05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2625 í B-deild Alþingistíðinda. (2099)

241. mál, starfsemi húsmæðraskóla

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég fagna því að þessi fsp. er fram komin. Ég held að það sé full ástæða til þess að menn hugi að nýtingu þessa húsnæðis sem fyrir hendi er. Ég vil geta þess í leiðinni að nýting Húsmæðraskólans á Hallormsstað hefur oft verið mjög til fyrirmyndar, ekki bara í hinu almenna námskeiðahaldi sem þar hefur verið stundað, heldur ekki síður í því formi sem ég tel mjög til fyrirmyndar, að grunnskólar á svæðinu hafa nýtt húsnæðið til námskeiða

í hússtjórnarfræðum. Þangað hafa farið nemendur í efstu bekkjum grunnskólanna til náms í þessum fræðum, hópar komið frá hinum ýmsu stöðum, og ég held, hvað sem menn hafa viljað segja um það nám, að það hafi komið að verulegu gagni fyrir viðkomandi, m.a. vegna þess að í grunnskólunum sjálfum er næsta lítil aðstaða til að stunda nám af þessu tagi.

Það er nefnilega mergurinn málsins, sem reyndar kom fram, að mig minnir, í fréttatilkynningu frá sjálfu rn. á sínum tíma í haust, að grunnskólarnir eru ekki undir það búnir að taka við heimilisfræðunum inn í sitt húsnæði nema að mjög takmörkuðu leyti, m.a. vegna skorts á skólaeldhúsum og nauðsynlegum tækjum sem þar þurfa að vera, til þess að heimilisfræði séu stunduð þar almennilega.

Ég get sem sagt ekki stilli mig um að leggja einu sinni enn áherslu á gildi heimilisfræði í skólastarfinu og þá að sjálfsögðu hið hagnýta gildi í lífinu sjálfu.

Sem skólastjóri fyrr á árum gerði ég veikburða tilraunir í þessa átt á grunnskólastiginu við ófullkomnar aðstæður. Og ég man það mætavel að fáar námsgreinar voru eins vinsælar bæði af stúlkum og drengjum í þann tíð og svo hygg ég að enn muni vera ef sæmilega er að verki staðið.