07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2735 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

158. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ekki veit ég hvaðan hv. þm. koma þessar hugmyndir. (ÓÞÞ: Uppboðsbeiðni.) Uppboðsbeiðni? Það hefur ekki verið samþykkt nein uppboðsbeiðni í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins í sambandi við þetta. Það veit ég mætavel sem stjórnarmaður þar. Það hefur heldur aldrei verið talað um að Byggðasjóður tæki á sig skuldgreiðslu af því sem stofnlánadeildin á útistandandi hjá þessum sláturhúsum, það veit hv. þm. líka mjög vel. Það hefur aldrei verið um það rætt.

Hins vegar er meginskuldin við stofnlánadeildina og það er furðulegt hve Byggðasjóður hefur komið lítið inn í þetta dæmi um sláturhúsin bæði. Ég tek dæmi af sláturhúsinu í Breiðdal sem á sínum tíma var mikið byggðamál. Það eru ekki nema líklega 600 þús. af skuldum þess áhvílandi hjá Byggðasjóði og Byggðasjóður hefur ekki treyst sér til að taka á því litla máli. Hins vegar er um nokkurra milljóna skuld að ræða hjá stofnlánadeildinni og alls ekki útséð um hvernig þar muni verða tekið á málum.

Við höfum lýst því yfir og lýstum því yfir í viðræðum við Byggðasjóð, sem mér sýnist á öllu að hv. þm. viti ekki um, við formann stjórnar, hv. þm. Stefán Guðmundsson, sem gæti borið vitni um þessar viðræður hér, og framkvæmdastjóra, að stofnlánadeildin væri fyrir sitt leyti tilbúin að taka á þeim skuldum sem að henni snúa ef Byggðasjóði kæmi inn í myndina hvað aðrar skuldir snertir. Og ég spyr hv. þm.: Hefur Byggðasjóður nokkurn tíma tekið alvarlega á þessu máli, t.d. varðandi Breiðdalsvík, og tekið á öðrum skuldamálum en snerta stofnlánadeildina? Mér er ekki kunnugt um það. Ef svo er, þá væri rétt að fá það upplýst og hvað stjórn Byggðasjóðs hafi ákveðið að gera. En uppboðsbeiðni á þessum sláturhúsum hefur ekki verið samþykkt í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Um það get ég upplýst hér og nú.