07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2727 í B-deild Alþingistíðinda. (2194)

121. mál, úrbætur í umferðamálum

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Mig langar til þess að koma upp vegna þess að ég tel þetta hið þarfasta mál og nauðsynlegt að það nái fram að ganga.

Heilbrigðismál þykja dýr póstur á fjárlögum ríkisins og mikið er yfir þeim kvartað. Það er því að verða mönnum æ ljósara að óhjákvæmilegt er að leggja meiri áherslu á fyrirbyggjandi heilsugæslu. Ég tel þessa till. til þál. fjalla um fyrirbyggjandi heilsugæslu og e.t.v. á því sviði sem fyrst mundi skila verulegum fjárhagslegum sparnaði. Ég þarf svo ekki að tíunda þann sparnað eða varðveislu sem mundi verða á heilsu og mannslífum ef slíkt átak mundi ná fram að ganga. En sá tollur sem íslensk umferð tekur í mannslífum og heilsutjóni á börnum og fullorðnum er algjörlega óviðunandi. Við getum ekki sætt okkur við hann.

Ég tel þetta því vera mjög brýnt mál, þjóðþrifamál, og styð það heils hugar.