04.02.1985
Neðri deild: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2603 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

267. mál, stjórn efnahagsmála

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Í þeirri umr., sem fór fram um vaxta- og verðtryggingarmál á sínum tíma, m.a. þegar lögin um stjórn efnahagsmála voru samþykkt, lögðum við Alþfl.-menn áherslu á tvennt. Annars vegar það að sparifjáreigendur ættu heimtingu á því að fá greitt til baka í sams konar verðmætum það sparifé sem þeir tryðu bönkunum eða lánastofnununum fyrir. Og svo hitt að nauðsynlegt væri í þessu samhengi að lengja lánstíma og auka lán, einkum og sér í lagi til húsnæðismála.

Það var ítrekað sagt í þeim umr. að hugmyndin er sú að menn skili sömu verðmætum til baka. Hugmyndin er þá jafnframt líka sú að menn þurfi jafnmikið á sig að leggja til að greiða þessi verðmæti til baka eins og þeir gerðu ráð fyrir þegar þeir fengu lánin, nefnilega að það tæki jafnlangan tíma að vinna fyrir afborgunum. Þessu var ekki ósjaldan haldið á lofti í umr. hér á þingi af þm. úr ýmsum flokkum og menn sáu: Þetta er hvort tveggja sanngjarnt og rétt. Þess vegna náði líka í fyrsta lagi fram að ganga sú stefna að taka upp raunvexti, jákvæða raunvexti, og þá fyrst og fremst í formi verðtryggingar.

En hinn hlutinn var svikinn. Lánstíminn var ekki lengdur, húsnæðislánin voru ekki aukin í samræmi við þá byltingu sem átti sér stað þegar verðtryggingin var upp tekin. Um þennan þátt höfum við flutt tillögur, Alþfl.-menn, ítrekað hér á Alþingi. Þessa till. m.a. fluttum við 1982 líka. Og þó menn tali um það núna að ástæður séu breyttar vegna þess að verðtrygging launa sé afnumin, þá skulu menn hafa það í huga að þegar þessi till. var flutt 1982 hallaði mjög illilega á merinni þótt svo ætti að heita að menn gætu samið um vísitölubindingu launa. Hvers vegna? Vegna þess að það var sífellt verið að krukka í kaupið, afnema þá vísitölutryggingu sem menn höfðu í laununum, þannig að svikin voru komin fyrir löngu síðan. Seinni hluti loforðsins hefur verið svikinn í a.m.k. 4 ár. Og það hefur sífellt hallað meir og meir á ógæfuhliðina.

Það er gleðilegt að heyra að þessi till. fær nú stuðning að því er virðist úr mörgum áttum. Hér talaði einn þm. Framsfl. áðan og lýsti nú yfir stuðningi við þetta frv. til l. Hér talaði líka þm. Alþb., Guðmundur J. Guðmundsson, sem dró lappirnar í þessum málum 1982 og lýsti nú yfir stuðningi. Hér talaði reyndar einnig Friðrik Sophusson, þm. Sjálfstfl. Hann sló hins vegar úr og í fyrir utan það að nöldra svolítið. Hver er stefna hans og hans flokks í þessu máli? Við eigum kröfu á að fá að vita það. Er hans flokkur ekki reiðubúinn til þess að stíga það takmarkaða skref sem hér er gert ráð fyrir að verði stigið skv. þessu frv.? Við eigum kröfu á afdráttarlausum svörum.

Þegar menn slá hér úr og í og tala um að það skuli ekki vera verðtrygging á skammtíma skuldbindingum heldur einungis á skuldbindingum til lengri tíma, þá hefur það í raun og sannleika ekki nokkurn skapaðan hlut með málin að gera. Spurningin er: Ætla menn að hafa jákvæða raunvexti, jákvæða raunávöxtun eða ekki? Hvort það gerist í formi svokallaðra verðtrygginga eða þess að það séu vextir á skammtíma skuldbindingum skiptir ekki meginmáli. Það er ljóst og liggur trúi ég algerlega fyrir að peningamarkaðurinn á Íslandi, stjórn efnahagsmála á Íslandi stenst ekki nema menn ætli sér að vera með jákvæða raunvexti. Þess vegna tel ég það engin svör, þegar menn nú hlaupa í það vígið að nöldra um það einu sinni enn að það skuli ekki vera vísitölutrygging á skammtíma lánum heldur einungis vextir. Í því felst engin stefnumörkun, ekki nokkur.

Við höfum talað um það oft á undanförnum árum Alþfl.-menn að það væru í rauninni villimannlegar aðfarir í húsnæðismálum. Það væri villimannleg framkoma við ungt fólk. Og því miður hefur ástandið í þessum efnum sífelli verið að versna. Við verðum fyrir því, alþm., að ýmsir snúa sér til okkar í raunum sínum í húsnæðismálum. Þeir eiga m.a. ekki fyrir afborgunum af þeim lánum sem þeir hafa tekið, vegna þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað í þessum efnum, vegna þeirra svika að lengja ekki lánstímann til móts við það sem er að gerast í þjóðfélaginu, þannig að menn þurfi ekki lengri vinnutíma til þess að standa undir skuldbindingunum heldur en þeir gerðu ráð fyrir í upphafi.

Og hvaða svör höfum við? Við eigum það svar eitt að segja: Farið þið og reynið þið að taka einhvers staðar nýtt lán fyrir afborguninni af láninu sem þið eigið nú að borga af. Mönnum er vísað á það að labba á milli bankastjóranna og lánastofnananna og knékrjúpa fyrir þeim til þess að taka ný lán til þess að framlengja lánin sem þeir eru með. Af þeirri einföldu ástæðu að ekki einu sinni sú smáaðgerð sem felst í þessu frv. fékkst lögfest á árinu 1982.

Af þessum orsökum tel ég nauðsynlegt að við fáum að vita það afdráttarlaust hjá Friðrik Sophussyni hver sé afstaða Sjálfstfl. í þessu máli. Það hefur komið fram stuðningur allra annarra flokka hér, að því er ég fæ skilið, við þetta frv., þeirra sem til máls hafa tekið, og það eru allir flokkar að undanteknu Bandalagi jafnaðarmanna sem eru víst ekki með neinn fulltrúa hér í dag. (Gripið fram í: Þeir eru að sá grasfræi.) Má vera. En það er nú frost úti eins og stendur. (Gripið fram í: Einmitt þess vegna.) Já, þú gerir ráð fyrir að uppskeran verði eftir því. Ég skal ekki fara út í þá sálma. Ég skal ekki gera þetta mál flóknara en það er. Og húsnæðismál er þetta vissulega og það þarf víðar að taka til hendinni. En hér er þó um eitt skref að ræða sem á að vera viðráðanlegt. Og þetta er mjög takmarkað skref. Það er ekki verið að tala um það hér að greiða niður lán, eins og mér fannst Friðrik Sophusson vera að gefa til kynna að kæmi til álita. Hans ræða varð ekki skilin öðruvísi. Hér er verið að tala um þá einföldu aðgerð að lengja lánstímann til þess að greiðslubyrðin þyngist ekki og standa þannig við hin upphaflegu loforð. En hver er stefna Sjálfstfl. og Friðriks Sophussonar í þessum efnum? Við því eigum við heimtingu að fá svör hér og nú.