05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2615 í B-deild Alþingistíðinda. (2081)

240. mál, sjúkrasamlög

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, sem ég hlýt að skilja svo að þrátt fyrir allt standi jafnvel til að nota þá vinnu sem sú nefnd sem ég minntist áðan á vann frá sumrinu 1982 til 1983. Hins vegar hlýt ég að upplýsa að sú nefnd, sem nú hefur verið skipuð, virðist vinna mjög svipað því sem hún hefði aldrei það plagg séð, sem ég var hér með í höndunum áðan, því að 2. janúar, sennilega sama dag og hæstv. ráðh. talaði við formann nefndarinnar, barst bréf til Tryggingastofnunar ríkisins þar sem óskað var skýrslu frá hverjum deildarstjóra fyrir sig um starfsemi deildanna.

Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðh. sem er maður með kímnigáfu í ágætu lagi: Er það nú ekki smáskondið að þetta starf verði allt hafið að nýju? Lái hver sem vill deildarstjórum Tryggingastofnunar þó að þeir taki þetta vægast sagt ekki alvarlega. Grunur minn er sá að þeir geri ekki annað en taka ljósrit af því verki sem þeir unnu fyrir nefndina sem við sátum í.

Ég held að við höfum annað við fjármuni ríkisins að gera en að vera að henda þeim í þess háttar vitleysu. Auðvitað ætti að vera starfsfólk í rn. sjálfu sem er fært um að lesa þetta mikla verk í gegn. Hér er ekki um að ræða neitt sérstaklega frumlegar tillögur. Þetta er búið að ræða í mörg ár og það hlýtur einhvers staðar að koma að því að ráðh. og rn. hans taki ákvörðun og velji þá kosti sem hann telur rétta þegar búið er að leggja þá upp í hendur rn. Ég get ekki séð nokkra einustu ástæðu til þess að nú komi eitthvert fólk, sem mér vitanlega hefur ekki afskaplega mikið unnið að endurskoðun málefna tryggingakerfisins, nú komi glæný nefnd til að vinna þetta verk allt meira og minna upp aftur og síst af öllu að hafa svo hraðan á. Ég hélt að málið væri komið á það stig að rn. og hæstv. ráðh. gætu farið að láta vinna hina tæknilegu vinnu við frv. sem mér skilst að til standi að leggja fram. Ég held sem sagt að þarna sé sannarlega einni nefnd ofaukið.

En vegna orða hv. 3. þm. Norðurl. v. skal ég taka fram og upplýsa það, að þegar öllu er á botninn hvolft hafa sveitarfélögin nokkurn veginn greitt það sem þeim ber til sjúkrasamlaga. En það kemur auðvitað í slumpum og greiðsluerfiðleikar skapast oft um löng tímabil. En það skal ekki gefið í skyn að þau hafi ekki staðið í skilum. Það hafa þau gert skv. upplýsingum í riti Tryggingastofnunar og það upplýstist einnig í þeirri fsp. sem ég lagði fyrir þá sem um þau mál fjalla í Tryggingastofnun ríkisins.

Það skal verða endir míns máls að ég tel að það sé afskaplega nauðsynlegt að vinda nú bráðan bug að því að reyna að einfalda þetta kerfi. Með aukinni tölvuvæðingu verður þetta þægilegra og léttara í vöfum. Ég held að eins og nú er séu sjúkrasamlögin mestan part óþörf. Það þarf auðvitað skipulagningu við að koma á breytingu en ég held að hún hljóti á endanum að hafa í för með sér að sveitarfélögin losni við þessi 15% kostnaðarins, sem þau leggja til, en þeim verði þá fengið annað verkefni ef menn vilja halda því hlutfalli sem nú er milli útgjalda ríkis og sveitarfélaga. Að öðru leyti þakka ég hæstv. ráðh. fyrir svörin.