04.02.1985
Neðri deild: 38. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2605 í B-deild Alþingistíðinda. (2070)

267. mál, stjórn efnahagsmála

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður í þeirri von að þessari umr. geti lokið. Jæja, það virðist vera óþarfi að gera ráð fyrir því að henni ljúki fyrir kl. 4, en það skiptir ekki máli.

Þetta frv. sem hér er til umr. er frv. um að lengja lán í vissum tilvikum og flestum tilvikum. Það er ekki um að niðurgreiða vexti á nokkurn hátt, eins og hefur komið mjög skýrt fram hjá nokkrum ræðumönnum sem talað hafa fyrir hönd Alþfl.

Menn hafa kvartað undan því að hafa ekki fengið skýr svör þegar ég talaði hér áðan. Ég skal gera tilraun til að svara skýrar og ég vonast þá til þess að þeir sem á mig hlýða hlusti þá nákvæmlega á hvað sagt er og reyni ekki að snúa út úr eða misskilja með nokkrum hætti. Þetta á ekki við formann Alþfl., því að hann var ekki viðstaddur þegar sú ræða var flutt, þ.e. núv. formaður.

Það sem ég vil gera er ósköp einfaldlega það að gera mun á stuttum og löngum fjárskuldbindingum. Ég tek undir það með þeim sem hafa talað frá Alþb., m.a. hv. 7. þm. Reykv., að mér finnst það eðlilegt að það séu ekki verðtryggingar í gangi á stuttum fjárskuldbindingum þegar laun eru ekki verðtryggð. Það þýðir ekki það að raunvextir verði neikvæðir. Það þýðir hins vegar það að það verður ekki beint samband á milli verðhækkana, hvort sem um er að ræða neysluvörur eða byggingarvörur, og vaxtastigsins. Það þarf að rjúfa það samband og að mínu viti er eðlilegt að það gerist á sama tíma og við höfum gert það þegar um laun er að ræða. Þetta á við um styttri skuldbindingar.

Um þær lengri er það að segja að þar koma önnur sjónarmið til greina. Þar verðum við að skilja á milli þeirra lána sem ríkið hefur tekið að sér að lána og við tölum hér um húsnæðismál. Ég vil ganga lengra en Alþfl. Mér finnst koma til greina, og þá sérstaklega fyrir þá sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta skipti, að ríkið hreinlega niðurgreiði vexti eða hafi léttari verðtryggingu fyrir þá sem eru að byggja í fyrsta skipti, sem eru að komast yfir þröskuldinn. Á það legg ég áherslu að ég vildi ganga lengra um konverteringar og lengingu á lánum en þetta frv. gerir ráð fyrir. Þetta frv. gerir ráð fyrir því að menn borgi nákvæmlega jafnmikið og þeir áttu að gera skv. samningi, sem þeir hafa gert, en á heldur lengri tíma. Og þá geta auðvitað ekki aðrir notað þá peninga á meðan.

Þá kem ég að Búsetamálinu. Um það var rætt og formaður Alþfl. stóð hér upp og sagðist styðja Búsetamálið. Og ég skildi hann þannig að hann vildi að leigusamvinnufélög á borð við Búseta gætu fengið sömu lánafyrirgreiðslu og fæst nú úr verkamannabústaðakerfinu, m.ö.o. 80% lán sem væru greidd jafnóðum og byggt er.

Á meðan menn benda ekki á fjármagn, sem getur runnið til þessara mála, þá hlýtur maður að álykta sem svo að þetta fjármagn eigi að taka úr þeim sjóði sem nú er notaður til húsnæðislánakerfisins. (JBH: Nei, það var bent á fjármagn stóreignaskattsins.) Þá segir hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson að hann vilji stóreignaskatt. Hann vill nýja skatta á gamla fólkið í landinu, sem býr í stórum eignum, til þess að borga þetta niður. (JBH: Nei.) Nú, þá verður hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson að koma hingað upp og skýra sitt mál enn þá betur. Hann verður ekki skilinn öðruvísi. Það er nefnilega þannig að peningar verða ekki notaðir nema einu sinni og ef við ætlum að auka Búsetakerfið og gera alla að leiguliðum hér á landi eins og hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson vill gera (JBH: Nei.) þá geta færri byggt yfir sig sitt eigið húsnæði. (Gripið fram í.) Og ég tek það fram — hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, þú færð orðið hér á eftir — ég tek það fram að við höfum lagt á það áherslu að hjálpa fremur til og liðka fyrir frumbýlingana þannig að þeir geti eignast sitt húsnæði af því að við teljum það mjög mikilvægt að gera sem flesta að eignamönnum einmitt í því skyni, sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson gat hér um í sinni ræðu, að reyna að skipta auðnum í landinu jafnt: Gera ekki suma að eignalausum leiguliðum og aðra að stóreigendum. Á það leggjum við áherslu. Sá er munurinn.

Þetta held ég, herra forseti, að þurfi að koma fram í þessu máli og ég vona nú að ég verði á engan hátt misskilinn þegar ég lýsi mínum sjónarmiðum. En það sem þarf að koma fram og skiptir kannske máli er að stjórnarflokkarnir hafa verið að ræða þessi mál. Þær tillögur sem þeir munu gera eru enn ekki tilbúnar. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt, hv. þm. Svavar Gestsson, þeir ræða margt. En ég hef sagt að það sé sjálfsagt að taka á þessu máli og ræða það í hv. fjh.- og viðskn. Ég hef enga fordóma gagnvart því ef hægt er að liðka til í þessu máli, nema síður sé. Það mun verða rætt í nefndinni og þá gefst okkur færi á því þegar málið kemur hér til 2. umr. að ræða það frekar.