06.02.1985
Neðri deild: 39. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2684 í B-deild Alþingistíðinda. (2173)

267. mál, stjórn efnahagsmála

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér er um að ræða framhaldsumr. um frv. um breytingu á ákvæðum Ólafslaga um vaxtamál. Á síðasta fundi deildarinnar tóku margir þm. til máls og ræddu almennt um vaxtamál og þróun þeirra. Ég held að vissulega sé ástæða til að þessi hv. þd. fari rækilega yfir þau mál svo mikið sem rætt hefur verið um vaxtamál hér í deildinni á fyrri árum og þar sem segja má að sú stefna, sem fylgt hefur verið í vaxtamálum um nokkurt skeið, hafi verið ákveðin með þeim lögum sem þm. Alþfl. núna leggja til að verði breytt.

Ástæðan til þess að ég kvaddi mér hljóðs var fyrst og fremst setning sem kom frá hv. 5. þm. Reykv. og var orðrétt á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Reyndar var sú aðgerð, að koma á verðtryggingu fjárskuldbindinga, eina efnahagsmálaaðgerðin sem gerð var af viti á vitlausa áratugnum.“

Það er fróðlegt að fara yfir það hvernig þessi ákvörðun varð til og hvaða áhrif hún hefur haft á efnahagslíf í landinu. Ég hygg að það megi rekja þessa ákvörðun um vaxtamál til frv. sem var lagt fram af sjö þm. Alþfl. í októbermánuði 1978. Það var 9. mál þess þings, frv. til l. um breytingu á lögum nr. 10, um Seðlabanka Íslands, skv. ummælum þessa hv. þm., 5. þm. Reykv., en það er nú svo margt sem kemur frá honum og ekki víst að það sé nauðsynlegt að skilja þetta svona.

Flm. að þessu frv. voru hv. þm. Vilmundur Gylfason, Sighvatur Björgvinsson, Árni Gunnarsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Finnur Torfi Stefánsson, Gunnlaugur Stefánsson og Eiður Guðnason eða allir þáv. þm. Alþfl. í Nd. Alþingis.

Í frv. segir á þessa leið: „Seðlabankanum er ekki heimilt að ákvarða vaxtakjör lægri en nemur verðbólgustigi á hverjum tíma. Seðlabankanum ber að endurskoða vaxtakjör, bæði innlánsvaxta og útlánsvaxta, á minnst þriggja mánaða fresti.“

Síðan kom í ákvæði til bráðabirgða: „Innlánsvextir skulu hafa náð verðbólgustigi eigi síðar en 1. okt. 1979“ — eða ári síðar. — „Vextir af útlánum til almennra nota eða til fjárfestingar eiga að hafa náð verðbólgustigi eigi síðar en 1. okt. 1979. Vextir af lánum til atvinnurekstrar eiga að hafa náð verðbólgustigi eigi síðar en 1. apríl 1980 og vextir af afurðalánum að hafa náð verðbólgustigi eigi síðar en 1. okt. 1980.“

Í grg. segja flm. m.a. á þessa leið: „Það er kunnara en frá þurfi að segja að lengst af um áratuga skeið hafa Íslendingar búið við neikvæða vexti. Á síðustu áratugum er aðeins árið 1967 undanskilið. Þetta hefur þýtt að sparifjáreigendur hafa tapað stórkostlegum fjármunum og almennt hefur þetta einmitt þýtt að viljinn til þess að spara hefur verið mjög slævður. Þetta hefur jafnframt þýtt að auðveldasti vegurinn til þess að verða efnaður hefur verið að skulda fjármagn. Aðgangur að lánastofnunum ræður í raun meiru um það hvort fólk og fyrirtæki kemst vel af heldur en útkoma í kjarasamningum eða góður eða slæmur rekstur fyrirtækja.“

Síðan segir: „Það er eindregin skoðun flm. að hið neikvæða vaxtakerfi hafi breytt þeim stofnunum, sem eiga að vera til þess að lána fjármagn, úr því að vera útlánastofnanir og í það að vera hafta- og skömmtunarstofnanir, sem þar að auki starfa nær alfarið fyrir luktum dyrum og lúta enn fremur pólitísku valdi að mjög verulegu leyti. Þetta kerfi leiðir óhjákvæmilega til misnotkunar óhagkvæmra fjárfestinga og hvers konar misréttis.“

Hérna kvað við þann tón sem síðan gilti í öllum umr. um vaxtamál á næstu mánuðum þarna á eftir.

Þetta frv. þm. Alþfl. í Nd. var flutt af miklu kappi og ég vek athygli á því að frv. er flutt af stjórnarflokki. Stjórnarflokkurinn taldi að ekki væri rétt að bíða með þessa tillögugerð þangað til ríkisstj. hefði fjallað um málið, eins og venja er stjórnarflokka í stórum málum af þessu tagi, heldur var málið lagt fram og flutt af miklu kappi hér í hv. Nd. Fjh.- og viðskn. deildarinnar skilaði um þetta mál þremur nál.

Í fyrsta lagi skilaði hún nál. frá 1. minni hl., sem í voru fulltrúar Alþfl.:

„Við fulltrúar Alþfl. í fjh.- og viðskn. Nd. leggjum til að frv. til l. um seðlabanka Íslands verði samþykkt.“ 2. minni hl. var skipaður þáv. þm. Ólafi G. Einarssyni og Matthíasi Á. Mathiesen. Þeir vildu í raun og veru ekki samþykkja frv. óbreytt, heldur ganga lengra. Þeir vildu afhenda viðskiptabönkunum, lánastofnunum yfirleitt, vaxtaákvörðunarvald og þeir trúðu því skv. grg., sem er dagsett á Alþingi 14. des. 1978, að þetta mundi leysa peningavandann í þjóðfélaginu. (Gripið fram í: Ólafur trúði því vart.) Hann var frsm. engu að síður. En hann hefur nú oft haft framsögu, Ólafur, um dagana eins og frægt er og ekki víst að hann hafi alltaf haft trú á því sem hann var að gera. Hann gekk í þetta verk eins og mörg önnur. Og menn fullyrtu: Þetta þýðir það að allar hirslur fyllast af peningum. Bankarnir troðfyllast af peningum. Það verður nóg til af peningum til að lána húsbyggjendum og öðrum sem þurfa á peningum að halda í bankakerfinu. Þetta var sú kenning sem uppi var. Og síðan: Þetta kemur í veg fyrir þá óskaplegu spillingu sem verið hefur í bankakerfinu hér á landi á undanförnum árum. Þetta dregur stórkostlega úr verðbólgu, var sagt.

Þannig lá það fyrir með nál. 14. des. 1978 að Sjálfstfl. og Alþfl. höfðu með ákveðnum hætti báðir tekið undir þessa raunvaxta- eða öllu heldur vaxtaokursstefnu, sem ég vil kalla svo. Sjálfstfl. vildi þó ganga sýnu lengra að þessu leyti. Hann vildi láta heimila öllum lánastofnunum að ákveða vexti á eigin spýtur skv. lögmálum markaðarins á hverjum tíma.

En aðeins til upprifjunar er rétt að geta þess til að hafa engan fyrir rangri sök að það voru ekki aðeins þm. Alþfl. og þm. sjálfstfl. sem héldu þessum kenningum fram. Ötulustu stuðningsmenn þessarar stefnu, hávaxtastefnunnar, voru talsmenn Seðlabankans og einstakir hagfræðingar. T.d. kom það fram í Alþýðublaðinu 7. nóv. 1978 í viðtali við Ólaf Björnsson prófessor, að hann, jafn vandaður maður og Ólafur Björnsson er að mínu mati og flestra, fullyrðir: Raunvextir mundu draga úr verðbólgu. Síðan eru færð fyrir því ákveðin rök í þessu viðtali. Þannig gekk maður undir manns hönd að reyna að sannfæra þjóðina um að það væri brýnasta verkefni íslenskra stjórnmála þá og reyndar síðar að hækka vexti frá því sem verið hafði.

En það voru ekki aðeins einstakir hagfræðingar sem gengu þarna fram. Áhrifamesti þrýstihópurinn til að pína fram hærri vexti, vaxtaokursstefnuna, hér á landi er Seðlabankinn. Einmitt þá daga, sem þáverandi stjórnarflokkar voru að takast á um vaxtamál, var Seðlabankinn svo smekklegur að blanda sér í þær deilur með því að birta grein í Hagtölum mánaðarins þar sem því er lýst yfir að hækkaðir vextir mundu auka sparnað, bæta greiðslujöfnuð, draga úr viðskiptahalla og minnka verðbólgu. Það var reiknað út mjög vísindalega í Seðlabankanum hvað þjóðin mundi græða mikið á því að vextir hækkuðu, hvað það þýddi t.d. ef vextir hækkuðu um 1/2% eða um 1%. Niðurstaða reikningsmanna Seðlabankans var sú að fyrir hvert 1%, sem raunvextir hækka um, eykst sparnaður um 0.9%. Þetta er orðrétt upp úr Hagtölum mánaðarins 1978. Gjaldeyrissalan minnkar um 0.42% og það dregur úr þörfum á erlendum lántökum og það dregur úr verðbólgu.

Frammi fyrir þessum fullyrðingum þeirra, sem vildu láta fjármagnið svo að segja ákvarða verðlag sitt sjálft, stóðu þm. og tveir þingflokkar strax. Bæði Alþfl. og Sjálfstfl. létu undan þessum sjónarmiðum. Alþfl. lagði fram í ríkisstj. í desembermánuði 1978 frv. til l. um ráðstafanir í efnahagsmálum þar sem gert var ráð fyrir því að Seðlabankinn ætti að ákveða strax jákvæða raunvexti, eins og það er orðað. Þetta frv. var lagt fram í ríkisstj. en aldrei lagt fram á Alþingi og það var birt í dagblöðum 16. des. 1978.

Þannig gekk maður undir manns hönd í þessum hópi að sannfæra þingið og þjóðina um að það væri í rauninni brýnasta verkefni íslenskra efnahagsmála að keyra upp vexti í landinu. Þegar þingið stóð frammi fyrir því að afgreiða fjárlög fyrir árið 1979 var því neitað af Alþfl. að standa að afgreiðslu fjárlaga nema ríkisstj. lofaði áður að ganga frá tilteknum efnahagsráðstöfunum fyrir 1. febr. 1979. Hér er m.ö.o. valdi Seðlabankans beitt til að beygja stjórnmálaflokkana í þessu efni, til að kúga stjórnmálaflokkana til að taka upp þessa vaxtaokursstefnu. Það fellur eitt vígið af öðru og niðurstaðan verður svo sú að lagt er fram 1. mars 1979 frv. til l. um stjórn efnahagsmála o.fl. sem hér á að fara að breyta. Þetta frv. byggist m.a. á þeirri forsendu að teknir séu upp raunvextir, þ.e. frv. Alþfl., sem áður hafði verið birt í Alþýðublaðinu, var komið þarna, flutt af Framsfl. og stutt af Sjálfstfl. Þannig var yfirgnæfandi meiri hl. orðinn á Alþingi fyrir því að vaxtaokursstefnan næði fram að ganga.

Um þetta frv., sem hér liggur fyrir frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, Jóni Baldvini Hannibalssyni og Karvel Pálmasyni, er margt gott að segja. Verið er að reyna að draga í land frá fyrri kröfum í þessu efni af hálfu Alþfl. Það er fagnaðarefni. Og ég heyri það t.d. á þm. Framsfl., sem talað hafa um þessi mál í þessari umr., að þeir eru sömu skoðunar, að þetta fyrirkomulag gangi ekki lengur. Þetta er ákaflega skýrt í þeim fskj. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir leggur fram með frv. sínu og ég vil nota tækifærið til að þakka henni fyrir þau fskj. því að þau eru ákaflega glögg og skýr.

Á bls. 8 í frv. þm. Alþfl. er fskj. II sem er dæmi um greiðslubyrði og greiðslufrest. Greiðslubyrði er þarna í dálki 2 í mánaðarlaunum miðað við fiskvinnslutaxta, efsta þrep. Ef það tók ákveðinn lántaka 4.3 mánuði að vinna fyrir greiðslubyrði 1. júní 1979, þá tók það 4.5 mánuði 1. júní árið eftir, 4.9 mánuði 1. júní árið þar á eftir og 4.9 mánuði 1. júní 1982. Síðan tekur steininn úr því skv. þessu fskj. er greiðslubyrðin, sem áður tók menn 4.3 mánuði að vinna fyrir, komin upp í 6.6 mánuði á árinu 1984 og 8.6 mánuði á árinu 1985 skv. þeim forsendum sem þm. gefur sér og eru í einu og öllu í samræmi við efnahagsforsendur þær sem ríkisstj. byggir sitt á um þessar mundir. Það er því rangt, sem hv. þm. Friðrik Sophusson sagði hér um daginn, að hér væri um að ræða einhverjar spár út í loftið. Hér er um að ræða nákvæmlega sömu forsendurnar og ríkisstj. byggir allt sitt á í sínum efnahagsspám. Sem sagt, greiðslubyrði sem nam 4.3 mánuðum 1. júní 1979 nemur 8.6 mánuðum 1. júní 1985. Það er tvisvar sinnum lengur verið að vinna fyrir þessu láni. Hér er um að ræða hrottalega kjaraskerðingu og eignaupptöku.

Það er einnig mjög fróðlegt að sjá þá tölu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir birtir á bls. 9 og 10 í fskj. III með frv. sínu, þar sem fram kemur að lánskjaravísitalan hefur sótt inn á kaupgjaldsvísitöluna og greiðslubyrðin hefur þyngst, hvort sem miðað er við kauptaxta launþega eða fiskvinnslutaxta. Hámarki nær þetta eftir maímánuð 1983 og þegar komið var fram í janúar 1984 var greiðslubyrðin 54.1% hærri en hún var 1. júní 1979. Af þessum tölum og þessum upplýsingum má sjá hvað hér er um hrikalegt vandamál að ræða.

Alþb. hefur lagt fram á þessu þingi í tveimur frumvörpum ákveðnar tillögur um vaxtamál, bæði í frv. til l. um verndun kaupmáttar o.fl. og í frv. til l. um ráðstafanir í húsnæðismálum, sem er lagt fram á Alþingi í dag. Það er því alveg ljóst að það er verulega víðtæk samstaða um að snúa við af vaxtaokursbrautinni, snúa við frá raunvaxtaæðinu sem greip um sig fyrir fáeinum árum, vegna þess að menn sjá að það leysir engan vanda. Það skapar vanda og dæmi um það ætla ég að nefna. Hvaða vanda hefur þetta skapað?

Lítum hér aðeins á fjóra eða fimm þætti. Fyrsti þátturinn er sjávarútvegurinn. Hvernig hefur sjávarútvegurinn komið út úr þessu vaxtaævintýri öllu saman? Ætli staða undirstöðuatvinnugreinarinnar hafi batnað við þessar hrottalegu vaxtahækkanir? Ætli möguleikar frystihúsanna til að borga hærra kaup hafi aukist? Staðreyndin er sú að það er fjöldinn allur af frystihúsum í landinu sem borgar jafnvel svipaða vexti og kaup, mjög mörg frystihús um helming í vexti á móti kaupi.

Ég ætla að nefna ykkur dæmi um eitt frystihús sem ég kynntist hér á dögunum. Það er frystihús sem var með 100 millj. kr. í veltu á síðasta ári.

Þetta frystihús hefur verið hallalaust í 27 ár. Það hefur aldrei þurft að taka lán í almennan rekstur fyrr en á árinu 1984. Þá varð þetta hús að taka lán í almennan rekstur og niðurstaðan varð sú að vaxtaútgjöld þess voru 70% á móti launum. Þetta er fyrirtæki sem hefur ekki lagt í neinn fjárfestingarkostnað á undanförnum árum. Þeir hafa endurnýjað sinn vélasal og sín tæki fyrir eigið fé á undanförnum 20–30 árum. (GJG: Þetta hlýtur að vera Hnífsdalur.) Ég segi nú ekki alveg hvar það er, en það er ekki langt frá. Síðan kemur þessi ríkisstj., sem ætlaði að leysa allan vanda undirstöðuatvinnuveganna, og staðan er þá þessi, að peningarnir eru fluttir frá framleiðslunni og yfir til milliliðanna, eins og kunnugt er, þannig að nú borgar sig betur að flytja inn svissneskt konfekt en að verka fisk, eins og hv. þm. Geir Gunnarsson hefur sýnt fram á hér úr þessum ræðustól. Þannig er staðan, þannig hefur vaxtastefnan leikið undirstöðuatvinnuveginn, sjávarútveginn. Þar leikur allt á reiðiskjálfi. Þetta er vaxtastefnan. Þeir, sem eru upphafsmenn að þessari vaxtastefnu, skulu gera sér grein fyrir því hverju þeir hafa valdið. Þeir skulu gera sér það ljóst hvar ábyrgð þeirra liggur í íslenskum stjórnmálum þessa dagana.

Ég ætla að nefna landbúnaðinn líka. Milli áranna 1983 og 1984 hækkuðu skuldir, framreikningur skulda bænda hjá Kaupfélagi Austur-Húnvetninga um á annað hundrað prósent. Á sama tíma hefði verðlagsgrundvöllur landbúnaðarins hækkað um 18–19%. Það blasir ekkert við annað en gjaldþrot og byggðaeyðing hjá þessum bændum. Þannig er það á mjög mörgum svæðum í landinu. Ég er sannfærður um að byggð í landinu á mörgum svæðum hefur aldrei verið í meiri hættu en eftir að þessi fjármagnsstefna var innleidd sem núna gildir.

Ég er búinn að nefna sjávarútveg og landbúnað. Tökum svo í þriðja lagi húsbyggjendur. Þar er um að ræða svo ægilega hluti að það þarf ekki að fara um þá mörgum orðum hér úr þessum ræðustól. Sú hrikalega staða stafar í fyrsta lagi af kaupskerðingunni eftir 1. júní 1983, í öðru lagi af þeim gífurlegu vaxtahækkunum sem hafa síðan verið að ganga yfir, hærri raunvexti en við höfum nokkurn tíma horft framan í. Hvaða vextir eru það sem fólk er að borga? Hvað þýðir það að borga kannske 3% raunvexti, kannske 6%, 9% eða 12%?

Í tímaritinu Vísbendingu var birt um það tafla nýlega hvað það þýðir að borga 3% raunvexti, 6% raunvexti, 9% raunvexti o.s.frv. Þar er birt tafla sem sýnir hvað höfuðstóll er lengi að tvöfaldast miðað við vexti umfram verðbólgu með tilteknum hætti. Tökum fyrst 3% vexti umfram verðbólgu. Hvað skyldi það taka langan tíma? 23.5 ár. 6% vextir umfram verðbólgu 11.9 ár, 9% vextir 8 ár, 12% vextir 6.1 ár, 15% vextir 5 ár, 18% vextir 4.2 ár.

Það hefur stundum verið sagt að það væri út af fyrir sig kannske hægt að ætlast til þess af venjulegri fjölskyldu með gott starfsþrek og skikkanlegar tekjur að koma sér upp einni íbúð á ævinni. Eins og vextirnir eru orðnir núna er verið að fara fram á það við fólk að það skili mörgum íbúðum á einni starfsævi ef menn þurfa að taka allt að láni í upphafi, sem flestir þurfa að gera aðrir en erfðaaðallinn í þjóðfélaginu, sem er fámennur, og liðið sem sleppur við að borga það til samneyslunnar sem það á að borga.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að 18% vextir ofan á verðtryggingu er ekki nein fjarstæða hér í dag. Hafa menn tekið eftir auglýsingum sem hafa birst frá þessum vinsælu, frjálsu, fínu eftirlætisfyrirtækjum Sjálfstfl. að undanförnu? Þar er verið að bjóða upp á raunávöxtun af þessari stærðargráðu. Og það er fólk sem er að kikna undir skuldabyrðum sem gengur með skuldabréf inn á þessar okurbúllur um þessar mundir og selur þessi bréf, verðtryggð bréf með 18% vöxtum og jafnvel afföllum líka. Og hverjir haldið þið að eignist þessi bréf? Hverjir eignast þessa peninga? Hverjir græða á þessu? Það eru þeir sem eiga mikla peninga fyrir. Það hefur aldrei átt betur við á Íslandi en í dag að þeir ríku verða ríkari og þeir fátækari fátækari. Það er stöðugt gengið grimmara að þeim síðarnefndu af núverandi ríkisstj. á öllum sviðum, en ekki síst í þessum efnum. Og það fólk sem sagt er að hafi eignast íbúðir á undanförnum áratugum vegna neikvæðra raunvaxta er nú að missa sínar íbúðir vegna þess að það er að veðsetja þær fyrir framfærslukostnaði í stórum stíl. Það er þetta fólk sem við þm., t.d. hér í Reykjavík og vafalaust úr öðrum kjördæmum líka, hittum á hverjum einasta degi á skrifstofunum okkar. Fólk sem stynur undan þessari byrði. Þarna er að eiga sér stað peningatilflutningur. Þeir peningar, sem eru teknir af þessu fólki, týnast ekki, þeir gufa ekki upp. Þeir eru fluttir til í samfélaginu, til þeirra sem hafa mikið fyrir og eignast miklu meira með þessum ráðstöfunum.

Ég hef nefnt hér sjávarútveginn. Ég hef nefnt hér launafólkið og húsbyggjendur. Ég ætla að nefna tvo þætti enn. Hvað með verðbólguþróunina að undanförnu? Verðbólgan hefur ætt upp úr öllu valdi núna að undanförnu, margfaldast á tiltölulega mjög stuttum tíma. Það er auðvitað verið að kenna verkafólki um það eins og venjulega. En ætli vaxtaokrið og vaxtaþenslan eigi ekki þátt í þessu brjálaða verðbólguspani sem hefur verið að ganga yfir hér að undanförnu? Ég er sannfærður um það. En það segir sína sögu um Seðlabankann og þessar opinberu stofnanir, sem eiga að rannsaka og fylgjast með hlutum hér í efnahagsmálum, að það er aldrei kannað mál eins og þetta, hvaða áhrif vaxtaokrið hefur haft á verðbólguspanið að undanförnu. Frá því má ekki segja vegna þess að þá væri komið upp um „strákinn Tuma“, því að Seðlabankinn var auðvitað sá aðilinn sem fremstur þrýsti á það að þessi vitlausa fjármagnskostnaðarstefna var tekin upp í landinu.

Ég hef nefnt hér fjóra þætti. Og ég hef ýjað að þeim fimmta sem er vaxandi misrétti í þjóðfélaginu. Menn hafa tekið eftir því að þeir aðilar sem nú eru að eignast þessi skuldabréf og sölsa undir sig fjármuni frá þeim sem minnst hafa eru að gera kröfur um það að þeir fái að ávaxta sitt pund í betri gögnum en skuldabréfum því að þeir óttast að það fólk sem á að borga bréfin fari á hausinn. Það er rétt að ástæða er til að óttast að það geti ekki borgað. Menn sjá nauðungaruppboðslistana í Lögbirtingablaðinu, hinu sameiginlega málgagni þeirra Þorsteins Pálssonar og Steingríms Hermannssonar, hv. þm. og hæstv. forsrh. Það er það málgagn sem sameinar þá þessa dagana, Lögbirtingablaðið, sem kemur út ótt og títt um þessar mundir, troðfullt af nauðungaruppboðstilkynningum frá þessu fólki sem núna horfir á eignir sínar hrifsaðar af því vegna þeirrar stefnu sem þessir menn bera ábyrgð á.

Þetta misrétti birtist okkur á ýmsum sviðum. Þessir menn, sem þarna eru að gera kröfur varðandi nauðungaruppboðin, þeir fara núna fram á það að fá að flytja inn gull. Þeir fara fram á það að fá að flytja inn gull til þess að þeir geti geymt eignir sínar, til þess að þeir þurfi ekki að eiga það á hættu að einhverjir Jónar Jónssynir, meðal-Jónar í Breiðholtinu, fari á hausinn og geti ekki borgað þetta. Þeir vilja fá gull til að geta ávaxta sitt pund. Svona er það. Þannig liggur þetta þjóðfélag misréttis sem hér blasir við okkur. Ég fullyrði það að einn stærsti þátturinn í efnahagsvanda Íslendinga á síðustu 5–6 árum, fyrir utan samdráttinn í þjóðartekjum sem ég geri ekki lítið úr, einn stærsti þátturinn fyrir utan samdráttinn í þjóðartekjum er þessi brjálaða fjármagnskostnaðarstefna. Og ég fagna því að þm. Alþfl. skuli nú flytja hér frv. sem gengur í rauninni gegn þeim kröfum sem þeir í upphafi settu fram.

Ég held að það sé núna aðalatriðið, herra forseti, að við gerum okkur grein fyrir því að þm. úr öllum flokkum eru sammála um að hér hafi ekki verið gengið til góðs og að það eigi að breyta þessu.

Ég minni á að hv. 1. þm. Suðurl. nefndi það hér í útvarpsumr. frá Alþingi fyrir nokkru að nauðsynlegt væri að setja niður nefnd fulltrúa stjórnar og stjórnarandstöðu og annarra aðila til þess að fjalla um breytingarnar á tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Mér fannst þetta góð hugmynd. Hins vegar er a.m.k. einn þm. hér og hæstv. ráðh. sem hefur ekki verið mjög spenntur fyrir þessari hugmynd í verki að mér hefur sýnst. Það er hæstv. forsrh. Einhverra hluta vegna hefur hann ekki komið þessu frá sér, og hefur þó margt sést frá honum viturlegt síðustu daga, eins og að leysa fjárhagsvanda ríkissjóðs með því að selja bjór. Hann kemur sem sé auga á eitt og annað sá maður. Þjóðin á að drekka sig frá vandanum. En að öllu gamni slepptu, þá væri fróðlegt að þessi nefnd, sem hv. 1. þm. Suðurl. lagði til að yrði sett á laggirnar, kannaði alveg sérstaklega hvaða áhrif fjármagnskostnaðarkerfið hefur haft á lífskjör fólks í landinu á undanförnum árum. Það kann að vera að margt af því sem sagt er í þeim efnum byggist meira á tilfinningu en því að menn hafi farið mjög nákvæmlega ofan í hlutina. Það væri mjög æskilegt að fá upplýsingar um það hvað vaxtaokurskerfið hefur haft í för með sér í eignaflutningi í þjóðfélaginu. Og ég vil í þessum umr. spyrja hv. 1. þm. Suðurl.: Er þess ekki að vænta að ríkisstj. komi þessari nefnd saman? Og benda honum jafnframt á að ef ríkisstj. ekki kemur þessari nefnd saman, þá getur hann auðvitað gert það sjálfur.

Að lokum, herra forseti, vil ég vekja athygli á því að hæstv. viðskrh. er fjarverandi við þessa umr. Það er afleitt. En hann er mjög oft fjarverandi, hæstv. viðskrh. Í dag mun hann hafa veikindaforföll og það er ekkert við því að gera. En hæstv. viðskrh. er búinn að vera hér á mælendaskrá í fimm vikur út af 5. dagskrármáli, næstur á mælendaskrá, en hefur aldrei verið viðstaddur til þess að taka til máls, og er það bagalegt þegar mál þurfa að komast í n. og til meðferðar hér í þinginu. En einkum hefði ég þurft að eiga orðastað við hæstv. viðskrh. út af öðru máli, sem tengist vaxtamálum og kom fram í fréttum sjónvarpsins núna á dögunum, þar sem það kemur fram að bankarnir viðurkenna að þeir taki kolvitlausa vexti af fólkinu og bankastjórarnir segja: það er eðlilegt vegna þess að leiðbeiningarnar eru svo vitlausar að við skiljum þær ekki. Í fréttum sjónvarpsins núna á dögunum sagði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir rúmri viku sendi lögfræðingur í Reykjavík Seðlabankanum erindi þar sem því var haldið fram að Landsbankinn hefði á fyrrgreindu tímabili tekið ólöglega vexti af skuldabréfum sem bankinn hafði til innheimtu.

Forsaga málsins, var sú að um miðjan apríl 1983 gaf lögfræðingurinn út vegna íbúðakaupa 12 samhljóða skuldabréf, hvert að upphæð 30 þús. kr. Bréfin voru verðtryggð með lánskjaravísitölu og vextir skyldu vera þeir hæstu löglegu af verðtryggðum lánum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Skuldareigandinn fól síðan aðalútibúi Landsbanka Íslands innheimtu bréfanna.

Fyrir tímabilið 1. júlí 1984 til 1. janúar 1985 krafðist Landsbankinn að greiddir yrðu meðaltalsvextir 8.288% af framangreindum bréfum. Í erindi sínu heldur lögfræðingurinn því hins vegar fram að samkvæmt ákvörðunum Seðlabankans hefðu meðaltalsvextir á þessu tímabili átt að vera 6.755% og vextir Landsbankans því hærri en lög heimiluðu. Það munaði þarna liðlega 1%. Mismunurinn, sem er rúmlega 11/2%, kann reyndar að virðast smávægilegur, en í þessu tilfelli þurfti þó viðkomandi einstaklingur á þessu tímabili að greiða hvorki meira né minna en rúmum 7000 kr. meira í vexti en annars hefði orðið.

Sveinbjörn Hafliðason, lögfræðingur hjá Seðlabanka Íslands, sagði í samtali við fréttastofuna í dag að sér sýndist að hér væri um að ræða of háa vaxtatöku hjá Landsbankanum, en málið hefði verið sent áfram til frekari athugunar hjá bankaeftirlitinu. Helgi Bergs, bankastjóri Landsbankans, sagði í dag að þessi vaxtataka væri í samræmi við túlkun lögfræðinga bankans á ákvörðunum Seðlabankans og Seðlabankinn gæti sjálfum sér um kennt ef ákvarðanir hans væru svo óljósar að það væri ekki á valdi færustu bankalögfræðinga að framkvæma þær með réttum hætti.“

Sjá menn ekki í hvert óefni er hér komið með þessa vaxtavitleysu? Það er ekki nóg með það að verið sé að ráðast að fólki og atvinnuvegum með þeim hætti sem ég hef hér lýst, heldur eru vaxtareglurnar orðnar svo flóknar að sögn bankastjóranna að það er útilokað að reikna þær út. Það botnar enginn neitt í þeim. Það væri fróðlegt að vita hvað hv. þm. Friðjón Þórðarson og Stefán Valgeirsson segja um þetta í Búnaðarbankanum, af því að þeir sitja nú hér fyrir framan mig. Ætli það hafi verið kannað hvernig þessir hlutir eru þar? Ég held að það væri full ástæða til þess fyrir viðskrh. að athuga hvort verið er að oftaka af fólki gífurlega fjármuni vegna þess að menn kunna ekki að reikna út vextina, botna ekkert í þessari flækju, frumskógi og vitleysu lengur. Ég held að það væri full ástæða til þess, herra forseti, að þegar umr. fer hér aftur fram um vaxtamál verði tryggt að hæstv. viðskrh. sé viðstaddur, til þess að fram komi hvort hann hefur ekki veitt þessu athygli, að hér er verið að oftaka af fólki gífurlega fjármuni af því að menn kunna ekki að reikna út vexti.

Sjá menn þá ekki hvert þetta er allt að leiða? Það er eignaupptaka. Það er kollkeyrsla á atvinnuvegunum á eina hlið og endileysa í framkvæmd allri á hina hliðina. Niðurstaða mín er sú, að hér hafi í rauninni verið rætt um eina vitlausustu ákvörðun í efnahagsmálum á Íslandi á síðasta áratug, og er þá langt jafnað, skal ég viðurkenna, og þó yfir lengri tíma væri farið. Ég held að þetta hafi verið óheppileg og hættuleg ákvörðun og ég held að það sé aðalatriðið að nú er ljóst að fulltrúar allra flokka hér á Alþingi eru tilbúnir til þess að taka á þessu máli og reyna að snúa þessu við. Því að vaxtaokrið er að keyra hér allt í kaf, bæði einstaklinga og atvinnuvegi.