07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2713 í B-deild Alþingistíðinda. (2191)

132. mál, listskreyting Hallgrímskirkju

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um framlag ríkisins til listskreytingar Hallgrímskirkju í Reykjavík sem hér liggur fyrir á þskj. 136 og er 132. mál þingsins. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að á árinu 1985 leggi íslenska ríkið fram 10 millj. kr. til listskreytingar Hallgrímskirkju í Reykjavík og síðan samkvæmt fjárlögum hverju sinni með hliðsjón af verkáætlun til tíu ára.

Kirkjumálaráðherra skipi sjö manna nefnd til að annast undirbúning verksins og eftirlit með framkvæmd þess. Nefndin skal skipuð sem hér segir: Kirkjumálaráðherra tilnefni einn mann og skal hann jafnframt vera formaður nefndarinnar, menntamálaráðherra, biskup Íslands, húsameistari ríkisins, byggingarnefnd Hallgrímskirkju í Reykjavík, Félag íslenskra myndlistarmanna og kirkjulistarnefnd tilnefni einn mann hver í nefndina.“

Byggingarsaga Hallgrímskirkju er orðin æðilöng eða rúm 40 ár. Þegar litið er á þetta mikla mannvirki er næsta ótrúlegt að það skuli hafa verið byggt að mestu fyrir frjáls framlög velunnara kirkjunnar og óbilandi elju safnaðarins. Framlög ríkis og borgar eru einungis óverulegur hluti byggingarkostnaðarins. Oft hafa staðið um þetta mikla mannvirki hatrammar deilur, en nú er mál að linni. Áætlað er að ljúka byggingu hennar árið 1986, en þá er eftir að vinna það stórvirki að gera kirkjuna þannig úr garði að innan að fullur sómi sé að.

Til þessa dags í 40 ár hefur ríkið lagt til kirkjubyggingarinnar 6 millj. 955 þús. 267 kr., en á árinu 1985 eru á fjárlögum 6.5 millj. og er það í annað sinn, sem framlag sem um munar er lagt til kirkjunnar. Árið 1984 lagði ríkissjóður til hennar 4.5 millj. Skattgreiðendur hafa því ekki borið þunga bagga vegna þessa mikla mannvirkis sem nú stendur nær fullbyggt á Skólavörðuhæð. Þann bagga hafa borið einstaklingar sem af ýmsum ástæðum settu sér það mark að kirkjubyggingunni yrði lokið þrátt fyrir margvíslegt andstreymi við þá framkvæmd allan þann tíma sem hún hefur staðið yfir.

Flestar höfuðborgir Evrópu eiga fagrar dómkirkjur sem færustu listamenn hafa prýtt svo að menn gera sér langar ferðir til að njóta þeirrar snilldar hugar og handa sem þar má augum líta, og þeir sem ekki eiga kost á ferðalögum mega nú um hverja jólahátíð líta listaverk þau, sem dómkirkjur Evrópu prýða, á sjónvarpsskermum sínum. Höfuðborg Íslands á enga slíka kirkju fyrr en Hallgrímskirkja er fullbyggð. Á þeim öldum þegar kristnin átti hvað sterkust ítök í hugum Evrópumanna og þjóðhöfðingjar gengust fyrir því og kirkjuhöfðingjar að eyða stórfelldum fjármunum til að reisa voldugar kirkjur, gera stórfengleg myndverk og semja göfuga tónlist guði sínum til dýrðar, þá áttu Íslendingar ekki þann veraldlega auð sem þurfti til að reisa óbrotgjarnan minnisvarða af áþreifanlegu tagi. En við áttum samt andann og það efni sem kannske er öllu dýrara, orðið. Og við áttum menn sem gátu sett saman úr þessu efni þau listaverk sem munu standa á meðan einhver kann íslensku og metur list.

Sá maður sem best kvað á íslensku var auðvitað séra Hallgrímur Pétursson. 30 árum áður en séra Hallgrímur Pétursson fæddist réðst frændi hans, Guðbrandur Þorláksson biskup, í það stórvirki að láta prenta Biblíuna á íslensku. Þess minnast menn nú um þessar mundir, en síðan eru liðin 400 ár. Þetta stórvirki breytti þróun íslenskrar tungu svo að torvelt er að gera sér í hugarlund hvað um hana hefði orðið án hinnar íslensku Biblíu. Og víst er að það velferðarþjóðfélag sem við búum við og er harla ólíkt sárfátæku samfélagi Guðbrands biskups og séra Hallgríms væri varla það sem það er á okkar dögum nema fyrir afrek þessara forfeðra okkar. Hvað sem menn hugsa eða hugsa ekki um íslenska menningu er hún óumdeilanleg undirstaða þess mannlífs sem þrífst í landinu hverju sinni.

Nú eru breyttir tímar. Íslendingar eiga þann veraldarauð sem nægir til að reisa voldugar byggingar, misjafnlega þarfar, og undanfarna áratugi hefur verið unnið af mikilli atorku og ósérhlífni við að koma upp mannvirki á Skólavörðuholti í minningu hins mikla skálds. Um þessa kirkju hefur að vísu staðið styr þá áratugi sem hún hefur verið í smíðum, en nú er byggingu hennar að ljúka og hún er óumdeilanleg staðreynd og því mál að þrætum linni og menn taki höndum saman um að gera kirkju séra Hallgríms sem veglegasta og fegursta. Engin ytri vandkvæði ættu að vera á slíku þar sem þjóðin á nú orðið valinn hóp manna sem getur unnið fagra hluti úr margvíslegustu efnum: litum, gleri, mósaík, steini, bronsi o.s.frv. Það sem hins vegar þarf að koma til er sú stærð í hugsun, sú efling andans, sem fyrri tíma höfðingjar höfðu til að bera þegar þeir létu gera miðaldakirkjur að ódauðlegum listaverkum, og einnig var aflvaki séra Hallgríms Péturssonar þegar hann orti sín ódauðlegu ljóð.

Þær raddir hafa heyrst að á erfiðum tímum í efnahagslífi þjóðarinnar sæmi ekki að eyða fjármunum í svo óþarfa fjárfestingu sem listskreytingu Hallgrímskirkju. Menn gera sér ekki grein fyrir að afkoma þjóðar fer eftir menningarástandi hennar. Þá hafa menn haft við orð að nær væri að láta af hendi rakna fé til nauðstaddra systra og bræðra í hungurhéruðum Afríku. Hér er mikill hugsanaruglingur á ferðinni. Víst er að margir Íslendingar dóu úr hungri meðan Guðbrandsbiblía var í prentun. Nú hafa allir Íslendingar talsvert að bíta og brenna, þó því sé allt of misskipt, en þeir hafa efni á að leggja sinn skerf til íslenskrar menningar og íslenskrar listar og þeir hafa um leið efni á að aðstoða þau börn jarðarinnar sem nú búa við hörmungar hungurs og kúgunar. Það getur á engan hátt stangast á að gera sitt til betra og auðugra mannlífs í sínu eigin landi og að leggja það sem unnt er af mörkum til að lina þjáningar annarra sem eru til orðnar vegna þess að menning þeirra var lögð í rúst svo að þeir fengu ekki ráðið við þá arðræningja sem ruddust af miskunnarleysi yfir lönd þeirra án tillits til fólksins sem lifað hafði í löndum sínum um aldir. Það fólk er nú að deyja fyrir augunum á okkur eins og menning þess var drepin. Menning þjóðar er ekki aðskiljanleg frá afkomu hennar. Hrynji menning þjóðar í rúst verður engu mannlífi, sem þolanlegt er, haldið uppi. Þess vegna verðum við að standa vörð um list og menningu þjóðarinnar og minning séra Hallgríms Péturssonar verðskuldar hvort tveggja. Og hafi séra Hallgrímur haft efni á því sem hann gaf þjóð sinni til varðveislu um aldur og ævi höfum við svo sannarlega efni á að ljúka byggingu kirkju hans. Það er óveruleg greiðsla upp í mikla skuld sem aldrei verður greidd.

Skreyting og innrétting kirkjunnar er verk sem nú þegar þarf að skipuleggja. Það er verk fjölmargra listamanna um langan tíma. Mér er til efs að hv. þm. geri sér ljósa stærð þessa mikla mannvirkis. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að skoða það til að hafa um það nokkra hugmynd. Hér má ekki kasta til höndum. Þetta verk kostar að sjálfsögðu mikið fé og fyrir Alþingi liggur nú till. okkar um fjárveitingu í þessu efni.

Í grg. fyrir till. er stiklað á stóru um sögu byggingarinnar.

Fyrsta tillagan um kirkjubyggingu á Skólavörðuholti kom fram árið 1916 og um svipað leyti var hafist handa við byggingu safnhúss Einars Jónssonar, Hnitbjörg. Guðjón Samúelsson, hinn mikli húsameistari sem síðar varð, var þá nemi í húsagerðarlist við listaakademíuna í Kaupmannahöfn og var að vinna að fyrsta stórverkefni sínu, húsi Nathans og Olsens sem blasir við okkur úti í Austurstræti. Eftir nokkrar tilraunir, m.a. samkeppni um byggingu kirkjunnar, og ég skal nú ekki fara yfir það til að stytta mál mitt, varð úr að Guðjóni Samúelssyni var falið að teikna kirkjuna.

Það var árið 1937 að ríkisstjórnin skrifaði Guðjóni Samúelssyni bréf fyrir áeggjan safnaðarnefndar Dómkirkjunnar og fól honum að teikna og standa fyrir byggingu Hallgrímskirkju á Skólavörðuhæð, en þá höfðu þegar verið samþykkt lög á Alþingi um stofnun Hallgrímsprestakalls. Við þessari beiðni varð Guðjón Samúelsson.

Guðjón Samúelsson lauk námi árið 1919 og var ári síðar skipaður húsameistari ríkisins. Því starfi gegndi hann síðan til dauðadags árið 1950 og hafa fáir menn haft jafnmikil áhrif á íslenska húsagerðarlist og hann. Meðal helstu verka hans má nefna Þjóðleikhúsið, Háskóla Íslands, Landspítalann, Sundhöll Reykjavíkur, Akureyrarkirkju og síðast en ekki síst Hallgrímskirkju í Reykjavík.

Hið háa Alþingi eyðir ekki miklum tíma til menningarmála er varða komandi kynslóðir. Hversdagslegt amstur er oftar viðfangsefni okkar hv. þm. Um séra Hallgrím Pétursson segir Helgi Skúli Kjartansson sagnfræðingur í bók sinni um skáldið sem sjálft fór ekki varhluta af basli, fátækt og þjáningum: „Passíusálmarnir eru vitaskuld höfuðverk hans og hátindur ævistarfs hans hvernig sem á er litið. Þó eru rit hans meiri að vöxtum og miklu fjölbreyttari en marga unnendur Passíusálmanna grunar. Hann lagði hönd að flestum kveðskapargreinum sinnar aldar og einnig að lausamálsritun. Á engu sviði eru rit hans fjarska mikil að vöxtum, en alls staðar tókst honum prýðilega upp að sinnar tíðar hætti og vann jafnvel merk brautryðjendaverk. Sum rit hans hafa nú einkum sögulegt gildi, en þó eru mörg ljóð hans sígild snilldarverk, sem eiga erindi við hvern ljóðelskan mann. Ljómi þeirra slævist ekki fremur en Passíusálmanna við að skína gegnum mistur þriggja alda.“

Og ljóma Passíusálmanna njótum við enn einu sinni um þessar mundir kvöld hvert í flutningi annars höfuðsnillings íslenskrar tungu og bókmennta, Halldórs Laxness.

Fyrir þrem öldum orti séra Hallgrímur:

Ísland, þér ætlar að hnigna,

eru þar merki til.

Manndyggð og dugur vill digna,

dofna því laganna skil.

Guð gæfi að þú nú þekkir,

það ósk er hjarta míns

fyrr en hefnd stærri hnekkir,

hvað heyrir til friðar þíns.

Hið háa Alþingi ætti að þekkja hvað til þess friðar heyrir hverju sinni. Séra Hallgrímur Pétursson og aðrir jöfrar andans þekktu kall sitt og þeim eigum við tilveru okkar að þakka mörgum öldum síðar. Þeim eigum við skuld að gjalda.

Minningu séra Hallgríms Péturssonar væri vart meiri sómi sýndur en með því að fela íslenskum listamönnum að gera kirkju hans að musteri listar og fegurðar í hjarta höfuðborgar landsins þar sem menn mega eiga griðastað til að hlýða á það sem hann unni mest, orð guðs, skáldskap og tónlist.

Hallgrímskirkja er landskirkja, eign þjóðarinnar allrar, og Íslendingar eiga nú þann auð sem nægir til að gera hana sambærilega hinum fegurstu kirkjum annarra þjóða, bornum og óbornum til friðar og gleði. Ég skora á hv. alþm. að veita þessari till. okkar brautargengi og leyfi mér að vísa henni til hv. fjvn.