05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2625 í B-deild Alþingistíðinda. (2098)

241. mál, starfsemi húsmæðraskóla

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Með hliðsjón af niðurlagi ræðu hv. fyrirspyrjanda mun ég svara spurningunum, sem fyrir liggja í þeirri röð sem þær koma fram, svona:

1. Hversu mörg skólahús í landinu eru byggð fyrir húsmæðrakennslu og hve mikið er þetta húsnæði að rúmmáli?

Svarið er: 11 skólahús, rúmmál 41 145 rúmmetrar.

2. Hversu margir þessara skóla eru nú starfandi?

Svar: Sex skólar.

3. Hve margir nemendur stunda nú nám í húsmæðraskólum?

Svar: 117 nemendur í hússtjórnarnámi og 1000 á námskeiðum.

4. Hve margir kennarar annast kennslu þeirra?

Svar: 20 kennarar.

5. Eru einhverjir skólanna nýttir til annarrar starfsemi en húsmæðrakennslu?

Svar: Fimm.

6. Hve mikið húsrými er í Húsmæðraskóla Reykjavíkur og hvaða starfsemi fer þar fram?

Svarið við fsp. um starfsemina er þetta: Fyrir áramót eru rekin námskeið bæði með dag- og kvöldkennslu fyrir fullorðna og komast þar færri að en vilja. Í boði eru eftirtalin námskeið:

Vefnaður, 7 vikur, 94 kennslustundir.

Fatasaumur, 6–8 vikur, 27, 32 eða 52 kennslustundir.

Matreiðsla, 5 vikur, 52 eða 80 kennslustundir.

Stutt matreiðslunámskeið, tveggja eða þriggja daga. Þá eru tekin fyrir afmörkuð efni, t.d. gerbakstur, glóðarsteiking, smáréttir og fleira.

Eftir áramót er gefinn kostur á hálfs vetrar námi og hefur þá yfirleitt verið fullskipaður skólinn.

Húsnæði Húsmæðraskóla Reykjavíkur er bærilega rúmgott. Þetta er stórt og myndarlegt hús, eins og hv. þm. kannske veit, hér á horninu á Sólvallagötu og Blómvallagötu. Getur hv. þm. e.t.v. litið á það í heimleiðinni. Það er mjög myndarlegt og sérlega fallegt hús, viðeigandi umgerð um svo göfuga námsgrein sem hússtjórnarfræði eru.