05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2609 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

193. mál, framkvæmd höfundalaga

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. 12. þm. Reykv. á þskj. 213 um framkvæmd höfundalaga einkum að því er varðar ólöglega meðferð á myndböndum, sérstaklega eftir tilkomu laga nr. 78/1984 um breytingu á höfundalögum frá 1972, vil ég gefa eftirfarandi upplýsingar eftir að hafa aflað umsagna ríkissaksóknara og rannsóknarlögreglustjóra ríkisins:

Um 1. lið fsp. skal tekið fram að ekki hefur verið leitað sérstakra fjárveitinga vegna rannsókna á brotum á þessu sviði. Má á það benda að kærur út af brotum á umræddum lagaákvæðum komu fyrst til á seinni hluta árs og er ekki unnt að sjá enn hve umfangsmikil rannsóknarmeðferð á þessum málaflokki verður. Hins vegar þykir rétt að geta þess að við fjárlagagerð fyrir embætti rannsóknarlögreglustjóra ríkisins hefur ekki tíðkast að úthluta sérstökum fjárveitingum til þess að sinna ákveðnum málaflokkum, heldur hefur fjárþörf embættisins verið metin í heild, enda verður vart séð hvernig unnt er að hafa annan hátt á þar sem tíðni afbrota innan einstakra málaflokka er ákaflega breytileg frá ári til árs. Hins vegar mun hv. alþm. það kunnugt að við afgreiðslu fjárlaga er ekki orðið við fyllstu óskum þessarar ríkisstofnunar frekar en allra annarra um fjárveitingar.

Varðandi 2. og 3. lið skal upplýst að ríkissaksóknara er ætlað lögum samkvæmt að meta hvort í kæru sé greint nægilega frá kæruefni til þess að hann geti tekið ákvörðun um að stofna til rannsóknar eða hvort ástæða sé til að fara fram á frekari rannsókn á kæruefni sem þegar hefur hlotið einhverja rannsókn. Á sama hátt hvílir á ríkissaksóknara að meta hvort rannsókn leiði til ákæru eða ekki. Þessar meginreglur opinbers réttarfars eiga við hvort sem um er að ræða brot á almennum hegningarlögum eða sérrefsilögum.

Í tilefni af greindri fsp. var leitað eftir upplýsingum frá embætti ríkissaksóknara. Með bréfi, dags. 11. des. s.l., upplýsir ríkissaksóknari eftirfarandi, en eins og hv. fyrirspyrjanda er kunnugt var ég reiðubúinn að svara þessari fsp. fyrir jólahlé:

„Eftir gildistöku laga nr. 78/1984 um breytingu á höfundalögum nr. 73/1972, þá munu embætti ríkissaksóknara hafa borist sex kærur varðandi ætluð brot á höfundalögum. Allar þessar kærur voru teknar til athugunar og afgreiðslu á þann veg að í fimm málanna hefur verið mælt fyrir um opinbera rannsókn að því marki sem kæruefnin gáfu tilefni til, en í einu málanna var eigi talið unnt að verða við beiðni um opinbera rannsókn. Framangreind mál bárust embætti ríkissaksóknara á tímabilinu frá 4. sept. til 15. nóv. s.l. og hlutu framanlýsta afgreiðslu fljótlega eftir að þau bárust, þ.e. á tímabilinu frá 2. okt. til 27. nóv. s.l.“

Samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara 29. fyrra mánaðar hefur ekkert þessara mála borist embættinu á ný svo eigi er unnt á þessu stigi málsins að segja til um hver verður endanleg afgreiðsla þeirra af ákæruvaldsins hálfu.