05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2650 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

270. mál, aukafjárveitingar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það var kannske ekki við því að búast að hæstv. ráðh. hefði öll þau gögn sem til þyrfti til að svara þessari spurningu, þó að maður hefði getað ætlað, að því er fjölda undanþáganna varðaði, miðað við þær yfirlýsingar sem hann hafði áður gefið, að hann hefði sjálfur haft áhuga á því að fylgjast glöggt með því hversu mjög hann bryti sín eigin prinsip um að veita ekki aukafjárveitingar og hefði þess vegna töluna handbæra. En það er greinilega ekki tilvikið.

En að því er hinn hluta fsp. varðar þá misskildi hæstv. fjmrh. fsp. mína þegar hann sagði að hann hefði lesið hér upp sundurliðun á rn. Ég var ekki að spyrjast fyrir um þá sundurliðun á heildarfjárhæðinni á rn. sem hann las heldur sundurliðun á þeirri upphæð sem varðaði ráðherraákvarðanir og var tekið fram að væru ráðherraákvarðanir og eru 146 millj. kr. eða u.þ.b. þriðjungur upphæðarinnar. Það var sundurliðun á því sem mér fannst áhugavert að vita hvernig væri milli rn. Aðra hluti eins og verðlagshækkanir eða uppgjör frá fyrra ári hef ég ekki sérstakan áhuga á að fá sundurliðað. En þetta er það stór hluti aukafjárveitinganna ásamt með því sem nefnt er ríkisstjórnarákvarðanir, upp á 120 millj., að mér finnst fyllsta ástæða til þess að þingið fái vitneskju um hvernig þetta skiptist á ráðh.

Við erum að tala hér um 421 millj. kr. Mönnum finnst það kannske ekki há upphæð. En mér sýnist fljótt á litið að það sé engu að síður álíka há upphæð eins og allur eignarskattur einstaklinga og félaga var á árinu 1984. Og með tilliti til þeirra yfirlýsinga sem hæstv. fjmrh. hafði áður gefið um það að engar aukafjárveitingar skyldu vera hlýtur það að vera áhugaefni þm. alveg sér í lagi að fá sundurliðaðri og nákvæmari upplýsingar um þetta efni en hér hafa verið veittar, og kannske nákvæmari en hægt var að ætlast til út frá formlegri uppsetningu þeirrar fsp. sem hér var borin fram. En engu að síður hlýtur þetta að vera forvitnilegt, áhugavert efni fyrir þingið, og ég vænti þess að hæstv. fjmrh. sjái sér fært að veita nákvæmar upplýsingar í ljósi þeirra umr. sem hér hafa farið fram.