07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2709 í B-deild Alþingistíðinda. (2185)

101. mál, afvopnun og takmörkun vígbúnaðar

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Sú till. sem hér er til umr. hefur komið fyrir þingið áður og þau sjónarmið sem að baki hennar liggja því allvel kunnug. Þau eru mjög almenns eðlis og það er hægt að lýsa fylgi við ákveðna þætti sem fram koma í þessari till., svo sjálfsögð sem þau mega teljast, eins og í fyrri hluta till.

Fyrir þingið hafa hins vegar komið till. sem taka meira sértækt á hinum stóru málum er snerta vígbúnaðarkapphlaupið. Vísa ég þar til brtt. sem við þm. Alþb. lögðum fram við 14. mál þingsins, brtt. við till. til þál. um frystingu kjarnorkuvopna, þar sem í mörgum liðum er vísað til þáttar sem nauðsynlegt er að Alþingi álykti um og tekið verði á. Einnig liggja nú fyrir þinginu óræddar þrjár till. sem ég tel mjög brýnt að hér komi á dagskrá fyrr en seinna og um verði fjallað á yfirstandandi þingi þannig að afstaða fáist. Þar er um að ræða þáltill. um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum sem hv. þm. Páll Pétursson er 1. flm. að, þáltill. um geymslu kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir er 1. flm. að og svo 206. mál Sþ., till. um nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flytur ásamt hv. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur. Þetta eru stórmál sem snerta okkur Íslendinga sérstaklega hér og nú. Þau ásamt þeim öðrum till. sem þegar hafa verið ræddar á þinginu og vísað hefur verið til n. er nauðsynlegt að utanrmn. gefi sér tíma til að fjalla um, leita samstöðu um og helst að ná landi með afstöðu þingsins til þessara stóru mála.