06.02.1985
Neðri deild: 39. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2705 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

267. mál, stjórn efnahagsmála

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Sú umr. sem hefur farið hér fram í dag er fyrir margar sakir nytsamleg. Hún er um almenn efnahagsmál, húsnæðismál og vaxtamál og það gefst vafalaust kostur á því að taka hana upp síðar undir öðrum málum sem hér eru til meðferðar. Þar minni ég sérstaklega á frv. til l. um ráðstafanir í húsnæðismálum sem þm. Alþb. í Nd. leggja fram í dag. Þar er m.a. gert ráð fyrir tekjuöflun til húsnæðismála upp á 1.4 milljarða kr. Þar er farin nokkuð önnur leið en Alþfl. leggur til í þeim efnum. Ég held að sú leið sem við erum þarna með till. um geti verið góð og till. Alþfl. og hugmyndir í þeim efnum eigi að skoða líka.

Ég kvaddi mér ekki hljóðs núna til að skattyrðast við einstaka ræðumenn. Ég held að við getum tekið tíma í það síðar. Ég ætla aðeins að gera eitt atriði að umtalsefni og það varðar frv. sjálft.

Ég dreg í efa að það sé rétt að miða við lánskjaravísitölu. Ég held að ef miða á við að hérna sé um að ræða breytingar sem einkum snúa að húsbyggjendum og þeim sem eru að koma sér upp íbúðarhúsnæði, þá sé eðlilegra að miða við byggingarvísitölu. Að undanförnu hefur lánskjaravísitala hækkað mun meira en byggingarvísitala af þeim ástæðum að lánskjaravísitala er sett saman úr tveimur vísitölum, framfærsluvísitölu og byggingarvísitölu, og framfærsluvísitalan hefur hækkað mun meira en byggingarvísitalan m.a. af því að niðurgreiðslur af landbúnaðarvörum hafa verið lækkaðar verulega og fleira hefur þar komið til. Þess vegna held ég að hæpið sé að slá því föstu í lagagrein að hér eigi að miða við lánskjaravísitölu eins og þá sem reiknuð hefur verið út. (JS: Þú leggur það sjálfur til í frv. í dag.) Nei, það er ekki alveg rétt hjá hv. þm. vegna þess að þar er miðað við að tekið sé mið af kaupgjaldsvísitölu um leið. Ég held að í sambandi við húsnæðislán eigi að miða við byggingarvísitölu. Ég get fært fyrir því rök þó síðar verði hvað ég tel að komi í veg fyrir að lánskjaravísitalan sé notuð eins og sakir standa núna, eftir að kaupgjaldsvísitala hefur verið bönnuð, sem er aðalatriði og hefur gerbreytt högum húsbyggjenda og annarra í þjóðfélaginu frá því sem áður var.

Ég geri ekki mikið með það tal, herra forseti, sem uppi var haft af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. þm. Ellert B. Schram um að raunvaxtastefna hafi komið í veg fyrir brask og spillingu og annað eftir því. Horfi menn í kringum sig. (EBS: Ég sagði ekki að hún hefði komið í veg fyrir það.) Það voru að vísu orð hv. 2. landsk. þm., en hv. þm. Ellert B. Schram lagði á það áherslu að hér hefði verið mikið brask, spákaupmennska og misskipting í tekjum, það mesta sem um hefði verið að ræða í Íslandssögunni, ef ég tók rétt eftir hans orðum. Ég held að sú lausn sem menn ímynduðu sér að þeir fengju út úr hávaxtastefnunni, hvað sem þeir vilja kalla hana, hafi ekki skilað sér, hafi ekki komið í ljós, vegna þess að þeir sem eru núna að tapa eru kannske dálitið aðrir en töpuðu þegar þetta fé var mest allt inni í bönkunum. Núna verðum við að átta okkur á því að verulegur fjöldi fólks er fórnarlamb okurlánastarfsemi sem er utan bankakerfisins og staða þess er allt önnur en áður var. Þetta held ég að við eigum að hafa í huga. Hérna var ekki um að ræða þá frelsandi lausn sem menn héldu að yrði á húsnæðismálum. — Og mér fannst það gott hjá hv. þm. Ellert B. Schram að rifja hérna upp kosningaloforð Sjálfstfl. Það er ekki seinna vænna að halda þeim til haga. Ég vil leggja á það áherslu að ég hygg að það sé alveg hárrétt hjá honum, sem hann sagði hér áðan, að það er hæstv. núv. ríkisstj. sem er að gera alla að leiguliðum í landinu eins og staðan er nú.

Alþb. er ekki andvígt því að fólk eigi sínar eigin íbúðir. Alþb. vill að fólk hafi valfrelsi í þessum efnum. Ég tel að það sé heppilegra að fólk eigi sínar íbúðir sem allra mest og hafi efni á því að greiða þær niður með eðlilegum hætti með kaupinu sínu. Það er grundvallaratriðið. Síðan verður auðvitað að skapa forsendur fyrir leiguhúsnæði í verulegum mæli, þegar um er að ræða t.d. yngra fólk og aldraða o.s.frv. En okkar stefna hefur verið sú að leggja áherslu á að meginþunginn í húsnæðiskerfinu fari inn á eignaríbúðir og á því byggðust og byggjast þau lög sem enn gilda um Húsnæðisstofnun ríkisins og við beittum okkur fyrir að sett voru á sínum tíma.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara hér út í að ræða við hv. 1. þm. Suðurl. um Milton Friedman. Hann er eins og kunnugt er sérstakt átrúnaðargoð þm. Hann hefur nýlega fundið það upp að Milton Friedman sé sérstakur talsmaður vísitölubindingar. Ég kunni vel að meta þá tilraun til að bregða léttleika yfir ræðuna sem hv. 1. þm. Suðurl. flutti áðan. En ég vil minna á að það liggur hérna fyrir þinginu frv. um ráðstafanir í efnahagsmálum frá Alþb. sem gerir ráð fyrir að það sé bannað að vísitölutengja lán til skemmri tíma en fimm ára meðan kaupgjaldsvísitalan er bönnuð.

Herra forseti. Ég ætla að láta máli mínu lokið að sinni.