07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2712 í B-deild Alþingistíðinda. (2189)

113. mál, samanburður á launakjörum launafólks á Íslandi

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ekkert hef ég við þá till. að athuga sem hér hefur verið mælt fyrir og er fús til þess að veita henni stuðning minn. En ég vil vekja athygli hv. þm. á því að fyrir þinginu liggur einnig till. sem er 287. mál þingsins, till. til þál. um könnun á launum og lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum.

till., sem hér var talað fyrir, heitir till. til þál. um samanburð á launakjörum og lífskjörum launafólks á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. Munurinn á þessum tveimur tillögum eru orðin „í nálægum löndum“ og „annars staðar á Norðurlöndum“. Engin lönd veit ég nálægari en Norðurlönd. Ég verð því að lýsa undrun minni yfir því að þessar tvær tillögur skuli koma fram á sama þingi. Ég hélt að þm. hefðu nóg að gera við að fylgjast með þeim málum sem fram koma þó að slíkt gagnrýnisleysi sé ekki viðhaft hér, hvar sem það nú annars er sem tekin er ákvörðun um hvort ástæða sé til að flytja mál eða ekki.

Ekki síst vekur það undrun að fim. að báðum þessum till. er hv. þm. Gunnar Schram. Ég er enginn sérfræðingur í þingstörfum, en ég get hugsað mér að hafi hv. þm. Gunnar Schram fengið bakþanka og talið að vert hefði verið að færa sig út fyrir Norðurlöndin í fyrri till. væri eðlilegra að draga till. til baka og semja við aðra flm. um að sameina þessar tvær tillögur. En því er ég nú svona gagnrýnin að þetta er í annað sinn a.m.k. á þessu þingi sem slíkt sem þetta kemur fyrir og í bæði skiptin reyndar hjá þessum hv. þm. og lagaprófessor.

Ef ég man rétt er þetta í annað sinn sem þetta kemur fyrir. Hér í þingskjalabunka okkar liggur — ég held ég muni það rétt — till. til þál. um lyfjaiðnað á Íslandi. Ég tel mig fylgjast nokkuð vel með því sem fram er lagt hér í þinginu og ef mig brestur ekki minni var samþykkt í Sþ. fyrir 2–3 árum að efla og vinna að lyfjaiðnaði. Flm. þeirrar till. var hv. þáv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson.

Ég hlýt að spyrja hæstv. forseta: Eru engin takmörk fyrir því hvernig mál skuli fram lögð? Er hvert einasta mál óháð öðru? Skiptir engu máli hvort sama málið hefur verið samþykkt hér á hinu háa Alþingi? Er ekki kominn tími til að einhver taki á sig ábyrgð á því hér í þinginu, að menn séu ekki að eyða tíma okkar hér í lestur sömu þskj. ár eftir ár, ýmist samþykktra eða ekki samþykktra?

Að þessu gefna tilefni vil ég leyfa mér að færa fram aðra gagnrýni, sem ég vona að forseti telji ekki málinu öldungis óviðkomandi, þ.e. hvernig þskj. eru farin að líta út hér á hinu háa Alþingi. Í lögum um þingsköp segir að greinargerð skuli vera stutt. Ég bið forseta að fletta því upp, mig minnir að það sé í 14. gr. Greinargerðir með þskj. eru nú komnar upp í 70–80 síður. Ekki nóg með það, heldur eru birtar tillögur frá fyrri

árum, blaðagreinar, þingræður manna frá fyrri árum, allt er þetta að sjálfsögðu prentað í fyrri þingtíðindum. Ég hlýt að vekja athygli á þessu og biðja menn nú aðeins að huga að sér í þeirri keppni sem nú er hafin hér á Alþingi.

Ég vil hins vegar lýsa þeirri skoðun minni að fjölmiðlar eigi þar nokkra sök. Það hefur komist í tísku nú upp á síðkastið að þm. séu gefnar einkunnir. Hver er duglegastur þingmanna? Það er sá sem rausar hér mest alveg óháð hvað hann hefur verið að segja eða að hvaða gagni það hefur komið landsmönnum eða sá sem hefur úðað hér inn í þingið flestum málum, hvort sem þau hafa verið samþykkt áður eða ekki hér á þinginu. Ég held, herra forseti, að ég hljóti fyrir hönd fjölmargra þm. hér að biðja um að einhverjar hefðir séu hér í heiðri hafðar.