06.02.1985
Efri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2683 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

217. mál, Seðlabanki Íslands

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Virðulegi forseti. Það má segja um þetta frv. eins og það sem ég mælti fyrir nú fyrir skömmu að það er einfali í sniðum, en þó gífurlega þýðingarmikið mál. Efni þess er það að lögum um Seðlabanka Íslands verði breytt og að starfssvið hans verði með svipuðum hætti og ákveðið var með lögum nr. 10/1961 er varðar yfirstjórn peningamála, en kveðið var á um í 11. gr. laganna að Seðlabankinn mætti hafa nokkra heimild til að binda sparifé, en hún væri hins vegar mjög takmörkuð og takmarkaðist raunar við 10% af heildarsparifénu fyrstu árin og fyrsta áratuginn, hygg ég, sem þessi lög voru í gildi.

Um þetta var að sjálfsögðu fjallað í grg. með frv. Hún segir í rauninni það sem segja þarf og skal ég ekki þreyta hv. þm. á því að lesa hana upp, en aðeins að því víkja að hin svonefnda peningamagnsstefna eða monetarismi hefur alls staðar gengið sér til húðar. Það trúir enginn lengur á það töframeðal að hægt sé að stjórna verðbólguþróun og atvinnulífi og öðru slíku með því að frysta fjármagn þjóðarinnar, með því að taka starfsfé þjóðarinnar og loka það inni. Það hefur verið reynt í vestrænum löndum. Ég hygg að kreppan sem kölluð hefur verið olíukreppa hafi kannske alveg eins verið frystingarkreppa, vegna þess að það var reynt að ráða við verðbólguna með því að takmarka fjármagnið í umferð. Það tókst auðvitað ekki nema í litlum mæli hjá þjóðum þar sem um einkabanka er að ræða og þróaðan peningamarkað, en engu að síður jók sú stefna á erfiðleikana og atvinnuleysi varð í mörgum vestrænum löndum meira en þurft hefði að vera og framþróun -stöðvaðist eða varð minni en ella hefði orðið. Hér er um ranga stefnu að ræða, stefnu, sem við Íslendingar höfum búið við á annan áratug með þeim afleiðingum sem alkunnar eru, að framfarir hafa orðið minni en ella og verðbólgan hefur geyst áfram og ætíð því meir sem meira hefur verið að hert. Það er kannske engin tilviljun að þegar Alþingi samþykkti í fyrravor að auka enn heimildir Seðlabankans til að frysta sparifé úr 28% í 38%, auk þeirra 4% sem ganga til Framkvæmdasjóðs, tekur verðbólgan við sér og þá byrja erfiðleikarnir á nýjan leik. Það er ein ástæðan. Þegar menn sáu að stefnan átti ekkert að breytast, það átti að halda áfram ofstjórninni og óstjórninni, verkaði það auðvitað þannig á almenning að hann var ekki fús til þess að leggja á sig auknar þrengingar fyrir ranga stjórnarstefnu.

Það er þetta sem ég held að hv. alþm. ættu að geta skilið og hef þess vegna gert mér vonir um að þetta frv. gæti orðið samþykkt hér eftir kannske ekki svo ýkjalangar umr. og umfjöllun. Jafnvel geri ég mér vonir um að allir hv. þdm. gætu að því staðið.