05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2644 í B-deild Alþingistíðinda. (2123)

270. mál, aukafjárveitingar

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Hv. 1. landsk. þm. spyr á þskj. 448:

„Hafa ráðuneyti eða stofnanir fengið aukafjárveitingar árið 1984? Sé svo, hve miklar eru þær samtals og hvernig skiptast þær á ráðuneyti og stofnanir?“

Í inngangsorðum sínum tók hún til ummæli mín við fjárlagagerð 1983/1984. Það er rétt, sem hún hefur eftir mér, að fjárlögin voru þannig úr garði gerð á röngum forsendum fyrir árið 1983 að það sem stofnunum var ætlað að entist út árið gerði það ekki, einfaldlega vegna þess að fjárlögin voru þá byggð á 40% verðbólguforsendum, en um miðjan maí það sama ár, 1983, var verðbólgan mæld 84%. Það eru þannig skýringar á þessu. Ég vil taka það fram, eins og ég hef gert áður, að á engan hátt vil ég kasta rýrð á forvera minn í embætti því að hann á það alls ekki skilið. Það var ástandið í þjóðfélaginu sem gerði það að verkum að peningaástandið var slæmt.

Það var talað um og vitnað í mín orð að það væri nauðsynlegt að takmarka aukafjárveitingavald fjmrh. Ég tel ekki að fjmrh. hafi mikið aukafjárveitingavald umfram það sem fjvn. og Alþingi ætlar fjmrh. að fara með hverju sinni. Það er að sjálfsögðu, eins og í öllum fyrirtækjum og fjármálum, gert ráð fyrir einhverju óvæntu. Það var gert við upptöku á fjárlögunum í maí 1984. Eftir þann tíma hef ég haft samráð við fjvn. um aukafjárveitingar og á þriggja mánaða fresti gefið stjórnarandstöðunni mjög greinargóðar upplýsingar um stöðu ríkissjóðs, þannig að stjórnarandstaðan á að hafa öll þau gögn í hendi. Nú frétti ég að formaður þingflokks fyrirspyrjanda hafi verið fjarverandi, þannig að hv. þm. hafi ekki séð þann lista sem ég dreifði síðast, en ég er hér með lista sem ég skal skilja eftir hjá fyrirspyrjanda. Þar kemur fram sundurliðað lið fyrir lið hverjir hafi fengið fjárveitingar á árinu.

Til að svara spurningunni vil ég segja eftirfarandi: Aukafjárveitingar á árinu 1984 urðu samtals 421 millj. 956 þús. og skiptast þær á einstök rn. með eftirgreindum hætti: Forsrn. 5 millj. 605 þús., menntmrn. 79 millj. 47 þús., utanrrn. 14 millj. 18 þús., landbrn. 41 millj. 340 þús., sjútvrn. 55 millj. 978 þús., dómsmrn. 25 millj. 626 þús., félmrn. 9 millj. 177 þús., heilbrmrn. 34 millj. 805 þús., fjmrn. 17 millj. 17 þús., samgrn. 80 millj. 793 þús., iðnrn. 21 millj. 700 þús., viðskrn. 30 millj. og fjárlaga- og hagsýslustofnun 6 millj. 850 þús. Þetta gera samtals 421 millj. 956. Það er, ef ég man rétt, um 40 millj. meira en ætlað var í óvænt útgjöld við endurskoðun á fjármálum í maí, hið svokallaða gat. Ég held að það verði að teljast mjög lítið miðað við að árið áður skipti það nokkrum þús. millj. sem ráðstafað var í aukafjárveitingu af brýnni nauðsyn.

Þessu til viðbótar vildi ég láta koma fram að aukafjárveitingar fyrir árið 1984 hafa verið flokkaðar þannig: Helstu orsakir þess að aukafjárveitingar voru nauðsynlegar voru: Verðlagshækkanir 66 millj. 103 þús., uppgjörið frá 1983 — alltaf eru einhverjir reikningar sem bíða fram yfir áramótin og hafa ekki komið fram við bókhaldslegt uppgjör — 25 millj. 827, ríkisstjórnarákvarðanir 120 millj. 630, ráðherraákvarðanir 146 millj. 187, ákvæði laga og lagaheimilda 32.3 millj., útgjöld utan fjárlagaáætlunar 17 millj. 81 þús. og ákvæði verksamninga 13 millj. 828. Niðurstöðutalan er sú sama og ég las upp áðan, 421 millj. 956 þús. — En ég er hérna með lista, sem sýnir sundurliðun aukafjárveitinga á einstakar stofnanir og viðfangsefni, sem ég mun afhenda virðulegum fyrirspyrjanda.