05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2637 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

253. mál, vistunarvandi öryrkja

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans þó ég verði að taka undir það með hv. þm. Helga Seljan að þau valda mér nokkrum vonbrigðum. Í nóvember í fyrra var mælt fyrir þáltill. um úrlausn í þessum efnum. Í maí var nál. skilað og ekki talin þörf á að samþykkja till. þar sem aðgerðir væru í fullum gangi. Síðan hafa verið afgreidd ein fjárlög. Nú, ári seinna, talar hæstv. ráðh. um að að því verði unnið að tillögur liggi fyrir fyrir gerð næstu fjárlaga.

Sannleikurinn er sá að ég á erfitt með að trúa að það geti staðið á því að svæðisstjórnir hafi ekki gefið upplýsingar um hversu margir einstaklingar þurfi á þessari þjónustu að halda sem hér er verið að ræða um. Mér þykir það með hreinum ólíkindum að svæðisstjórnir bregðist svo hlutverki sínu. Ég get hins vegar upplýst ráðh. um að ég hygg að ef hann hefði skrifað okkur hv. þm. Helga Seljan hefðum við getað nefnt næstum því með nafni hvaða einstaklingar þetta eru. Þetta eru sem betur fer ekki margir einstaklingar. En þeir eru svo illa á sig komnir að það er bókstaflega ekki nokkurs staðar hægt að veita þeim þjónustu nema á sérstakri til þess gerðri deild. Og við lögðum á það áherslu að hér þarf engin hús að byggja. Það þarf einungis að veita fé til að fjölga starfsfólki og finna stað í kerfinu þar sem hægt er að koma þessum sjúklingum fyrir, eða staði. Við lögðum á það áherslu að hversu illa sem einstaklingur væri kominn hlyti hann að eiga rétt á því að geta verið sem næst heimili sínu og sínum nánustu en ekki að byggð yrði ein stofnun fyrir alla, sem svo er komið fyrir, á einhverjum einum stað á landinu.

Ég er ekki að ásaka ráðh. fyrir að þessi mál skuli ekki vera komin í lag. Mér er alveg ljóst að svo einföld eru þau ekki. Ég vil bara beina þeim eindregnu óskum til hæstv. ráðh. að þessu verki verði nú hraðað.

Ég vil að lokum fá að minna hæstv. ráðh. á að fyrir nokkrum árum stóð svæðisstjórn þroskaheftra í Reykjavík frammi fyrir foreldrum sem voru í ráðaleysi með einhverf börn sín, sem að mörgu leyti er mjög svipað komið fyrir og þeim sjúklingum sem við erum hér að tala um, og óþarfi að fara nánar út í það. Við byggðum ekkert hús. Við fórum hins vegar til þáv. hæstv. ráðh. Svavars Gestssonar og við fengum peninga til þess að kaupa hús og leysa vandamál þessara sex eða sjö foreldra sem við vorum í stanslausu sambandi við. Og ef það mætti skýra fyrir hv. þm. hvað við erum hér að tala um þá flutti móðir eins vistmannsins sem þar fór inn, sem var 15 ára gömul stúlka, nefndinni þakkir fyrir að leysa þennan vanda. Nú gætu þau hjónin, í fyrsta skipti síðan þetta barn fæddist, sofið bæði í einu. Þetta er fólk sem þarf að vaka yfir dag og nótt. Þetta eru engir venjulegir sjúklingar, þetta er neyðarástand sem verður að leysa. Og það verður að gerast hratt. Og ráðh. hefur tök á að gera átak í þessu.

Ég veit ekki hvort það er málinu til mikils flýtis að ráðslaga við lækna út um allt land. Ég held að út úr því komi lítið annað en að hver hefur sínar skoðanir á því hvernig beri að leysa þetta. Ég held að þarna sé komið að rn. að láta til skarar skríða.