05.02.1985
Sameinað þing: 45. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2657 í B-deild Alþingistíðinda. (2143)

97. mál, heimaöflun í landbúnaði

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þessa ágætu till. sem hv. félagi minn og flokksbróðir Steingrímur J. Sigfússon er einn flm. að. Hann er ekki viðstaddur nú. Um leið og ég lýsi yfir eindregnum stuðningi við þessa þörfu till. vildi ég mega minna á hvernig máli svipuðu þessu hefur áður verið hreyft hér á þingi og hvernig því reiddi af.

1980 flutti Guðrún Hallgrímsdóttir, sem þá sat á þingi sem varamaður, svohljóðandi till. sem ég var meðflm. að. Ég les tillgr., með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna að hve miklu leyti unnt sé að láta framleiða með hagkvæmum hætti úr innlendum hráefnum og orku það fóður sem búpeningur landsmanna þarfnast. Kannað verði annars vegar að hve miklu leyti unnt sé að framleiða með hagkvæmum hætti úr innlendum hráefnum og orku það fóður sem búpeningur landsmanna þarfnast og hins vegar að hve miklu leyti með aukinni framleiðslu kjarnfóðurs úr innlendum hráefnum. Einnig verði kannað annars vegar að hve miklu leyti þetta verði gert með bættri verkun súrheys og þurrheys og hins vegar að hve miklu leyti með aukinni framleiðslu kjarnfóðurs úr inniendum hráefnum. Sýnist slíkt hagkvæmt yrði gerð langtímaáætlun um eflingu innlends fóðuriðnaðar og bætta heyverkun, þar á meðal um nauðsynlegar rannsóknir til að kanna gæði og endurbæta innlent fóðurefni, svo og til að þróa verkunar- og framleiðsluaðferðir fyrir þau.“

Till. þessari fylgdi ítarleg grg. sem ég skal ekki þreyta þingheim á að lesa, enda orðið býsna áliðið á þennan dag. Við Sveinn Jónsson endurfluttum till. árið eftir með nokkuð breyttu orðalagi, en sömu áherslum. Sú till. hlaut ekki afgreiðslu hér svo þörf sem hún var þá og er enn, og hefur til að mynda samhljómun við þá till. sem hér er flutt. Á þetta vildi ég minna nú, um leið og ég tek undir það að landbúnaður okkar á að byggja á inniendum aðföngum fyrst og síðast, hvort sem um er að ræða hinn hefðbundna búskap eða þá hinar margumræddu nýju búgreinar, og aðeins segja um það, að miðað við framleiðslu okkar og þann vanda sem þar hefur verið við að fást hlýtur það að vera umhugsunarefni og áhyggjuefni um leið og hversu mikið er um innflutt fóður, jafnvel til vissra nýrra greina í búskap hér, auk þess sem innflutt fóður er í allt of ríkum mæli notað sérstaklega varðandi mjólkurframleiðsluna. Á heimaöflun og framleiðslu innlends fóðurs verður því aldrei lögð of rík áhersla og því skal heils hugar tekið undir till. þessa. Þjóðhagsleg hagkvæmni er ótvíræð og fyrir atvinnugreinina, ekki síst þar sem hún liggur nú undir sífelldum áróðri óvandaðra manna, er nauðsynin rík og liggur í augum uppi.