06.02.1985
Efri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2682 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

216. mál, stjórn efnahagsmála

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Þetta frv. er lítið í sniðum. Það er um stjórn efnahagsmála. Það er um afnám laga nr. 13 frá 10. apríl 1979. Þessi lög hafa ekkert gildi lengur. Þetta var stefnuskrá ríkisstj. sem þá var við völd, en með þeim einkennilega hætti birt að það var flutt frv. um lögfestingu á ýmiss konar stefnuskráratriðum, ýmiss konar greinargerðum, skýrslum, hugleiðingum og ábendingum embættismanna víðs vegar um bæinn. Þessu var safnað saman og það var síðan lögfest. Þessi lög voru kölluð manna á meðal Ólafslög en voru það svo sannarlega ekki því að þáv. forsrh., Ólafur Jóhannesson, dró alllengi eins og alþjóð er kunnugt að flytja þetta frv. Og ég held að honum hafi ekki verið það sérlega geðfellt, en hérna er, eins og ég sagði, í rauninni um að ræða lögfestingu á stefnuskrá eða greinargerðum embættismanna sem ekkert gildi höfðu þá og því síður auðvitað núna þegar hálfur áratugur er liðinn frá því að þáv. ríkisstj. fór frá völdum og hennar stefna komst því ekki í neina framkvæmd.

Það er mikill ljóður á lagasafni okkar, eins og menn vita, að þar eru þýðingarlaus lög og illa samin, illa frágengin, lög sem eiga þar ekkert erindi. Ég tel langeinfaldast að afnema þennan lagabálk í heild sinni og láta hann ekki sjást lengur í lagasafninu. Mér er ljóst að vera kann að einhver ákvæði, er hafi takmarkað gildi, hafi verið felld út úr öðrum lögum og sett í þessi. Auðvitað er það nokkur vinna fyrir þá n. sem fær þetta frv. til athugunar að fara í gegnum það allt saman og sjá til þess að þá verði bætt inn á réttum stöðum í rétt lög hugsanlega einhverjum ákvæðum sem felld voru inn í þennan langhund eða bandorm eða hvað menn nú vilja kalla það. En ég treysti þeirri nefnd, sem málið fær væntanlega til umfjöllunar, fjh.- og viðskn., sem ég geri ráð fyrir að fái málið að lokinni þessari umr., að sjálfsögðu til að gera þessa athugun þannig að frv. þetta megi samþykkja.