07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2738 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

158. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Sú till. sem hér liggur fyrir er þörf og tímabær því að sannleikurinn er sá að það eru ekki eingöngu þessi tvö sláturhús, sem hafa hér verið nefnd, sem eiga í erfiðleikum, heldur munu þau vera fleiri.

Hv. þm. átta sig vonandi á því að hér er um erfitt mál að ræða. Það eru enn mjög mörg sláturhús á undanþágu. Dýralæknar og heilbrigðisnefndir segja til um hver útbúnaður þurfi að vera til þess að leyfilegt sé að það fari fram slátrun á búpeningi. Þetta hefur leitt til þess að byggð hafa verið á undanförnum árum ný sláturhús þar sem ástandið hefur verið einna verst. Það var nefnd sem gerði tillögur um þessa uppbyggingu og þróunin hefur orðið sú að sláturhúsum hefur fækkað mjög á s.l. 14–15 árum. Svo gerist það að stórfækkun verður á búpeningi víða og þá er enginn grundvöllur fyrir því að reka þessi hús. Það kemur fram í því að t.d. þau tvö hús sem hér hafa verið nefnd hafa í sjálfu sér engan rekstrargrundvöll. Jafnvel þótt þau þyrftu ekki að standa undir neinum kostnaði af upphaflegum byggingum mundi samt sem áður ekki gera betur en reksturinn sjálfur stæði undir þessari starfsemi.

Þetta er auðvitað byggðamál og ekkert var óeðlilegt þó Byggðasjóður hlypi þarna að einhverju leyti undir bagga. Ég vil staðfesta það, sem hv. þm. Helgi Seljan sagði, að enginn áhugi er fyrir því í stjórn stofnlánadeildar að eignast sláturhús, það er af og frá, en það þarf að finna lausn á þessu máli. Það verður ekki gert með öðru en sameiginlegu átaki Byggðasjóðs, stofnlánadeildar og stjórnvalda. Ég fagna því þessari till.

Það er misskilningur að stofnlánadeild vilji fara í uppboð á þessum húsum. Hins vegar eru ákveðnar reglur um hvernig skuli fara með skuldir sem ekki innheimtast og forstöðumaður stofnlánadeildar hefur þar ákveðin fyrirmæli að fara eftir. Það geta ekki liðið mjög mörg ár þannig að ekkert sé gert í þessu máli. Þess vegna liggur á að finna lausn í þessu.

Síðasti ræðumaður var að tala um Osta- og smjörsöluna og þær byggingar sem eru hér á vegum bændasamtakanna. Nú þekki ég ekki uppbygginguna hjá Mjólkursamsölunni og ætla ekki að fjalla um það, en ég þekki nokkuð til um Osta- og smjörsöluna. Með tilkomu hennar hafa Eyfirðingar t.d. ekki þurft að borga í sölulaun nema 1/4 af því sem þeir urðu að borga fyrir þá tíð að Osta- og smjörsalan hóf hér sína starfsemi. Þetta skulu menn athuga. Raunar veit ég að hún hefur verið ávinningur fyrir bæði framleiðendur og neytendur. Við skulum ekki slá því föstu að t.d. fullkomin vinnslustöð í Reykjavík verði til þess að varan verði dýrari eða framleiðendur fái minna fyrir hana. Ég held að eins og nú er komið sé líklegt að fullkomin vinnslustöð yrði til þess að það yrði meira neytt af kjötvöru. Ég held að það sýni reynslan. Hvernig á að koma þessum málum fyrir er svo annað mál, hvort það á endilega að byggja þetta allt hér eða annars staðar. Ég er ekki fagmaður í því. En ég vil hafa alla fyrirvara á því og samþykki ekki að það sé endilega víst að það sé af hinu neikvæða að byggð sé t.d. fullkomin kjötvinnslustöð hér eða annars staðar. Ég hygg einmitt að þetta hafi verið nauðsyn og sé nauðsyn nú ekkert síður en í sambandi við þá reynslu sem við höfum af Osta- og smjörsölunni.

Það var verið að koma hér með miða til mín þar sem segir að það muni hafa komið fram uppboðsbeiðni á Patreksfirði, hafi verið send nýlega án samþykktar stofnlánadeildar. Helgi Seljan kom með þennan miða hér inn. Þetta eru nýjar upplýsingar sem ég hafði ekki hugmynd um og ég harma að það hafi verið farið fram á uppboð. Hitt er annað mál að samþykktin sem við gerðum var sú að það skyldi reynt að fá niðurstöðu um aðgerðir fyrir árslok 1984. Þeir menn sem fóru til að athuga þetta, einn frá Byggingastofnun landbúnaðarins og annar frá Byggðasjóði, hafa ekki gefið stjórn stofnlánadeildar skýrslu og þess vegna ekki tímabært að senda uppboðsbeiðni. Ég harma þetta og það mun verða tekið fyrir á fundi á miðvikudaginn hvernig á þessu stendur. Meðan er verið að kanna þetta betur verður uppboði frestað.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, en ítreka að ég tel till. tímabæra og mjög gott að það sé farið ofan í þessi mál. Umræðan um þessi mál er yfirleitt neikvæð. Hún er sprottin af því að menn hafa lítinn skilning á þessum málum, hvernig þau eru. Flestir sem um þau tala og þeir sem tala mest um þetta yfirleitt vita minnst um hvernig þessi mál eru, því miður.