07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2727 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

152. mál, sóllampanotkun og húðkrabbamein

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur leyft mér að flytja till. til þáltill. á þskj. 157 sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrrh. að skipa þegar í stað nefnd sérfræðinga til að kanna hvort tengsl séu milli sóllampanotkunar og húðkrabbameins. Nefndin skal hraða störfum svo sem unnt er.

Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði“.

Nú er það svo, herra forseti, að það eru a.m.k. tveir, ef ekki þrír mánuðir síðan þessi till. var lögð fram hér á Alþingi og síðan kann eitthvað að hafa gerst í þessum efnum í þá veru sem þessi till. felur í sér.

Það er alkunna að hin síðari ár hefur það verið eitt af því sem kalla mætti stöðutákn í íslensku þjóðfélagi að geta verið sólbrúnn allan ársins hring. Áður fyrr hafði þetta í för með sér að menn urðu að sækja þennan sólarlit til Suðurlanda en síðan hefur tækninni fleygt svo fram að komið hafa á markaðinn svokallaðir sóllampar eða samlokulampar sem eru mjög vinsælir, bæði hjá konum og körlum, þó hygg ég í nokkru ríkari mæli hjá konum, a.m.k. ef dæma má eftir aðsókn að þeim stofum og sundstöðum í Reykjavík sem bjóða þessa þjónustu. Í dagblöðunum má lesa auglýsingar frá 10– 15 og kannske fleiri fyrirtækjum sem bjóða slíka lampaþjónustu, bjóða slíkan sólbrúnkulit. Þetta er líka til reiðu á sundstöðum Reykjavíkurborgar og þar tjáir mér fólk sem þar starfar að þess séu dæmi að einstaklingar skipuleggi sinn tíma þannig, til þess að verða brúnir á sem skemmstum tíma, að þeir fara kannske á þrjá eða fjóra svona staði í runu, eiga pantað á einum staðnum klukkan þrjú, þeim næsta kortér fyrir fjögur og síðan áfram til að ná þessu markmiði á sem skemmstum tíma. Það er nú gjarnan svo með okkur Íslendinga að við tökum hlutina svolítið skarpt, hvað sem um er að tefla, og mér sýnist að sú hafi einnig orðið raunin í þessu tilviki.

Í Morgunblaðinu 8. nóv. s.l. var frétt sem ég held að hafi vakið töluvert mikla athygli en þar segir m.a.. með leyfi forseta:

„Á þessu ári hefur orðið gífurleg fjölgun tilfella af húðkrabbameini hérlendis. Um er að ræða tegund húðæxla sem kölluð er illkynja litaræxli. Í langflestum tilvikum er um að ræða ungar konur sem hafa stundað sóllampa.

„Við hljótum að spyrja hvað sé hér um að vera því að á þessu ári hefur fjölgum húðkrabbameinstilfella verið slík að við höfum haft til meðferðar á lýtalækningadeild Landspítalans sama fjölda tilfella og á fjórum til fimm árum samanlagt fram að þessu,“ sagði Árni Björnsson skurðlæknir á lýtalækningadeild Landspítalans í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Þegar við bætist að í flestum tilfellum er um að ræða ungar konur sem hafa notað sóllampa fer ekki hjá því að mann gruni að þarna á milli sé orsakasamband, eins og reyndar hefur verið bent á áður bæði hér á landi og annars staðar,“ sagði Árni.

„Það hlýtur að vera svo, enda veit ég ekki hvort þessi mikla sóllampanotkun hér á landi á sér nokkra hliðstæðu og þessarar skyndilegu aukningar á húðkrabbameinstilfellum hefur ekki orðið vart á hinum Norðurlöndunum.

Hins vegar er erfitt að sanna að einstök tilfelli af þeirri tegund húðkrabbameins, sem hér um ræðir, séu til komin vegna notkunar sólarlampa, frekar en hægt er að sanna að krabbamein í lungum stafi af reykingum, þó að orsakasambandið þar á milli sé svo greinilegt að engum detti í hug að neita því að það sé til staðar.“

Árni kvað lækna á lýtalækningadeild Landspítalans hafa sent landlæknisembættinu bréf um málið og væri ákvarðanataka um aðgerðir því nú í höndum þess.

„Ef orsakasamhengið milli notkunar sóllampanna og illkynja húðæxla reynist vera til staðar,“ sagði Árni Björnsson að lokum, „þá eigum við eftir að sjá gífurlega aukningu á þessum tilfellum á næstunni, til viðbótar því sem þegar er orðið.“

Hér talar læknir sem nýtur álits og þetta eru vissulega alvarlegir hlutir sem hann bendir á. Hér er ekkert fullyrt en fim. þessarar þáltill. telja að hér sé alvarlegt mál á ferðum og einskis megi láta ófreistað til að kanna hvort þessi grunur lækna, um samband milli sóllampanotkunar og húðkrabbameins, sé á rökum reistur, einskis megi láta ófreistað til að kanna og komast að hinu sanna eða eins nálægt sannleikanum og unnt er í þessum efnum. Og það er tilgangurinn með flutningi þessarar till.

Það hefur komið fram í blaðaskrifum um þetta mál seinna að með sóllömpum á þessum ljósastofum hefur ekkert eftirlit verið. Það er líka ljóst að eftirlitslaus geta þessi ljós verið hættuleg. Áreiðanlega er notkun slíkra ljósalampa í hófi ekki aðeins í góðu lagi heldur beinlínis af hinu góða fyrir ýmsa. Hins vegar telja ýmsir að notkun þessara lampa í óhófi sé beinlínis hættuleg. Tilgangur okkar, sem stöndum að þessari till., er eingöngu sá að óska eftir því að heilbrrh. láti kanna þetta mál svo gaumgæfilega sem kostur er.

Ég sé, herra forseti, að hæstv. heilbrrh. er ekki hér í salnum. Ég vildi þá óska eftir því að þessari umr. verði frestað þangað til hann getur verið hér viðstaddur og frá honum hægt að fá upplýsingar um á hvern rekspöl, ef einhvern, þetta mál þegar kann að vera komið.

Sennilega þarf nú að hafa tvær umr. um þessa till. vegna þess að gert er ráð fyrir að kostnaður við störf þessarar nefndar greiðist úr ríkissjóði. Að lokinni fyrri umr. legg ég því til að henni verði vísað til allshn.