23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

34. mál, fjáröflun til íbúðalánasjóða

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Jónsdóttir):

Herra forseti. sú spurning brennur þungt á mörgum, sem standa í því að reyna að eignast þak yfir höfuðið, hvort staðið verður við þau fyrirheit sem gefin voru á s.l. ári varðandi lánveitingar hjá Húsnæðisstofnun. Í samþykkt ríkisstj. frá 22. sept. 1983 er kveðið á um breytingar á útlánareglum við Byggingarsjóð ríkisins frá 1. jan. 1984. Þar er m.a. kveðið á um að ný byggingarlán til þeirra sem byggja eða kaupa í fyrsta sinn skuli greidd í tveimur hlutum: Fyrri hlutinn greiddur mánuði eftir fokheldisstig og seinni hlutinn sex mánuðum frá útborgun fyrri hlutans.

Nú er mér kunnugt um að þeir, sem fengu fyrri hlutann greiddan í mars á þessu ári og áttu skv. þessari reglu að fá seinni hlutann í sept. s.l., hafa ekki fengið krónu af þeirri greiðslu enn og engin svör um hvenær þeir megi eiga von á greiðslum. Þetta leiðir til óöryggis hjá þeim fjölskyldum sem í hlut eiga, ekki síst nú þegar bankar hafa gefið út þá yfirlýsingu að þeir muni halda að sér höndum varðandi útlán. Eru menn því gerðir ómerkir orða sinna sem hafa tekið á sig skuldbindingar í þeirri trú að ríkisvaldið standi við sín fyrirheit. Til þess að fá glögga mynd af stöðu þessara mála í dag og óyggjandi svör um áform ríkisstj. í þessum efnum hef ég leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. félmrh. á þskj. 34 um fjáröflun til íbúðalánasjóða. Ég ætla að lesa hana með leyfi forseta:

„1. Hver er staða Byggingarsjóðs ríkisins nú varðandi fjáröflun, sundurliðað á eftirtalinn hátt:

a) vegna framlaga og skatttekna,

b) frá lífeyrissjóðum,

c) vegna skyldusparnaðar,

d) úr Atvinnuleysistryggingasjóði,

e) vegna annarra lána?

2. Hver er staða Byggingarsjóðs verkamanna nú varðandi fjáröflun, sundurliðað á eftirtalinn hátt:

a) vegna framlaga og skatttekna,

b) frá lífeyrissjóðum?

3. Hefur verið staðið við fyrirhugaðar lánveitingar úr íbúðalánasjóðum það sem af er þessu ári? Ef svo er ekki, hvaða áform eru uppi um úrbætur?

4. Er tryggt að fyrrnefndir lánasjóðir hafi nægilegt fjármagn til eðlilegra fjárveitinga það sem eftir er ársins?“

Sú meginskylda hvílir á ríkisvaldinu hverju sinni að íbúðalánasjóðir séu fjármagnaðir þannig að þeir séu í stakk búnir til að veita þau lán sem nægja almenningi í landinu til að koma sér upp þaki yfir höfuðið með þeim kjörum sem fólk getur staðið undir af almennum launatekjum. Við erum því miður langt frá því marki nú. Valda þar mestu síversnandi kjör og vaxandi vaxtabyrði auk þess sem lánsfé er af mjög skornum skammti. Ef í ofanálag bætast vanefndir á því lánsfé sem veitt er til íbúðalánasjóðanna er ástandið orðið mjög alvarlegt.