23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

37. mál, fjárhagsstaða húsnæðislánakerfisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Svör mín við fsp. um fjárhagsstöðu og útlánagetu húsnæðislánakerfisins á þskj. 37 frá hv. 5, þm. Reykv. Jóni Baldvini Hannibalssyni eru á þessa leið:

1. Hvernig hefur tekist að standa við ákvæði lánsfjárlaga um fjármögnun Byggingarsjóðs ríkisins (miðað við fyrstu 9 mánuði ársins) með framlögum frá 1) skyldusparnaði?

Ég sé ástæðu til að endurtaka svar það sem ég gaf öðrum fyrirspyrjanda áðan: Skv. lánsfjárlögum 1984 átti framlag skyldusparnaðar til Byggingarsjóðs ríkisins að vera 45 millj. kr. Í endurskoðaðri áætlun Húsnæðisstofnunarinnar í byrjun ársins var skyldusparnaðurinn hins vegar áætlaður neikvæður um 30 millj. kr. og skv. lögum nr. 43/1984, um ráðstafanir í ríkisfjármálum o.fl., var Byggingarsjóði veitt erlent lán í stað skyldusparnaðarframlagsins að fjárhæð 75 millj. kr. Hv. 3. þm. Reykv. virðist ekki hafa skilið hvað hér var á ferðinni.

2. liður spurningarinnar er um Atvinnuleysistryggingasjóð. Skv. lánsfjárlögum átti Atvinnuleysistryggingasjóður að veita Byggingarsjóði lán að fjárhæð 115 millj. kr., en af skiljanlegum ástæðum var fjárhagsvandi Atvinnuleysistryggingasjóðs það mikill að hann taldi sér ekki fært að inna af hendi þá fjárhæð eins og til var ættast í lánsfjárlögum og varð því skv. lögum nr. 43/1984 tekið erlent lán vegna atvinnuleysistryggingasjóðsframlagsins til Byggingarsjóðs að upphæð 115 millj. kr. Auk þess hefur Atvinnuleysistryggingasjóður nú keypt skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins fyrir 15.6 millj. kr. umfram lánsfjárlögin þannig að Atvinnuleysistryggingasjóður hefur þegar gert betur en lánsfjárlög gerðu ráð fyrir á þennan hátt. Hins vegar tók ég fram áðan að skyldusparnaðurinn er áfram neikvæður — það er mál út af fyrir sig og Húsnæðisstofnun er nú að athuga það. Hann er áfram neikvæður og má gera ráð fyrir, eftir áætlun Húsnæðisstofnunarinnar að hann geti orðið neikvæður um allt að milli 50 og 60 millj. kr. við næstu áramót. Ég geri þess vegna ráð fyrir að ríkissjóður verði að hlaupa undir bagga með Byggingarsjóði að því er varðar þennan þátt skyldusparnaðarins til þess að hægt sé að greiða hann út með eðlilegum hætti.

3. liður 1. spurningar var um lífeyrissjóðina. Ég hef áður svarað því, að skv. lánsfjárlögum eiga lífeyrissjóðirnir að kaupa af Byggingarsjóði ríkisins fyrir 525.4 millj. kr. Í lok sept. höfðu sjóðirnir aðeins keypt fyrir 251.2 millj. og eiga þá eftir að kaupa fyrir 274 millj. til áramóta. Í gangi eru og hafa verið um nokkurt skeið viðræður við alla lífeyrissjóði landsins um á hvern hátt þeir geti staðið við það loforð sem þeir gáfu í upphafi árs um kaup á bréfum frá byggingarsjóðunum og er ekki ástæða til að ætla annað en talsvert fjármagn komi til viðbótar úr lífeyrissjóðunum. Hins vegar er þarna um 274 millj. að ræða. Eins og ég sagði fyrr í svari til hv. 8. landsk. þm. hefur ríkisstj. ákveðið að staðið verði við að afla þess fjár til útlána á þessu ári. Hins vegar vonumst við til þess að meiri hlutinn af því fé komi frá lífeyrissjóðunum sjálfum. Að því er stefnt í þeim viðræðum og samningum sem nú standa yfir.

Þá spyr hv. þm. um sérstaka fjáröflun ríkissjóðs, en skv. lánsfjárlögum er gert ráð fyrir sérstakri fjáröflun ríkissjóðs að upphæð 200 millj. kr. Í lok sept. var búið að greiða Byggingarsjóði ríkisins 40 millj. Eftirstöðvarnar, 160 millj., hefur fjmrn. nú afgreitt til Byggingarsjóðs ríkisins og verður það fé lánað út strax og verkfall opinberra starfsmanna leysist.

Þá er 2. spurning: Hvernig hefur tekist að standa við ákvæði lánsfjárlaga um fjármögnun Byggingarsjóðs verkamanna með skuldabréfakaupum lífeyrissjóðanna?

Skv. lánsfjáráætlun eiga lífeyrissjóðirnir að kaupa skuldabréf af Byggingarsjóði verkamanna fyrir 164.6 millj. kr. á árinu, en þeir höfðu keypt fyrstu 9 mánuði ársins fyrir 104.2 millj. eða 63.3%. Miðað við þær viðræður sem þegar hafa farið fram við lífeyrissjóðina um kaup af Byggingarsjóði verkamanna er ekki ástæða til að ætla annað en það verði að fullu við það staðið fyrir áramót n.k.

3. spurning hv. þm. er: Hversu mörg lán hafa verið veitt ( á fyrstu 9 mánuðum ársins) til a) nýbygginga úr Byggingarsjóði ríkisins?

svar: 931 frumlán hafa verið veitt, samtals að fjárhæð 241.9 millj. kr. Varðandi aðra lánshluta hafa verið veitt 1209 lán, samtals að fjárhæð 225.8 millj. kr.

Í b-lið er spurt um lán til eldri íbúða (úr Byggingarsjóði ríkisins), 1259 lán vegna kaupa á notuðum íbúðum hafa verið veitt, samtals að fjárhæð 236.1 millj. kr.

Í c-lið er spurt um lán til nýrra verkamannabústaða (úr Byggingarsjóði verkamanna). Í gangi eru framkvæmdalánasamningar við 20 sveitarfélög með samtals 292 íbúðir. Það eru samningar sem voru gerðir í lok s.l. árs, en koma til framkvæmda á yfirstandandi ári.

Auk þess vil ég geta þess að um síðustu mánaðamót var búið að lána úr Byggingarsjóði ríkisins samtals 2782 lán að upphæð 876 millj. 746 þús. kr. og auk þess viðbótarlán að fjárhæð 157 millj. kr. sem gerir samtals 1 milljarð 33.7 millj. kr. Þessi önnur lán sem ég gat um í upptalningunni voru: Lán vegna viðgerða og endurbóta: 324 lán fyrir 89.8 millj. Sérþarfalán: 31 lán fyrir 3.9 millj. Orkusparandi lán: 121 fyrir 12.9 millj. Framkvæmdalán: 83 fyrir 38 millj. Lán til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis: 33 fyrir 4.8 millj. Og lán til dvalarheimila: 23.6 millj. kr.

4. spurning hv. þm. var: Hversu margar umsóknir um lán til kaupa á eldri íbúðum liggja óafgreiddar?

svar: Fjöldi umsókna, innkominna á tímabilinu 1. jan. 1984 til 30. mars 1984, sem skv. hefðum og venjum, eins og Húsnæðisstofnun kallar það, hefði átt að afgreiða í októbermánuði, er samtals 850–900 lán að fjárhæð 165 millj. kr. Í des. ætti skv. sömu hefðum og venjum að afgreiða umsóknir innkomnar á tímabilinu 1, apríl til 30. júní, samtals um 470 lán, að fjárhæð 95 millj. kr. Tæplega 600 umsóknir komu inn frá 1. júlí til 30. sept., en þær ættu skv. hefðum og venjum að koma til afgreiðslu í apríl á næsta ári. Samtals eru því 1920 umsóknir inni hjá stofnuninni varðandi G-lán.

5. spurning hv. þm.: Hversu margir umsækjendur nýbyggingarlána hafa orðið fyrir seinkun á afgreiðslu lána og hve lengi?

Svar: Á árinu hafa verið afgreidd 931 frumlán og 1259 umsóknir um aðra lánshluta, samtals 2190 lántakendur. Að meðaltali hefur seinkunin verið rúmur mánuður.

6. spurning: Hvað má áætla vaxtamun inn- og útlána háa upphæð á árinu 1984 í millj. kr. og sem hlutfall af ríkisframlögum hjá: a) Byggingarsjóði ríkisins, b) Byggingarsjóði verkamanna?

Svar: Á árinu 1984 er áætlað að vextir og verðbætur til Byggingarsjóðs ríkisins nemi um 412 millj. kr., en út fari um 269 millj. kr. Mismunur er 143 millj. kr. Byggingarsjóðnum í hag eða tæplega 72% af ríkisframlaginu. — Svar við spurningu b) um Byggingarsjóð verkamanna: Á árinu 1984 er áætlað að vextir og verðbætur til Byggingarsjóðs verkamanna nemi um 15 millj. kr., en út fari um 29 millj. kr. Mismunur er 14 millj. Byggingarsjóðnum í óhag eða 7% af ríkisframlaginu.

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í þessum svörum mínum vantar í dag til þess að standa að fullu við ákvæði lánsfjárlaga framlag frá lífeyrissjóðunum að fjárhæð 274 millj. kr. Viðræður hafa verið og eru í gangi við alla lífeyrissjóðina í landinu um skil á því fé til Byggingarsjóðs ríkisins. Á þessari stundu er ekki hægt að fullyrða hversu góð skil lífeyrissjóðanna verða, en ríkisstj. treystir því að lífeyrissjóðirnir standi við gefin loforð.

Ríkisstj. mun gera ráðstafanir til að fjármagn skv. lánsfjárlögum komi allt til útlána á þessu ári. Vegna aths. hv. 3. þm. Reykv. ætti það að vera fullnægjandi að sú yfirlýsing er hér gefin þar sem ríkisstj. vinnur að þessu máli og ég vænti þess að verulegur skriður komi á útlán byggingarsjóðanna strax og verkfalli opinberra starfsmanna lýkur.

Ég vil hins vegar bæta því við að það eru líkur til að útlán byggingarsjóðanna verði heldur meiri en lánsfjárlög segja til um, eins og ég gat um í fyrra svari.