05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2639 í B-deild Alþingistíðinda. (2114)

269. mál, niðurskurður og sparnaður í ráðuneytum og stofnunum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Fsp. sú sem hv. 1. landsk. þm. beinir til mín er svohljóðandi:

„Hvernig hefur tekist að ná yfirlýstum markmiðum um 5% sparnað eða niðurskurð rekstrargjalda rn. og stofnana árið 1984? Þess er óskað að fram komi hver sé heildarsparnaður/niðurskurður og hvernig hann dreifist á rn. og stofnanir.“

Svarið er svohljóðandi: Fjárlög fyrir árið 1984 gerðu ráð fyrir að rekstrargjöld stofnana lækkuðu að raungildi um 5%. Miðað við verðlagsforsendur fjárlaga árið 1984 var áætlað að þessi sparnaður næmi alls um 95 millj. kr. vegna A-hluta ríkissjóðs. Við gerð greiðsluáætlunar fyrir árið 1984 áréttaði fjmrn. í bréfi til allra stofnana A-hluta ríkissjóðs þá ákvörðun Alþingis að draga skyldi úr umfangi rekstrar um 5% til þess að samræma rekstur fjárlögum. Þá ritaði rn. bréf hinn 1. febr. 1984 til allra ráðuneytisstjóra þar sem óskað var eftir að viðkomandi rn. leitaði eftir greinargerðum frá forstöðumönnum einstakra stofnana um hvernig náð yrði því marki á árinu 1984 að lækka launaútgjöld um 2.5% að raungildi og önnur rekstrargjöld um 5%. Fjmrn. bárust svör við framangreindu bréfi frá fjölmörgum forstöðumönnum þar sem þeir gerðu grein fyrir áformum sínum um framangreind atriði. Svör forstöðumanna gáfu til kynna að þá þegar væru hafnar ráðstafanir í stofnunum til að draga úr útgjöldum skv. ákvörðun Alþingis.

Ég get ekki að svo stöddu gefið upplýsingar um árangur sparnaðaraðgerða hjá einstökum rn. og stofnunum. Upplýsingar eru ekki fyrir hendi hjá öllum aðilum A-hluta ríkissjóðs um greiningu útgjalda eftir tegundum. Upplýsingar þessar munu liggja fyrir þegar A-hluti ríkisreiknings er tilbúinn, en áformað er að hann verði lagður fram fyrir þinglok. Ég mun þá gera grein fyrir þessu máli. Ég vil þó taka fram að miðað við þær upplýsingar sem nú eru til staðar má álykta að meginhluti þess sparnaðar, sem áformaður var á árinu 1984 og varðar lækkun rekstrargjalda, hafi náðst.

Fjárlög ársins 1984 gerðu ráð fyrir að „önnur rekstrargjöld“ næmu 1 877 millj. kr. Því til viðbótar var ákveðið með lögum nr. 43 frá 1984, um ráðstafanir í ríkisfjármálum o.fl., að auka útgjöld vegna rekstrar um 113 millj. og 66 millj. kr. voru samþykktar sem aukafjárveiting til „annarra rekstrargjalda“ á árinu 1984. Er því áætlað að rekstrargjöld A-hluta ríkissjóðs nemi samtals 2 056 millj. kr. Hækkun fjárheimilda til „annarra rekstrargjalda“ hefur því verið hækkun um 9.5% frá fjárlagatölu síðasta árs. Upphæð „annarra rekstrargjalda“ í fjárlögum 1984 var miðuð við verðlag í desember 1983 að viðbættri 4% meðaltalshækkun á árinu 1984 að frádregnum 5% sparnaði. Vísitala vöru og þjónustu hækkaði frá ársbyrjun til ársloka um 14.5% á árinu 1984. Vegin meðaltalshækkun nam um 8%. Hins vegar hækkuðu fjárheimildir um 9.5% sem svarar til um 20–30 millj. kr. hækkun umfram verðlag.

Þegar lagt er mat á þennan talnasamanburð verður að hafa í huga að meginhluti hækkananna að fjárhæð 113 millj. kr., sem heimilaðar voru með lögum nr. 43 frá 1984, eru hækkanir til leiðréttingar á tölum fjárlagaársins 1984.