07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2709 í B-deild Alþingistíðinda. (2186)

101. mál, afvopnun og takmörkun vígbúnaðar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli frummælanda er hér endurflutt till. sem áður hefur verið til umfjöllunar í þinginu. Till., sem hafa gengið í svipaða átt frá öðrum aðilum, hafa einnig komið hér áður fram. Það var lagt nokkurt starf í það á s.l. ári að leitast við að ná samstöðu um þessi efni og sameina þær hugmyndir sem komu fram í þeim till. sem fram hafa verið lagðar. Því starfi varð ekki lokið.

Það er greinilegt að sú spenna, sem hefur verið ríkjandi milli stórveldanna á undanförnum árum og fór um hríð vaxandi, virðist nú vera heldur að minnka. Vitaskuld er það mikið ánægjuefni en þó ber mikið á milli og vígbúnaðarkapphlaupið heldur áfram fullum fetum. Viðræður eru nánast hafnar milli stórveldanna á ný og það er vitaskuld gleðiefni vegna þess að það er ekki líklegt að menn nái árangri í þessum efnum öðruvísi en með viðræðum.

Segja má að hinar vestrænu þjóðir standi frammi fyrir tvíþættu verkefni í þessum efnum. Það er augljóst að þær mega ekki láta deigan síga þannig að jafnvægi raskist í varnarviðbúnaði þeirra gagnvart Sovétríkjunum og fylgilöndum þess. Það yrði vitaskuld misskilið. En ávinningur til langs tíma í því að bæta sambúð þjóðanna og draga úr afvopnun getur ekki fengist öðruvísi en með þrotlausu starfi sem miðar að því að draga úr spennunni, eyða misskilningi, leitast í rauninni við að ná meiri samböndum við þjóðirnar austan járntjaldsins.

Ég held að hverjum sem hefur litið á þessi málefni sé það ljóst að það sé tortryggnin sem knýi áfram það vígbúnaðarkapphlaup sem við lýði hefur verið á undanförnum árum. Þess vegna verða menn sífellt að leggja sig í líma við að eyða þeirri tortryggni og leitast við að ná betra sambandi austur yfir tjaldið á sama tíma og menn halda vöku sinni. Ég lít svo til að þau ályktunarorð, sem felast í fyrri hluta þessarar till. til þál., taki mið af þessum sjónarmiðum og þess vegna sé ekki nema sjálfsagt að þingið taki undir þau. Þar held ég sé falið í einni setningu viðhorf sem allir Íslendingar hljóti að geta tekið undir. Menn getur vitaskuld greint á um leiðir, um það hvernig best verði að farið í þessum efnum. En markmiðið, sem fram kemur, ætti að vera öllum ljóst og allir ættu að geta verið því sammála.

Í seinni hluta þáltill. er utanrrh. jafnframt falið að láta gera úttekt á þeim hugmyndum sem uppi eru um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar með tilliti til legu Íslands. Vitaskuld er það bæði rétt og nauðsynlegt að Íslendingar átti sig á öllum þeim hugmyndum sem uppi eru í þessum efnum á hverjum tíma og hvenær sem þær birtast til þess að geta myndað sér raunhæfa og skynsamlega skoðun á því hvaða áhrif þau hafi að því er Ísland varðar. Líka þetta er nauðsynlegt. Ég þykist vita að öryggismálanefnd hafi að hluta til unnið að þessum störfum og mér þykir líklegt að utanrrn. og utanrrh. geti haft stoð og styrk af störfum öryggismálanefndar að því er þetta varðar. Öryggismálanefnd hefur að mínum dómi unnið mjög merkilegt starf og á því má byggja í mörgum greinum.

Margir munu sjálfsagt segja að hér sé um lágmarkstillögu að ræða og við Alþfl.-menn gætum að sjálfsögðu hugsað okkur ýmsar viðbætur í þessum efnum. Vitaskuld væri æskilegt að það væri leitast við að ná víðtækri samstöðu eins og var hafið hér fyrir ári síðan að gera, eins og menn leituðust við í þeim efnum og reyna að láta reyna á það hvort menn geti ekki náð samstöðu um einhverja lágmarkstillögu. En í ljósi þess, sem ég hef þegar sagt, held ég að það hljóti að vera ljóst að við þá till., sem hér liggur frammi, er í sjálfu sér ekkert að athuga. Spurningin er einungis sú hvort menn sjái ekki ástæðu til að meitla þetta eitthvað nánar, bæta einhverju við og leitast við að ná víðtækari samstöðu um fleiri atriði.