05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2642 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

269. mál, niðurskurður og sparnaður í ráðuneytum og stofnunum

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti. Ég má til með að vekja athygli á þeim gagnstæðu skoðunum sem fram komu annars vegar hjá forstöðumanni stofnunar og hins vegar hæstv. fjmrh. Annars vegar segir fyrrv. forstöðumaður stofnunar, hv. 5. þm. Norðurl. e., að það hafi orðið að fara í kringum fyrirmæli fjmrn. með því að leita leiða til að afla aukinna tekna. Mér þætti fróðlegt að vita hvort það hafi þá verið í formi aukafjárveitinga eða hvers lags leiða hafi verið leitað. Enn fremur sagði hann að þessi tilmæli væru óframkvæmanleg og mundu ekki heppnast. Hins vegar kom fram í máli hæstv. fjmrh. að töluverður árangur hefði náðst af aðgerðunum. Einnig segir í frv. til fjárl. fyrir árið 1985:

„Í fjárlögum yfirstandandi árs var gripið til ýmissa sparnaðarráðstafana í rekstri hins opinbera. Í frv. til fjárl. fyrir árið 1984 komu fram ýmis stefnumarkandi áform um samdrátt útgjalda, auk viðleitni til að tryggja að almenn rekstrarframlög endurspegluðu raunverulegt rekstrarumfang, sem oft var verulegur misbrestur á áður.“ — Svo kemur: „Almennt má segja að þessi viðleitni hafi borið sæmilegan ávöxt.“

Mér finnst ýmislegt stangast á í þessu.