05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2636 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

253. mál, vistunarvandi öryrkja

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. þessi svör þó að óneitanlega gæti nokkurra vonbrigða hjá mér varðandi þá niðurstöðu, sem enn er ekki í sjónmáli en hann greindi frá að væntanleg kynni að vera, ef fjárveitingavaldið tæki þá þannig á málum að þetta yrði gert að forgangsverkefni. Ég verð að segja það að þegar stjórnarliðið hér í þinginu í fyrra sameinaðist um ákveðna afgreiðslu þessa máls okkar, svo sjálfsagt sem mér þótti það, þegar það sameinaðist um að vísa því frá með þessum hætti þá var það óvenjulegt mjög ef ekki var átak í augsýn. En á því byggðist álit meiri hl. allshn. í fyrra, að átak væri í augsýn og þess vegna væri ekki þörf á málinu.

Nú segir hæstv. ráðh. réttilega að það sé mikil þörf á athugun og úrlausn þessa máls. Í umr. um þetta mál kom fram undarlegt sambandsleysi milli frsm. meiri hl. allshn. og hæstv. ráðh., þeirra samflokksmanna, vegna þess að í framsögu hv. þm. Péturs Sigurðssonar kom hugmyndin um Kópavogshælið fram, að vísu sem hugmynd þáverandi stjórnarnefndar, en um leið gerði meiri hl. allshn. hana að sinni hugmynd. Eftir að ég hafði mótmælt þeirri hugmynd harkalega kom hæstv. ráðh. í ræðustól og tók algjörlega undir það. Og hann endurtók það nú og fagna ég því að sú leið var ekki valin.

Það er rétt að þessu fólki hefur ekki verið ýtt út úr kerfinu frekar en var í fyrra, síður en svo, og það hygg ég að hafi ekki komið fram í máli hv. fyrri fyrirspyrjanda, 10. landsk. þm. Ég viðurkenni að það er erfitt að draga mörkin og ég efast ekki um að svæðisstjórnir eigi býsna erfitt með að segja til um það hvað margir einstaklingar séu á þeirra svæði.

Við tókum það fram, sem fluttum þetta mál í fyrra, að sérdeild væri ekki endilega lausnin. En lausn yrði engu að síður að finna því að hér er um að ræða eitt þeirra vandamála sem hvað alvarlegust eru í heilbrigðismálum okkar og í málefnum fatlaðra um leið. Við flutning þessa þingmáls í fyrra og umr. um það kom það ítrekað fram hjá okkur flm. öllum að þetta verk væri vandasamt og engan veginn auðvelt úrlausnar. Því minni ástæða var til að afgreiða það með þeim fáránlega hætti sem gert var í fyrra, að málsins væri hreinlega ekki þörf. Eins og tekið var fram eru þessir aðilar ekki sérstaklega margir. Það eitt ætti að gera málið heldur auðleystara en ella. Ég trúi vart öðru.

Ég ætla aðeins, herra forseti, að ljúka máli mínu með því að segja frá einu dæmi sem ég þekki best. Það er austan af landi. Þar er vistun fjölfatlaðs öryrkja af völdum slysa á sjúkrahúsi hrikalegt vandamál fyrir viðkomandi, fyrir starfsfólkið, fyrir aðra þá sem á sjúkrahúsinu dveljast, fyrir stofnunina í heild. Þetta eina dæmi og fleiri svipuð hrópa í himininn og knýja á um efndir þess sem fyrirheit voru gefin um í nál. meiri hl. í fyrra en hefur greinilega ekki átt við minnstu rök eða fullvissu að styðjast.