05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2623 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

194. mál, höfundalög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það er aldeilis hárrétt að hér hefur ekkert óvenjulegt skeð. Jafngott og fyrirspurnakerfið er, þar sem þm. eiga kost á að spyrja ráðh. um ýmsar aðgerðir sem þeir telja nauðsynlegar, þá eru svörin frá hæstv. ráðh. ævinlega jafnþrautleiðinleg, og ástæðan fyrir því er sú að þeir semja þessi svör ekki sjálfir, heldur þreyttir embættismenn í rn. þeirra. Ég held að þm. séu kannske að kvarta hér yfir skorti á áhuga. Finnst mönnum ekkert gaman að vera ráðh. og geta ráðið einhverju? Einu sinni sátu hér hressir þm. og töluðu um ýmislegt sem til bóta mætti verða. Svo komast þeir í ráðherrastóla og þá megum við hlusta á lesningu frá einhverjum dauðleiðinlegum embættismönnum uppi í rn. sem svör við fsp. Það eru ekki þeir sem við erum að spyrja.

Finnst hæstv. dómsmrh. bara allt í lagi að menn stofni fyrirtæki og selji ólöglega verk listamanna af öllu tagi, nú eða einhvern sóðaskap sem er öllum til skaða og er raunar bannað að hafa fyrir fólki? Finnst menntmrh. þetta allt í lagi? Auðvitað ekki. Hvorugum þeirra finnst það. Af hverju koma þeir þá hingað og lesa einhverja lesningu eftir einhverja embættismenn? Það sem okkur langar að vita er hvað þið viljið gera. Það eru þið sem mótið stefnuna. Það eruð þið sem hafið valdið til að framkvæma.

Það er aldeilis rétt að hér hefur ekkert óvenjulegt skeð, herra forseti. Þetta hefur verið jafndauðleiðinlegt og ævinlega þegar ráðh. sitja fyrir svörum. Ég vil hins vegar nota tækifærið og þakka hv. fyrirspyrjanda sem hefur kjark og áhuga til að spyrja sína eigin ráðh.: Hvað eruð þið að gera, hvert stefnið þið, hvað viljið þið gera? Þannig eiga þm. að vera. (Gripið fram í: Og ættu að vera ráðherrar.) Þeir væru jafnhundleiðinlegir þegar þeir væru komnir í ráðherrastól.

Það er þetta sem við erum að kvarta yfir: Við viljum fá stefnu. Hvað eruð þið að hugsa í rn.? Þið hafið valdið. Þið eigið að gera þetta. (Gripið fram í: Meira fjör.) Meira fjör og meira líf og meira yndi. Það er það sem við erum að biðja um.