05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2634 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

253. mál, vistunarvandi öryrkja

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. á þskj. 431:

„Hvað líður aðgerðum til lausnar á vistunarvanda þeirra öryrkja sem við mesta fötlun búa?“

Á síðasta þingi flutti hv. þm. Helgi Seljan ásamt okkur hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur og Kristínu S. Kvaran svohljóðandi þáltill., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því að leysa vandamál þeirra öryrkja sem eiga sakir andlegrar og líkamlegrar fötlunar örðugt um vistun á þeim stofnunum sem fyrir eru. Helst yrði um að ræða að efla stuðning við hjúkrun í heimabyggð eða stofnun sérdeildar við ríkisspítala.“

Það kom fram í umr. og jafnframt í grg. að um væri að ræða 10–20 sjúklinga, sem næstum ógerlegt er að hafa á öðrum sjúkrahúsum, að ég tali nú ekki um á heimilum, þar sem fjölskyldulífi er beinlínis stefnt í voða. Þm. þriggja stjórnmálaflokka hér á hinu háa Alþingi tóku undir þessa till. Það var því von flm. að hún gæti náð fram að ganga. Svo fór samt ekki því að hv. heilbr.- og trn. klofnaði um málið. Hv. þm. Pétur Sigurðsson hafði framsögu fyrir meirihlutaáliti og sagði m.a. er hann mælti fyrir nál., með leyfi forseta:

„Í trausti þess að heilbr.- og trmrn. og félmrn. taki á þessu máli í samræmi við þá samþykkt stjórnarnefndar að stofna beri sérstaka sjúkradeild til vistunar og þjálfunar þeirra, sem vegna slysa hafa fatlast svo andlega að jafna megi til meðfæddrar þroskaskerðingar, að staðið verði við fyrirheit um fjárframlög úr Framkvæmdasjóði fatlaðra svo að markmiði ályktunarinnar verði náð á þessu ári telur Alþingi að ekki sé þörf á samþykkt þessarar till. og samþykkir að taka fyrir næsta mál á dagskrá“ — og lagði til rökstudda dagskrá.

Við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir skiluðum minnihlutaáliti og töldum þetta aldeilis ófullnægjandi. Við drógum mjög í efa að þær hugmyndir, sem fram höfðu komið um að sjúkradeild yrði stofnuð við Kópavogshælið og þar yrði gert ráð fyrir vistun 6–10 sjúklinga, væri raunhæf, bæði vegna þess að Kópavogshælið væri á engan hátt í stakk búið til að taka við þessum sjúklingum og vegna þess að okkur sýndist ekki augljóst að þeir vistmenn á Kópavogshæli, sem yrðu nú að víkja fyrir nýjum vistmönnum hefðu í nokkurt hús að venda.

Mér er ljóst og við tókum það bæði fram, hv. þm. Helgi Seljan og ég, að hér er um töluvert erfitt mál að ræða. En við lögðum á það áherslu að svo bágt gæti efnahagsástand þjóðarinnar ekki verið að ekki væri hægt að leysa vandamál þess fólks sem segja má að allra erfiðast eigi í þessu landi. En það eru aðstandendur og sjúklingarnir sjálfir að sjálfsögðu sem svona er komið fyrir.

Ráðh. sagði við þá umr. að hann væri alveg sammála flm. till. og raunar allri nefndinni um það að þarna væri úrbóta þörf. En hann taldi samþykkt till. ekki skipta höfuðmáli. Þetta vandamál væri peningalegs eðlis og sömuleiðis stjórnunarlegs eðlis. Þar sem ráðh. gaf í skyn að hann væri áhugasamur um að leysa þessi mál vorum við ekki að fara fram á einhverja margra ára áætlun heldur skjótar aðgerðir. Því tel ég nú ástæðu til að spyrja hæstv. ráðh. hvað hann og rn. hans hafa gert til að leysa a.m.k. vandamál einhverra þessara sjúklinga. Hann tók fram í umr. um þetta mál að þessi vandamál væru ólík. Auðvitað eru þau það. Hver einstaklingur hefur ákveðin vandamál sem kannske eru ekki lík vandamálum hinna. Þetta er ég tilbúin til að skilja. En ég hlýt að spyrja ráðh.: Hvað hefur verið gert frá því að umr. fór fram hér á síðasta þingi?