oft misst verulegar launatekjur af þeim sökum. Eins er í grg. vitnað í það neyðarástand sem nú ríkir vegna vistunarmála aldraðra. Kæmi það vissulega til greina og gæti dregið úr þörf fyrir stofnanir aldraðra ef þetta ákvæði væri gert víðtækara, opnaðir möguleikar til að greiða bætur þeim sem ekki geta aflað sér tekna á vinnumarkaði vegna umönnunar aldraðra og öryrkja í heimahúsum sem ella þyrftu á sjúkrastofnunarvist eða vistheimili að halda.

Ef litið er til þess hvaða útgjöld þetta frv. hefði í för með sér þá var, eins og áður sagði, fjöldi þeirra sem nutu makabóta í desember s.l. 82, 78 konur og 4 karlar. Kostnaður miðað við núgildandi makabætur eru um 280 þús. kr. á mánuði eða 3.3 millj. á ári. Ef frv. þetta yrði að lögum yrði kostnaðurinn 669 þús. kr. á mánuði eða 8 millj. kr. á ári. Frv. þetta hefði því í för með sér aukin útgjöld að upphæð um 5 millj. kr. á ári. Hér er ekki um stóra upphæð að ræða miðað við það að á þetta mál verður að líta sem réttlætismál þeirra sem geta ekki verið á vinnumarkaðinum vegna þess að þeir eru bundnir heima yfir hjúkrunarsjúklingum, enda má sjá á því hve fáir njóta þessara makabóta að þessu ákvæði hefur verið beitt mjög þröngt og skilyrði þess að fá makabætur eru að um algeran hjúkrunarsjúkling sé að ræða sem makinn annast og að öryrkinn eða ellilífeyrisþeginn hafi ekki annað sér til framfærslu en lífeyri almannatrygginga. Einnig er þess að geta að makabætur falla niður ef sá sem nýtur makabóta fer sjálfur á ellilífeyri og í þeim tilfellum einnig ef viðkomandi fer sjálfur á örorkulífeyri.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til þess að ræða frekar um þetta frv.. sem hér liggur fyrir til umr., en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. heilbr.- og trn.