05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2643 í B-deild Alþingistíðinda. (2121)

269. mál, niðurskurður og sparnaður í ráðuneytum og stofnunum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. spurði hvort ráðh. teldi það lausn eins og unnið hefði verið að sparnaði að hækka þjónustugjöld hjá Innkaupastofnun ríkisins úr 2% í 3. Ég tel það alls enga lausn, langt frá því að vera lausn. Ég hef ekki heyrt þetta fyrr.

Ég get upplýst virðulegan þm. um endurskoðun sem er á lokastigi. Ég skal ekki segja hvort ég fæ skýrslu í þessari viku eða næstu viku, en nefnd sú sem hefur verið að endurskoða störf og jafnvel athuga þörf fyrir Innkaupastofnun ríkisins mun skila skýrslu næstu daga. Þá er næsta skrefið að taka ákvörðun um hvort rétt er að reka þá stofnun áfram í því formi sem hún hefur verið rekin í eða hvort, eins og ég held, þarna þurfi að gera miklar breytingar á.

Ég tek líka undir það að ekki er rétt að byrja á byggingu stofnana án þess að gera sér grein fyrir þeim kostnaði sem reksturinn kann að leiða af sér, en eins og hv. síðasti ræðumaður sagði er það oft Alþingi sem samþykkir og samþykkir meira en tekjumöguleikar ríkisins leyfa. Ég er einmitt að vinna að því núna, eins og ég hef marglýst hér, að sundurgreina lagasafnið, og að því vinnur Páll Líndal, og að safna í eitt hefti öllu því sem til er af slíkum samþykktum í hverjum málaflokki fyrir sig. Páll hefur þegar lokið fyrsta þætti í verki sínu, þ.e. við landbúnaðarsektorinn. Ég mun reyna að eignast nægilega mörg eintök til að dreifa hér á Alþingi. Mér er sagt að það geti verið skemmtilestur, en ég skal ekkert dæma um það fyrr en alþm. hafa haft tækifæri til að gera það sjálfir.

Ég vil að það komi fram, samtímis því sem ég tek undir málflutning hv. 8. þm. Reykv., að ríkisstj. tók þá ákvörðun að hefja sem allra minnstar, helst engar, nýjar framkvæmdir, en reyna að klára þær sem voru og eru á veg komnar þannig að sem fæstar framkvæmdir standi með þungar fjárfestingar og jafnvel alfarið ónothæfar vítt og breitt um landið. Þetta held ég að ríkisstj. hafi tekist sæmilega.