05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2619 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

194. mál, höfundalög

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans. Það kemur hins vegar nokkuð spánskt fyrir sjónir ef hæstv. ráðh. telur að ef gögn Kvikmyndaeftirlitsins, sem heyrir undir menntmrn., séu fölsuð komi það rn. ekki við, heldur eigi annað rn. að grípa í taumana, dómsmrn. Ég hefði álitið að ekki ætti algjörlega að láta þetta fara fram hjá sér og Kvikmyndaeftirlitið sjálft og rn. ættu að fylgja því eftir að þessi liður þessarar stórkostlegu fölsunar og svika væri tekinn fyrir. Nóg um það.

Ég þakka ráðh. aftur fyrir svörin, en vil segja nokkur orð vegna þess að komið var inn á skattaumræðu varðandi myndbönd. Ég vil lýsa því nú þegar yfir að ég er mótfallinn því að nýir skattar séu lagðir á auð myndbönd sem eru þegar orðin almenningseign hér og í nágrannalöndum okkar og eru notuð til heimilisnota. Sú tækni hins vegar er til sem gerir kleift að koma í veg fyrir að auð bönd séu misnotuð af þeim sem vilja hafa fé fram hjá lögboðnum sköttum. Þau eru merkt á sérstakan hátt, þessi bönd, annaðhvort í tolli eða innflytjendur eru skyldaðir til að tölvumerkja auð bönd. Þá er mjög auðvelt fyrir þá sem eftirlit hafa með myndbandaleigunum að sjá hvað er falsað og hvað er ólöglegt og hvað er ekki. Það hefur skeð sama hér og í mörgum nágrannalöndum okkar að yfirvöld hafa hvorki fylgst með þróun þessara mála eða hver vandamálin eru. Það er rétt, sem hæstv. menntmrh. sagði, að rétthafar lögðu megináherslu á að tryggja sinn rétt og það var talið að það hefði tekist með þeirri breytingu sem gerð var, en því miður er það ekki. Ég þakka hins vegar hæstv. ráðh. aftur fyrir svörin.