22.10.1984
Neðri deild: 5. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (209)

99. mál, kirkjusóknir

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl. Þetta er í þriðja sinn sem þetta frv. er lagt hér fyrir Alþingi. Það var fyrst lagt fram árið 1982, en síðan á síðasta þingi. Það fór þá til menntmn., sem sendi málið til umsagnar og athugaði það ítarlega, en ekki vannst tími til að afgreiða það fyrir þinglok.

Í framsöguræðu á síðasta þingi gerði ég ítarlega grein fyrir efni frv. og mun ekki endurtaka það hér heldur vísa til þeirrar framsöguræðu.

Í l. kafla frv. er fjallað um umdæmaskiptingu innan þjóðkirkjunnar og í II. kafla um kirkjusóknir og skipan þeirra, um sóknarmörk, skiptingu kirkjusókna, sameiningu þeirra. Það er nýmæli í þessum kafla að tilgreindur er lágmarksfjöldi sóknarmanna 100, en í nokkrum sóknum eru færri en 100 sóknarmenn. En áður en af sameiningu sókna verður þarf að liggja fyrir samþykki viðkomandi aðila. Í III. kafla er fjallað um sóknarmenn og rétt þeirra til kirkjulegrar þjónustu og nokkuð um stöðu þeirra og réttindi og skyldur innan sóknar og þar af leiðandi innan þjóðkirkjunnar. Í IV. kafla er fjallað um safnaðarfundi, m.a. verkefni þeirra, starfshætti, fundarboðun, ályktunarfærni o.fl. Í V. kafla eru ákvæði um sóknarnefndir, skipun, störf og starfshætti. Það er m.a. lagt til að safnaðarfulltrúar verði kosnir af sóknarnefndum í stað þess að þeir eru nú kosnir á safnaðarfundi. Í VI. kafla eru ákvæði um starfsmenn kirkjusókna. Er þar um nokkur nýmæli að ræða. VII. kafli fjallar um héraðsfundi og héraðsnefndir. Þar er kveðið á um að í hverju prófastsdæmi skuli starfa þriggja manna héraðsnefnd sem er framkvæmdanefnd héraðsfunda.

Ég mun ekki fjölyrða frekar um efni frv., en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. menntmn., sem fjallaði ítarlega um frv. á síðasta þingi. Ég vænti því að hún muni geta tekið það til afgreiðslu áður en mjög langt um líður.