05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2653 í B-deild Alþingistíðinda. (2136)

264. mál, framhaldsskólar og námsvistargjöld

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil sérstaklega taka undir þau ummæli sem fram komu í máli hv. fyrirspyrjanda þegar hann gat um nauðsyn þess að ganga svo frá málum að greið leið sé á milli skóla — einstakra skóla eða brauta í skólum, svo að unnt sé að brúa það bil sem er í einstökum tilvikum. Ef nemendur flytjast á milli byggðarlaga þurfa þeir að geta flust á milli skóla án þess að mismunandi kerfi sem skólarnir starfa eftir verði þeim fjötur um fót.

Það hefur verið unnið að því nú undanfarið ár að koma á samkomulagi um kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga á ýmsum sviðum. Skólakostnaðurinn er eitt þessara sviða og það mál verður að leysast sem hluti þess stóra dæmis ef samkomulag á að fást um það. Í sjálfu sér væri ekkert því til fyrirstöðu að beita sér fyrir lagafrv. um það að ríkið tæki á sig enn þá meiri kostnað eða sveitarfélögin enn þá meira á einhverju öðru sviði, en ég tel það ekki hafa þýðingu nema við náum einhvers konar samkomulagi um að unnt sé að framkvæma slík lög og að peningar séu til fyrir framkvæmdinni, eða að ætla megi að þeir verði til.

Að því er varðar reksturskostnaðinn og þá sérstaklega námsvistargjöldin þá er um það að ræða að þar ræður rn. ekki eitt ferðinni, heldur er hér um að ræða lagaákvæði frá 1966. Lagaákvæðið hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta, sem um námsvistargjöldin fjallar:

„Standi sveitarfélag ekki að iðnfræðsluskóla skal það greiða námsvistargjald til þeirra skóla sem nemendur úr sveitarfélaginu sækja. Sveitarfélag nemanda telst í þessu sambandi lögheimili þess atvinnurekstrar er nemandinn stundar iðnnám við. stundi nemandi nám við verknámsskóla iðnaðarins án þess að vera kominn á námssamning hjá meistara skal lögheimilissveit nemandans greiða námsvistargjaldið.“

Þetta ákvæði stendur á bak við þá samninga sem gerðir hafa verið milli sveitarfélaga um námsvistargjöld fyrir nemendur í verknámi í fjölbrautaskólum. Þarna er um að ræða samkomulagsmál milli sveitarfélaga sem að formi til þarf að vera staðfest af menntmrn. Það er rétt að þetta veldur því að menn standa mismunandi að vígi að þessu leyti til eftir því hvort þeir eru í iðnnámi í fjölbrautaskóla eða í venjulegu menntaskólanámi.

Þessar greiðslur eru hlutdeild sveitarfélaganna í rekstri þessara framhaldsskóla og í allmörgum tilvikum er, eins og ég sagði, byggt á samningi viðkomandi sveitarfélaga, þess sem rekur skólann og þess sveitarfélags sem nemandi er frá. Rn. hefur ekki haft bein afskipti af þeim málum nema að því er iðnnemana varðar, þar sem um innbyrðis samskiptamál er að ræða. Rn. hefur margsinnis tekið það fram þegar það hefur fengið slík mál til umfjöllunar að þessi samskipti sveitarfélaga megi ekki bitna á viðkomandi nemanda, þ.e. það megi ekki hindra nám hans eða valda honum fjárhagslegri byrði. Þarna verði einvörðungu um uppgjörsmál og ákvarðanir sveitarfélaga að ræða hvernig þau standa að þessum greiðslum sín á milli.

Ég vona, hæstv. forseti, að með þessu hafi ég svarað fsp. Ég vil einungis taka fram að fyrirrennari minn, hv. þm. Ingvar Gíslason, lagði fram frv. til kynningar hér á Alþingi um skólakostnað sem ætlað var að koma á nokkru samræmi í greiðslum. Það gerði ráð fyrir að sérstakt jöfnunargjald yrði greitt úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að standa straum af hluta rekstrarkostnaðar framhaldsskóla. Þetta frv. hef ég ekki tekið fram eða flutt af þeim ástæðum, sem ég áðan greindi frá, að það hefur sérstakt átak verið gert núna í tíð þessarar ríkisstj. af hálfu hæstv. félmrh. til að koma á allsherjar samkomulagi um skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga á ýmsum sviðum. Á meðan það stendur yfir tel ég ekki fært að taka þessi mál sérstaklega út úr, heldur reyna að vinna að því að þau leysist í því sambandi.

Það má taka fram í sambandi við námsvistargjöldin að lögum skv. annast Jöfnunarsjóður sveitarfélaga það uppgjör, enda hafi viðkomandi sveitarstjórn samþykkt greiðsluskyldu sína. Af þessu öllu má sjá að menntmrn. fjallar ekki að heitið geti um þessi innbyrðis mál og ég tel að þessi atriði þurfi að taka upp til skoðunar þegar ljóst er hver niðurstaðan verður af heildarfrv. um kostnaðarskiptingu, þ.e. skiptingu kostnaðar milli ríkis og sveitarfélaga.