05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2618 í B-deild Alþingistíðinda. (2084)

194. mál, höfundalög

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi vék að ýmsum atriðum í sambandi við myndbandaleigur sem eru utan þess sviðs sem ég ætla að fjalla um, en sú spurning sem beint er til mín er einungis um þetta: Hvað líður framkvæmd á lögum nr. 78 frá 1984, um breytingu á höfundalögum nr. 73 frá 1972, sem samþykkt voru í lok síðasta þings? Þetta er það atriði sem að menntmrn. snýr í þessu máli.

Fsp. lýtur að framkvæmd 1. gr. þessara laga, sem samþykkt voru á síðasta ári, en greinin fjallar um að lagt verði „höfundarréttargjald“ á auð hljóð- og myndbönd og tæki til upptöku verka á hljóð- og myndbönd. Gert er ráð fyrir í lögunum að stofnuð verði sameiginleg innheimtumiðstöð rétthafa, þar með talinna listflytjenda og framleiðenda, er innheimta skuli höfundarréttargjaldið og ráðstafa því, en innheimtumiðstöðinni skuli settar samþykktir í samvinnu við menntmrn. og þær verða háðar staðfestingu þess. Það dróst nokkuð hjá rétthöfum að stofna þessi samtök, en það hefur nýlega verið gert og samdar samþykktir fyrir innheimtumiðstöðina. Höfundarréttarnefnd hefur fjallað um samþykktirnar og mælt með staðfestingu þeirra við rn. og samþykktirnar voru staðfestar 10. des. s.l.

Skv. lögum setur menntmrh. nánari reglur um höfundarréttargjaldið, m.a. um verðtryggingu þess. Verið er að semja þessar reglur og drög að þeim eru til athugunar og umsagnar hjá höfundarréttarnefnd þar sem saman eru komnir helstu sérfræðingar um þessi mál. Umfjöllun nefndarinnar er á lokastigi og má búast við að reglurnar verði gefnar út síðar í þessum mánuði.

Rétt er að geta þess að skv. 10. gr. laga nr. 78/1984 er ráðh. heimilt að fresta því að setja reglur skv. 1. gr. um innheimtu gjalds af myndböndum og tækjum til upptöku á myndbönd. Skv. tillögu höfundarréttarnefndar hefur verið ákveðið að nota þessa heimild og fresta innheimtu höfundarréttargjalda af auðum myndböndum og myndbandatækjum um allt að einu ári. Höfundarréttur að myndböndum er að jafnaði allmiklu flóknari en af hljóðböndum og því talið eðlilegt að fá nokkra reynslu af innheimtu gjaldsins af hljóðböndum, enda er þetta sami háttur og hafður hefur verið á í öðrum löndum þar sem gjald hefur verið á lagt, t.d. í Austurríki. Rétthafar að myndböndum munu að sjálfsögðu öðlast rétt á aðild að samtökunum um innheimtumiðstöðina strax og hafin verður gjaldheimta í þeirra þágu.

Það er von mín að lög þessi megi verða til þess að bæta höfundum, listflytjendum og framleiðendum og rétthöfum yfirleitt þann fjármissi sem leitt hefur af tækniþróun síðustu ára.

Þegar lög þessi voru sett var einmitt aðferðin við framkvæmdina, aðferðin við það hvernig ætti að framfylgja málunum, sem sagt hið opinbera réttarfar, eitt höfuðatriðið sem rétthafar lögðu áherslu á að lögfest yrði. Það var gert með þessum lögum og vissulega má segja að ekki sé full reynd á það komin hvort sú ráðstöfun hefur borið þann árangur sem rétthafarnir ætluðu. Vissulega kemur fram í máli fyrirspyrjanda að þessi ráðstöfun hefur ekki borið nægilegan árangur að hans mati, en ég vonast til þess að með nánari reglum um framkvæmd verði árangur betri.

Hitt er svo annað mál, og það varðar ekki það sem að mínu rn. snýr, en ég vil gjarnan taka undir það, að að sjálfsögðu hljóta myndbandaleigurnar að verða að hlíta almennum lögum um viðskiptafyrirtæki. Ég verð að játa að mér hafði ekki dottið annað í hug en að þau hlytu að vera bókhaldsskyld. Nú er ég komin yfir á önnur svið og ég hef ekki sérstaklega kannað lög um þetta efni, en mér finnst þetta hljóti að liggja í augum uppi. Þau hljóta að verða að hlíta slíkum lögum, enda er þarna um skráð firmu að ræða og ekki um neina óopinbera starfsemi að ræða. Þarna er um að ræða fyrirtæki sem eru öllum opin og vitanlega hljóta þau að verða að hlíta almennum reglum.

Hv. fyrirspyrjandi nefndi það atriði að miðar væru falsaðir á snældum o.s.frv. Það er málefni sem í sjálfu sér snertir ekki höfundalögin. Þar er um að ræða brot allt annars eðlis og sýnist mér liggja nokkuð í augum uppi hvers eðlis þau eru. Það er ekki mitt að fjalla um þau. En allt eru þetta auðvitað atriði sem skipta máli til þess að höfundar, listflytjendur og aðrir sem hlut eiga að máli geti gætt réttar síns.

Ég vona, herra forseti, að ég hafi upplýst á hvaða stigi undirbúningur reglna um framkvæmd þessara laga er og ég hygg að það sem eftir er af þeim undirbúningi sé mjög skammt undan.