05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2630 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

241. mál, starfsemi húsmæðraskóla

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hlýt að láta þess getið að mér þykja hafa orðið gleðileg sinnaskipti hjá Alþb. ef túlka má það sem fram kom í orðum hv. 10. landsk. þm. sem stefnu Alþb. Sannleikurinn er nefnilega sá að það hefur verið svo á síðustu árum að Alþb.-menn hafa heldur farið niðrandi orðum um húsmæðrafræðsluna og talið hana stuðla að einhverju kerfi sem þeir ekki aðhylltust í fjölskyldumálum og rekstri heimila, stöðu kvenna og stöðu karla. Það er meira að segja svo að nú mega húsmæðraskólar ekki lengur heita húsmæðraskólar, heldur heita þeir allir hússtjórnarskólar. Og ég man eftir þm. Alþb. sem mátti helst ekki heyra orðið húsmóðir nefnt. Það passaði ekki í þeirra pólitík. Þannig er nú þetta. En sem betur fer virðast menn hafa séð að þetta var óskynsamleg stefna og þeir hafa gengið til liðs við þá stefnu sjálfstæðismanna að efla einmitt þessi fræði.

Ég get sagt hv. þm. það að skömmu eftir að ég tók til starfa sem menntmrh. lágu fyrir spurningar um það í rn. hvað gera ætti við starfsemi húsmæðraskólanna og hvað gera ætti við héraðsskólana. Þetta eru stofnanir sem aðsókn hefur farið minnkandi að og það kostar mikið fé að halda byggingum þeirra við o.s.frv. Á að halda áfram húsmæðrafræðslunni í hússtjórnarskólunum? Ég get líka sagt hv. þm. að hún þarf ekki að fara í grafgötur um það að ég tel nauðsynlegt að efla húsmæðrafræðsluna í landinu, að efla heimilisfræði í grunnskóla og á ýmsum stigum og víkka út það námsefni, sem þar er boðið upp á, þannig að það taki til fleiri atriða en einvörðungu matargerðar. Því að einmitt í nútíma þjóðfélagi þarf fólk jafnvel enn meira á því að halda en áður, allur almenningur, að geta hagað störfum sínum með þeim hætti að heimili hafi þá umhugsun sem þarf, því sé vel sinnt svo að heimilisfólkinu geti liðið þar vel og notið þar góðra stunda og heilsusamlegs umhverfis þó að allt heimilisfólk vinni utan heimilis.

Það þarf þekkingu til að sinna heimilishaldi og sem betur fer hefur Alþb. komið auga á þetta. Í samræmi við þá stefnu sem m.a. kom fram í þáltill. sem hæstv. núv. forseti Ed., Salome Þorkelsdóttir, bar fram á sínum tíma hefur heimilisfræðin í grunnskólanum einmitt verið aukin. Ákvörðun var tekin um það á síðasta ári og á þessu skólaári hefur heimilisfræðin í grunnskólanum verið aukin bæði fyrir stúlkur og drengi.

Margt í máli hv. fyrirspyrjanda sýndi það að hún hefur ekki haft nægilegar upplýsingar um þróun þessara mála á undanförnum árum, enda er það ekki von ef þessi áhugi er jafnnývaknaður og hann hlýtur að vera hjá mörgum öðrum Alþb.-mönnum. Vel má vera að hún hafi að þessu leyti til verið skynsamari en margir þeirra og það er gott.

Hv. þm. minntist á að það væru einungis 117 nemendur í húsmæðraskólum. Þetta er rangt. Ég gat þess í svari mínu að það væru 1000 nemendur á námskeiðum. Og það eru námskeiðin sem virðast henta fólki betur núna en námsvist í heimavistarskólum. Það eru einfaldlega breyttir tímar, breyttar samgöngur og öðruvísi þarfir sem fólk hefur. Á námskeiðunum er víða mikil aðsókn, ekki síst karlmanna. Margir karlmenn sjá að heimili þeirra komast betur af auk þess sem þeir læra til skemmtilegra starfa með því að stunda nám í heimilisfræðum. Þess vegna hafa þessi námskeið einmitt verið vinsæl líka fyrir karlmenn. Bæði karlar og konur njóta því góðs af þessari starfsemi. Ég hygg að fræðsla í heimilishaldi sé eitt af því sem stuðlar best að því að þeir sem nú eru ungir, þeir sem nú eru börn á grunnskólaaldri, verði á fullorðinsárum færari um það að halda sínum heimilum og fjölskyldum saman með því einfaldlega að menn skilji betur þau störf sem þarf að vinna á heimilunum. Þetta leiðir til betra samstarfs karla og kvenna um þau verk sem þar þarf að inna af hendi.

Í sambandi við tölurnar, sem hér voru lesnar áðan, að fimm skólar hefðu verið lagðir niður sem hússtjórnarskólar, vil ég geta þess að þar með er ekki sagt að í þeim sé ekki kennd heimilisfræði. Þeir hafa verið lagðir niður sem hússtjórnarskólar í hinum gamla skilningi. Það leit jafnvel svo út 5 tímabili að þetta væri markviss stefna. En svo er a.m.k. ekki nú. Þeim eina hússtjórnarskóla sem lagst hefur niður með gamla fyrirkomulaginu í stjórnartíð þessarar ríkisstj. var einfaldlega breytt í heimilisfræðaskóla með öðrum hætti. Hann varð hluti Verkmenntaskólans á Akureyri og húsnæði hans er fullnýtt fyrir heimilisfræða- og hússtjórnarkennslu.

Á Staðarfelli hætti skólinn 1976. Það hús er leigt heilbr.- og trrn. sem endurhæfingarheimili fyrir áfengissjúklinga, ávanasjúklinga, stendur nú hér í skjali embættisins.

Á Blönduósi hætti Kvennaskólinn störfum 1978 í því formi sem hann áður var. Þar fer þó fram kennsla í heimilisfræðum fyrir grunnskóla á Blönduósi en að öðru leyti hefur fræðsluskrifstofa Norðurl. v. aðsetur í húsinu.

Hússtjórnarskólinn á Laugalandi hætti störfum 1976 en þar fer fram heimilisfræðakennsla fyrir nemendur Hrafnagilsskóla. Héraðssamband eyfirskra kvenna hefur hluta af húsnæðinu til umráða.

Hússtjórnarskóli þjóðkirkjunnar á Löngumýri er hættur sem hússtjórnarskóli. Þjóðkirkjan hefur alveg tekið við rekstri hans.

Þessar upplýsingar vildi ég gefa til þess að fylla betur þá mynd sem gefin var hér í upphafi svo að ljóst sé að verulega er unnið að því að hússtjórnarfræðslan í landinu geti farið fram og hana megi efla m.a. með aukinni heimilisfræði í grunnskólakerfinu. Það er rétt að margir grunnskólar hafa ekki þann stofnbúnað sem til þarf. Það segir sig sjálft að þar er viðmiðunarstundaskránni að þessu leyti til ekki fylgt, vegna þess að ytri búnað og innri búnað í húsi vantar til þess að unnt sé að kenna ýmis heimilisfræði. En alls staðar þar sem það er hægt hefur þessi fræðsla verið aukin í samræmi við núverandi stefnu menntamála.