05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2629 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

241. mál, starfsemi húsmæðraskóla

Þórarinn Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram og þakka hv. 10. landsk. þm. fyrir að hreyfa þessu máli. Ég held að það sé fyllilega ástæða til að því sé hreyft þar sem á undanförnum árum hefur verið minni aðsókn að húsmæðraskólunum en æskilegt hefði verið, þó að mér virðist nú vera aftur að aukast aðsóknin.

Það verður að segjast eins og er að við tilkomu fjölbrautaskólanna minnkaði aðsókn að húsmæðraskólunum um tíma. En nú virðist ýmislegt benda til þess að nemendur séu að koma aftur til húsmæðraskólanna og er ánægjulegt til þess að vita. Ég held að þetta hafi m.a. orðið vegna þess að námið í húsmæðraskólunum veitti ekki nægjanlegan rétt inn í fjölbrautaskólakerfið og það sé hægt að gera betur á þeim sviðum. Og eins líka hitt að þessir skólar þurfa náttúrlega að geta tekið á málum á vissan hátt öðruvísi en verið hefur, t.d. með stuttum námskeiðum sem nokkuð hefur verið gert að. Sá húsmæðraskóli sem ég þekki best til, Húsmæðraskóli Suðurlands á Laugarvatni, hefur alltaf starfað í 8–9 mánuði þó að nokkuð hafi dregið úr nemendafjölda á tímabili.

Ég ætla að taka það fram að þessi skóli, Húsmæðraskóli Suðurlands á Laugarvatni, kennir fleirum en þeim nemum sem eru beinlínis í skólanum. Þar fer fram kennsla í matreiðslu og heimilisfræði bæði fyrir grunnskólann og héraðsskólann á Laugarvatni og það eru líka nemendur þó að þeir séu ekki eins marga tíma við nám og húsmæðranemar eru. Allt þetta finnst mér vera í hina réttu átt. Ég held að okkur sé ákaflega nauðsynlegt að hvetja til áframhaldandi menntunar á þessu sviði og allir eigi að eiga jafnan rétt, bæði stúlkur og drengir.