06.02.1985
Efri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2676 í B-deild Alþingistíðinda. (2162)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1985, skv. þskj. 388. Í ræðu minni við 1. umr. um frv. til fjárl. fyrir árið 1985 kom fram að allar aðstæður í efnahagsmálum þá höfðu gerbreyst þannig að þau lánsfjáráætlunardrög, sem fyrir lágu, þurfti að endurskoða. Rétt þótti að bíða átekta eftir niðurstöðu kjarasamninga á haustmánuðum og taka tillit til breyttra verðlagshorfa. Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ásamt frv. til lánsfjárlaga var lögð fram hér á hinu háa Alþingi í desembermánuði s.l., en ekki tókst fyrir jólaleyfi þm. að mæla fyrir þeim.

Lánsfjáráætlun fyrir árið 1985 er eins og áður samin í samvinnu við stofnanir fjmrn., Seðlabanka Íslands, Framkvæmdastofnun ríkisins, Þjóðhagsstofnun o.fl. Í skýrslunni er fyrst fjallað um efnahagsmarkmið ríkisstj. í atvinnu- og fjárfestingarmálum. Þá er fjallað um heildarfjárfestingar. Síðan er gerð grein fyrir innlendri fjáröflun, erlendum lánum og greiðslujöfnuði. Að lokum er fjallað um opinberar framkvæmdir og lánsfjárþörf ásamt fjárfestingarlánasjóðnum.

Meginforsendur lánsfjáráætlunar þessarar taka mið af stöðu og horfum í efnahagsmálum eins og þær blöstu við eftir kjarasamninga á haustmánuðum 1984 og gengisaðlögun sem gerð var í kjölfar þeirra. Áætlunin gerir ráð fyrir að innient verðlag verði að meðaltali 26–28% hærra en var á árinu 1984. Erlendir gjaldmiðlar verði 22–23% hærri en var á síðasta ári. Þá er gert ráð fyrir að halli verði á viðskiptajöfnuði sem nemur 4.8 milljörðum kr. sem svarar til 5.6% af áætlaðri vergri þjóðarframleiðslu á þessu ári. Á árinu 1984 er áætlað að halli sé á viðskiptajöfnuði að fjárhæð 3.9 milljarðar kr. eða um 5.8% af vergri þjóðarframleiðslu.

Mikil umskipti til hins verra í efnahags- og verðlagsmálum komu fram á síðustu mánuðum ársins 1984 eftir að ríkisstj. hafði tekist með markvissum aðgerðum að draga úr verðbólgu á árinu 1984 og skapa stöðugleika í efnahagsmálum þjóðarinnar. Þessar gerbreyttu aðstæður gerðu þær kröfur til ríkisstj. að nú þegar væru gerðar ráðstafanir gagnvart þeim þáttum efnahagsmála sem mestum erfiðleikum valda þannig að sem fyrst næðist jafnvægi á ný. Þau meginatriði, sem nú verður að takast á við, eru:

1. Að minnka þann viðskiptahalla sem séð er fyrir að verður á árinu 1985.

2. Að lækka erlendar lántökur.

3. Þá þarf að draga úr eftirspurnaráhrifum, bæði í einkaneyslu svo og hjá opinberum aðilum, með markvissu aðhaldi í peningamálum.

Ríkisstj. hefur að undanförnu haft þessi mál til umfjöllunar. Aðgerðir þær sem ríkisstj. hyggst grípa til verða kynntar nú á næstu dögum. Ljóst er að sú fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem hér er til umr. mun þurfa að taka mið af þeim ráðstöfunum sem ríkisstj. áformar og mun hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar fá þær tillögur til umfjöllunar.

Skv. fyrirliggjandi fjárfestingaráætlun er talið að fjármunamyndun aukist um 2% á árinu 1985 frá 1984 og nemi í ár 24.3% af þjóðarframleiðslu. Á árinu 1985 er fjárfesting atvinnuveganna talin aukast um 10%. Gert er ráð fyrir að íbúðabyggingar verði jafnmiklar og árið áður. Samdráttur er talinn verða í byggingum og mannvirkjum hins opinbera sem nemur 7.6%. Áætlað er að heildarfjárfestingar árið 1985, án stórframkvæmda og inn- og útflutnings skipa og flugvéla, muni dragast saman um rúmlega 3%.

Eins og að framan greinir er fjárfesting atvinnuveganna 1985 talin aukast um 10%. Fjármunamyndun í landbúnaði er talin munu verða um 3% minni árið 1985 en var árið 1984. Áætlað er að fjárfesting í fiskveiðum dragist saman um 42%. Ekki er gert ráð fyrir neinum innflutningi fiskiskipa né heldur endurbótum fiskiskipa erlendis. Gert er ráð fyrir 10% aukningu í fjárfestingu fiskvinnslufyrirtækja. Ekki hefur enn þá verið tekin ákvörðun um framkvæmdir við kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði og því er hér ekki reiknað með útgjöldum til þeirra á árinu 1985. Í öðrum iðnaði er gert ráð fyrir 10% aukningu framkvæmda. Áætlað er að fjármunamyndun í flutningatækjum verði tvöfalt meiri á árinu 1985 en árinu 1984. Framkvæmdir við verslunar-, skrifstofu- og gistihús o. fl. eru taldar verða svipaðar og í ár. Áætlað er að fjárfesting í ýmsum vélum og tækjum hafi aukist um 35% 1984 og um 5% aukning verði á árinu 1985. Er hér um að ræða vinnuvélar hvers konar og tölvubúnað.

Áætlað er að framkvæmdir við byggingar og mannvirki hins opinbera dragist saman um 7.5% á árinu 1985 eftir um fjórðungs samdrátt næstliðin þrjú ár. Raforkuframkvæmdir í heild eru taldar dragast saman um 2%, en framkvæmdir Landsvirkjunar aukist um 6%. Framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar er nú til endurskoðunar og er reiknað með nokkrum samdrætti í framkvæmdahraða á árinu 1985 frá því sem núverandi áætlun gerir ráð fyrir. Áætlað er að samgönguframkvæmdir dragist saman um 12%. Áfram verður haldið smíði flugstöðvarbyggingar á Keflavíkurflugvelli. Nokkur samdráttur er áætlaður í framkvæmdum við byggingar hins opinbera í heild eða tæplega 8%.

Skv. þeirri fjárfestingarspá, sem hér hefur verið rakin, verður samdráttur í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð á árinu 1985 er nemur 2–3%, en árið 1984 er talin verða 2% aukning. Eftir þessu að dæma gæti heildaratvinna við byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð orðið nokkru minni á árinu 1985 en var á árinu 1984, en þá var viðamikil þensla á vinnumarkaði í þessum greinum. Atvinnu við byggingar og framkvæmdir hvers konar virðist því naumast hætta búin þótt heldur dragi úr umsvifum frá því sem verið hefur á árinu 1984.

Að gefnum markmiðum ríkisstj. og horfum fram undan í efnahagsmálum er ljóst að lánsfjárframboð verður að takmarka við nauðsynlegustu framkvæmdir og brýnustu rekstrarfjárþörf atvinnuveganna. Einnig að draga verður úr lánveitingum, sem hvetja til innflutnings eða umframeftirspurnar, eftir því sem við verður komið. Sérstaklega er nauðsynlegt að draga úr peningaútstreymi bankakerfisins og lántökum erlendis, en leggja verður megináherslu á innlendan sparnað í ríkara mæli en verið hefur.

Eins og undanfarin ár eru lífeyrissjóðirnir veigamikil og uppvaxandi uppspretta fjár til lánveitinga til langs tíma. Á árinu 1984 er áættað að lánveitingar þeirra til fjárfestingarlánasjóða nemi um 818 millj. kr. Á árinu 1985 er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir láni til fjárfestingarlánasjóða 1400 millj. kr. sem skiptast þannig að Framkvæmdasjóður fær af því fé 150 millj. kr., íbúðarlánasjóðir 1220 millj. kr. og Stofnlánadeild landbúnaðarins 30 millj. kr.

Útlán íbúðarlánasjóðanna 1985 eru áætluð 2473 millj. kr., sem skiptast þannig, að Byggingarsjóður ríkisins lánar 1790 millj. kr. og Byggingarsjóður verkamanna 683 millj. kr.

Gert er ráð fyrir að bankarnir láni til Framkvæmdasjóðs af innlánsaukningu ársins 1985, eins og á liðnum árum, og nemur sú fjárhæð 200 millj. kr. Skv. áætluninni mun Framkvæmdasjóður lána alls 1582 millj. kr. á árinu 1985, þar af 1510 millj. kr. til fjárfestingarlánasjóða atvinnuveganna.

Á árinu 1985 er gert ráð fyrir að Byggðasjóður fái erlent lán að fjárhæð 120 millj. kr. Eins og áður þarfnast Fiskveiðasjóður lánsfjár langt umfram aðra lánasjóði atvinnuveganna. Valda því hin miklu skipakaup liðinna ára og mikil innlend skipasmíði að undanförnu.

Eigin fjármögnun Fiskveiðasjóðs er afar erfið. Skv. áætlun ársins 1984 er hún neikvæð um 540 millj. kr. og 1985 um 575 millj. kr. Með yfirteknum erlendum lánum vegna skipakaupa, skipasmíða, tækja og viðgerða, 150 millj. kr., og láni Framkvæmdasjóðs, 715 millj. kr., verða útlán Fiskveiðasjóðs 1985 465 millj. kr. Ekki er í áætlun Fiskveiðasjóðs gert ráð fyrir neinum lánveitingum vegna raðsmíðaverkefna þótt vitað sé að fjögur skip séu í smíðum. Ef hins vegar eitthvert þessara skipa verður afhent á árinu 1985 og lánveiting samþykkt af stjórn sjóðsins hækkar fjárþörfin um 60% af kostnaðarverði hvers skips.

Skv. áætlun mun Iðnlánasjóður geta lánað um 558 millj. kr. samanborið við 299 millj. kr. árið 1984. Fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1985 sýnir heildarlánsfjárþörf A- og B- hluta ríkissjóðs, alls 3299 millj. kr. Ráðgert er að mæta þeirri fjárþörf með 780 millj. kr. innanlands og 2519 millj. kr. erlendum lántökum.

Á síðasta ári gætti nokkurs óstöðugleika á innlenda lánsfjármarkaðinum, m.a. vegna aukinnar samkeppni lánastofnana og ríkissjóðs um sparifé almennings. Áætlun um innlenda fjáröflun ríkissjóðs á árinu 1985 samanstendur af sölu nýrra spariskírteina, 400 millj. kr., og ríkisvíxla o.fl., 200 millj. kr. Jafnframt hafa endurlán ríkissjóðs skuldbreytt erlendu láni frá árinu 1979 og frestast afborgun um fimm ár. Þessi ráðstöfun felur í sér minni greiðslu til útlanda sem nemur afborgun næsta árs og lækkar erlenda lántökuþörf um 180 millj. kr.

Sá þáttur innlenda lánsfjármarkaðarins sem er hvað óljósastur fyrir ríkissjóð snýr að innlausn eldri spariskírteina, en á árinu 1984 varð hún verulega meiri en áætlað hafði verið. Mikil óvissa ríkir um innlausn eldri spariskírteina á árinu 1985, en þá falla tveir spariskírteinaflokkar til fyrstu innlausnar að verðmæti um 800 millj. kr. Þar til viðbótar kemur síðan innlausn eldri spariskírteina. Allt kapp mun lagt á að bjóða eigendum innleysanlegra spariskírteina ný bréf sem hafa samkeppnishæf ávöxtunarkjör. Lánsfjáráætlun og fjárlög gerðu ráð fyrir að hrein innlausn spariskírteina næmi 650 millj. kr. og jafngildir það áætlaðri innheimtu af endurlánuðu spariskírteinafé. Um þetta ríkir nokkur óvissa.

Eins og á undanförnum árum eru lífeyrissjóðirnir veigamikil og vaxandi uppspretta fjár til lánveitinga til langs tíma. Í fyrirliggjandi áætlun er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir láni til hinna opinberu fjárfestingarlánasjóða 1400 millj. kr. á árinu 1985. Eins og ég gat um í fjárlagaræðu minni um frv. til fjárlaga fyrir árið 1985 eiga viðræður sér stað við stjórnir lífeyrissjóðanna um áætluð skuldabréfakaup þeirra af hinum opinberu fjárfestingarlánasjóðum á þessu ári. Niðurstöður þeirra viðræðna sem fram hafa farið gefa til kynna að veðskuldabréfakaup lífeyrissjóðanna af opinberum fjárfestingarlánasjóðum gætu numið að hámarki 1150 millj. kr. sem eru um 82% af 40% áætlaðs ráðstöfunarfjár sjóðanna á þessu ári og er það ívið hærra hlutfall en verið hefur á undanförnum árum. Í lánsfjáráætlun er ekki gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir kaupi af öðrum fjárfestingarlánasjóðum en þeim opinberu.

Á árinu 1984 námu kaup lífeyrissjóðanna af öðrum fjárfestingarlánasjóðum en hinum opinberu 215 millj. kr. Á árinu 1985 má ætla að kaup lífeyrissjóða af þessum fjárfestingarlánasjóðum muni nema um 250 millj. kr. Þrátt fyrir að fram hafi komið í viðræðum við lífeyrissjóði að þau ávöxtunarkjör sem opinberir sjóðir bjóða nú eru nokkru betri en aðrir ávöxtunarmöguleikar telja ýmsir sjóðir sér skylt að verja ákveðinni fjárhæð til fjárfestingarsjóða sem tengjast þeim atvinnugreinum sem viðkomandi sjóðir tilheyra.

Eins og að framan greinir er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir verji um 1.4 milljörðum kr. til kaupa af opinberum fjárfestingarlánasjóðum. Telja verður að þessi fjárhæð sé um 250 millj. kr. of há og óraunhæft sé að gera ráð fyrir þessum kaupum nema til komi sérstakar ráðstafanir.

Erlendar lántökur A- og B-hluta ríkissjóðs eru ætlaðar 2519 millj. kr. alls. Stór hluti lánsfjárþarfarinnar orsakast af endurgreiðslum af erlendum lánum. Þessar greiðslur eru áætlaðar um 1560 millj. kr. alls af A-hluta ríkissjóðs, þar af 609 millj. kr. vegna afborgana. Lántökur B-hluta ríkissjóðs til lánagreiðslna nema 500 millj. kr. vegna fjárútgjalda Kröflu eingöngu. Að auki er virkjuninni gert að skila 100 millj. kr. úr rekstri upp í afborganir og vexti. Heildarlánagreiðslur B-hluta fyrirtækja af erlendum lánum eru áætlaðar um 2100 millj. kr., þar af tæpar 800 millj. kr. vegna afborgana.

Ráðgert er að afla öðrum opinberum aðilum alls 1953 millj. kr. með erlendum lántökum á árinu 1985, þar af fyrirtækjum með eignaraðild ríkissjóðs 1800 millj. kr. og sveitarfélögum 153 millj. kr. Frv. gerir ráð fyrir að lántökur fyrirtækja með eignaraðild ríkissjóðs skiptist þannig að 1200 millj. kr. renni til Landsvirkjunar, 500 millj. kr. til Þróunarfélags og 100 millj. kr. til annarra fyrirtækja. Fyrirhugað er að erlendar lántökur Landsvirkjunar, þ.e. 1200 millj. kr., nemi rúmlega 16% af áætluðum lántökum þjóðarbúsins. En eins og ég gat um hér að framan er framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar nú til endurskoðunar og hefur komið fram að unnt muni að draga úr þessum lántökum um 250 millj. kr. til viðbótar.

Í stefnuyfirlýsingu stjórnmálaflokkanna frá í september kemur fram að efla beri iðnþróun, tækninýjungar og rannsóknir í atvinnulífinu með stofnun félags. Ráðgert er að afla 500 millj. kr. erlends lánsfjár í þessum tilgangi á árinu1985.

Erlendar lántökur sveitarfélaga á árinu 1985 eru áætlaðar alls 153 millj. kr. Ég sé ekki ástæðu til að fjalla frekar um þær lántökur, en einkum er um að ræða lántökur vegna skuldbreytinga skammtímalána hitaveitna.

Til viðbótar þeim lántökum sem ég hef þegar vikið að eru erlendar lántökur Framkvæmdasjóðs 942 millj. kr. og Iðnþróunarsjóðs 50 millj. kr.

Virðulegi forseti. Ég hef vikið að veigamestu atriðum sem fram koma í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1985. Augljóst er að farsæl framvinda efnahagsmála á hinu nýbyrjaða ári er m.a. undir því komin að lánamál verði tekin föstum tökum í heild. Það skiptir miklu máli að útgjöldum þjóðarinnar sé haldið innan þeirra marka sem tekjur þjóðarinnar setja og að erlendum lántökum sé stillt í hóf. Í lánsfjáráætlun þeirri sem hér er til umr. og að teknu tilliti til þeirra breytinga sem ríkisstj. fyrirhugar og gerðar verði á henni í meðförum Alþingis er mótuð markviss stefna í lánamálum fyrir árið í ár í því skyni að takast á við þann vanda sem nú steðjar að þjóðinni í efnahagsmálum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til virðulegrar fjh.- og viðskn. og 2. umr.