06.02.1985
Efri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2672 í B-deild Alþingistíðinda. (2157)

243. mál, Veðurstofa Íslands

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð hér. Ég fer ekki út í efnislegar umr. um frv., en tek þó undir meginmál þess og tel það tvímælalaust af hinu góða.

Hér er um nánari og betri skilgreiningu að ræða á verkefnum þessarar þýðingarmiklu stofnunar. Það eru tveir efnisþættir þar sem ég vildi fagna alveg sér í lagi. Þar á ég við 6. liðinn varðandi verkefni Veðurstofunnar, að gera athuganir á loft- og úrkomumengun, þá reikna ég með því að það eigi við þá mengun sem Veðurstofunni er fært að gera athuganir á, og 7. liðinn, um snjóflóðarannsóknir.

6. liðurinn lætur að vísu ekki mikið yfir sér, en hefur mjög mikla þýðingu og ómetanlega ef þar verður unnt að standa að svo sem segir í aths. með frv., en þar segir svo á bls. 3, með leyfi virðulegs forseta:

„Á síðustu árum hefur mikið verið leitað til Veðurstofunnar varðandi mengun í andrúmslofti og úrkomu, magn hennar og dreifingu. Þessi starfsemi hefur farið vaxandi með tilkomu nýrra iðjuvera og ýmissa áforma um fjölgun þeirra. Veðurstofan hefur starfrækt eina stöð, þar sem gerðar eru mengunarathuganir, svo og tekið þátt í mengunarrannsóknum að beiðni ríkisstofnana og nefnda á vegum ríkisins.“

Því næst er rætt um tengsl þessa við Alþjóðaveðurfræðistofnunina.

Í öllu er þetta verkefni verðugt og verður aldrei of vel sinnt. Í landi eins og okkar, þar sem hreina loftið telst til okkar helstu lífsgæða, þarf að sjálfsögðu mikla aðgát varðandi alla þá iðju sem mengun veldur eða getur valdið. Út í mengun frá stóriðju fer ég ekki hér, enda þaulrætt efni, en þó aldrei of oft á nauðsyn þess minnt að þar sé fyllsta aðgát höfð og allt gert sem unnt er til að koma í veg fyrir mengun og hreinlega hafna stóriðju á stöðum þar sem mengun gæti orðið skaðleg lífríki og heilsufari fólks. Þar gildir einu hvort um er að ræða Reyðarfjörð eða Eyjafjörð, kísilmálmverksmiðju eða álver. Að þessu þarf að gæta sér í lagi. — Varðandi minn heimastað og væntanlega verksmiðju þar, þá tel ég það eitt það jákvæðasta við undirbúning hennar hversu vel hefur þar verið hugað að mengunarþættinum frá upphafi, enda sjálfsagt við þær aðstæður sem þar eru að mengunarhætta sé í algeru lágmarki eins og allar rannsóknir og væntanlegar aðgerðir tengdar þeirri verksmiðju benda til. En nóg um það.

Þegar ég var á ferð eystra í janúarbyrjun var önnur mengun þar í algleymingi, mengun sem sumir vildu kalla blessaða peningalykt, en var vægast sagt slík að í blíðunni þá var hálfgert myrkur um miðjan dag fyrir utan fnykinn sem af lagði. Þessu máli, um mengunarvarnir í fiskimjöls- og loðnuverksmiðjum okkar, hef ég oft áður hreyft hér á þingi og nú hefur þetta vandamál íbúanna verið flutt inn á borð þm. með þáltill. okkar hv. 5. þm. Austurl.

Um það mál verður rætt síðar, en athuganir Veðurstofunnar á þessum mengunarþætti hafa ekki verið ýkjamiklar eða nákvæmar, en þó einhverjar eins og getið er um í grg. þeirrar till. Ég vona sannarlega að í þessari skilgreiningu um mengunarathuganir Veðurstofunnar verði mengun frá þessum verksmiðjum og athugun á þeirri mengun ekki undanskilin.

En aðaltilefni þess að ég stóð upp varðar 7. lið verkefna Veðurstofunnar, athuganir á snjóflóðum skv. þeirri skilgreiningu sem er í aths. með frv. svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Með bréfi samgrn., dags. 11. maí 1978, fól rn. Veðurstofunni að annast af þess hálfu starfsemi sem lýtur að málum er varða snjóflóðavarnir. Veðurstofan hefur síðan gert þetta eftir því sem aðstæður hafa leyft hverju sinni. Ástæða þykir því til, að þessi starfsemi Veðurstofunnar verði skilgreind í lögum.“

Á þetta lagði hæstv. ráðh. einmitt áherslu áðan. Þál. um heildarlöggjöf um þessi málefni öll hefur verið samþykkt hér á Alþingi, var samþykkt 2. apríl 1981 um skipulag og varnir vegna hættu af snjóflóðum og skriðuföllum. Áttu þar hlut að þm. úr öllum flokkum. Nú skilst mér að hæstv. félmrh. sé með lagabálk í undirbúningi eða muni jafnvel leggja hann fram á þessu þingi. Það snertir óneitanlega efni þál. sem samþ. var 2. apríl 1981 og hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Á stöðum, þar sem byggð er risin og hætta er talin á snjóflóðum, verði komið upp eftirlits- og viðvörunarkerfi er tengist áætlun um rýmingu svæðanna þegar hætta er talin yfirvofandi. Á þeim stöðum á landinu, þar sem snjóflóðahætta er mest, verð~ stefnt að því að koma á fót svæðisstöðvum þar sem fylgst verði með veðurfari og öðrum þáttum, sem áhrif hafa á snjóflóða- og skriðuhættu, og safnað og miðlað upplýsingum til réttra aðila.“

Mér leikur því forvitni á að frétta hjá hæstv. samgrh. hvernig væntanlegur lagabálkur, sem kynntur hefur verið af hæstv. félmrh., kemur inn á það afmarkaða en um leið mikilvæga svið sem þetta frv. lýtur að og það hlutverk sem Veðurstofunni er hér falið með svo skipulegum og virkum hætti sem mér sýnist hér gert og ég tek heils hugar undir. Ég lít svo á að í væntanlegu frv. til l. um heildarlöggjöf af þessu tagi hljóti Veðurstofunnar að vera getið með sín verkefni, sem hér eru skilgreind, og ég vona að þar verði í engu slegið af miðað við það sem hér segir. Um leið og ég fagna því hversu skýrt og vel er tekið á þessum þætti hér vildi ég fá um það upplýsingar hjá hæstv. ráðh. hversu tengslum milli þessa frv.-ákvæðis og væntanlegra frv.-ákvæða í heildarlöggjöf um öll þessi mál, sem er boðuð af hæstv. félmrh., er varið og hvort þar sé samræmis gætt. Hæstv. ríkisstj. hlýtur að hafa fjallað um hið mikla frv. félmrh. sem hann hefur fyrir löngu tilkynnt að hann muni flytja og auglýsir mjög, eins og hans er háttur, löngu áður en frv. sér dagsins ljós hér á þingi. Um það var hins vegar ekki mikið sagt hvað í frv. fælist. Því vildi ég spyrja að því hvort samræmis væri gætt í heildarlöggjöfinni, sem væntanlegt er frv. um, og því frv. sem snertir Veðurstofuna sérstaklega.