05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2638 í B-deild Alþingistíðinda. (2112)

253. mál, vistunarvandi öryrkja

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Höfuðatriði í þessu máli sem og öðrum málum í heilbrigðiskerfinu er það að veita eins fullkomna umönnun og hægt er. Hitt liggur ekki ljóst fyrir, hvert ástand hvers öryrkja er. Þeir sem hafa orðið fyrir alvarlegum slysum og hafa skaddast bæði andlega og líkamlega eru svo ólikt á sig komnir að ástand þeirra er eins misjafnt og einstaklingarnir eru margir. Það segir alls ekki þá sögu að sjálfsagt og eðlilegt sé að láta alla þessa sjúklinga inn á eina og sömu deild, alls ekki. Þess vegna er málið ekki svo einfalt að það eigi bara að stofna deild.

Ég hef rætt þetta mál við marga mjög hæfa menn og það eru ákaflega skiptar skoðanir í þessu efni. Ég var með hugmynd um að leggja niður eina deild, sem er af allt öðrum toga spunnin, vegna þess að þar hefur aftur orðið önnur uppbygging. En þar voru mörg ljón á veginum. Og persónulega er ég ekkert trúaður á það að ég hefði með því gert öllum greiða sem í hlut eiga. Við getum aldrei gert öllum svo til hæfis að hver og einn geti heimsótt sín ættmenni með því að það sé deild í námunda við heimilið. Það er alveg útilokað í okkar þjóðfélagi með sem betur fer ekki fleiri sjúklinga en hér er um að ræða. Ég tel að það versta í þessu sé það ef umönnum svona sjúklinga er meira eða minna lögð á herðar foreldra eða heimila. Það verðum við að leggja okkur fram um að leysa þó að einhver sjálfstæð deild verði ekki stofnuð. Höfuðatriðið er að koma þessu þannig fyrir. Þar höfum við ekki alveg fullar upplýsingar, sem ekki er von, því að það er enginn sem hefur þær, nema við fáum þetta svona á takteinum. Það geta verið eitt, tvö, þrjú, fjögur tilfelli sem við ekki vitum um. Við vitum um flesta þessa sjúklinga og þeir eru ákaflega misjafnlega á vegi staddir.

Ég hef rætt við aðstandendur nokkurra þessara sjúklinga. Sjónarmið þeirra eru afar einstaklingsbundin. Sumir aðstandendur trúa því og treysta að endurhæfing þurfi að eiga sér stað meira en gert er. Þegar rætt er svo við viðkomandi lækna þá telja þeir endurhæfinguna vonlausa. Þannig eru skiptar skoðanir leikmanns og sérfræðinga í þessum efnum. En oftar er það þó sem þessar skoðanir fara saman.

Ég segi það við hv. fyrirspyrjendur sem og aðra þm. að þessi mál verða ekki leyst með einni deild eða einhverri skyndiákvörðun í þeim efnum. Hitt er höfuðatriðið, að vera vel á verði um það að þetta fólk njóti þeirrar hjúkrunar og þeirrar umönnunar sem hægt er að veita hverju sinni.