06.02.1985
Efri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2680 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég kem í ræðustól til að fara þess vinsamlegast á leit við forseta og eins við hæstv. fjmrh. að þessari umr. verði frestað að lokinni framsöguræðu. Ég segi það vegna þess að ég er alls óviðbúinn að ræða þetta mál í heild sinni þó að málið hafi legið nokkuð lengi fyrir. Ég hygg að svo sé um aðra stjórnarandstæðinga hér inni. Ég segi þetta vegna þess að mér skildist að þetta mál yrði ekki tekið fyrir og ekki vísað til n. fyrr en boðuð endurskoðun á lánsfjáráætlun, sem ríkisstj. hefur boðað og hæstv. ráðh. kom inn á áðan að yrði í meðförum þingsins, fyrr en fyrir lægju nokkurn veginn helstu breytingar sem þar yrðu. Ég nefni sem dæmi einn veigamesta póstinn sem er augljós í dag og varðar 3. gr., um Landsvirkjun. Þar verður trúlega um fleiri hundruð millj. kr. breytingu að ræða frá því sem í frv. er ráð fyrir gert. Það eitt væri ærinnar umræðu virði. Ég játa að það er rétt að skerðingarákvæðin eru flest gamalkunn og eru svipuð og áður, en þar þarf vissulega betur að að huga. Ég nefni það sem dæmi að þessa dagana sjáum við að eitt af þessum skerðingarákvæðum er til meðferðar í ríkisstj., þ.e. ákvæðið um skerðingu framlaga til Kvikmyndasjóðs. Það er þar til meðferðar. Hæstv. ráðh. segir eflaust að athugun á þessum málum geti farið fram í nefnd, en ég vildi gjarnan fara fram á að 1. umr. yrði nú frestað, ekki til þess að tefja málið lengur, en þó til næsta mánudags, því að þá hygg ég að allir mundu verða tilbúnir til að taka efnislega þátt í þessum umr., sem vissulega er þörf, og það liggi þá kannske fyrir um leið meira um það hvað ríkisstj. hyggst gera. Ég reikna með því að svo þýðingarmikið plagg sem þetta verði ekki lagt fyrir nefnd öðruvísi en hæstv. ríkisstj. geri grein fyrir allra helstu og stærstu breytingum sem hún er ráðin í að gera á þessu frv.