07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2739 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

158. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Siggeir Björnsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. sem síðast talaði að bygging vinnslustöðva í Reykjavík þarf ekki að vera af hinu neikvæða. Hér mun hafa verið vikið að fyrirhugaðri byggingu Sláturfélags Suðurlands í Reykjavík og það er ekkert undarlegt þó að Sláturfélagið hugsi nú til að endurbyggja þau hús sem það byggði í upphafi þessarar aldar. Ég held að góðar vinnslustöðvar séu ekki einungis til að tryggja hag framleiðandans, bóndans, heldur líka til að tryggja hag neytandans. Ég veit ekki betur, og verð vonandi leiðréttur ef það er rangt hjá mér, en að Íslendingar reki miklar verksmiðjur í Ameríku þar sem þeirra aðalfiskmarkaður er. Er þá nokkuð undarlegt þó að bændur telji best fyrir sig að hafa sína fullkomnustu kjötvinnslu einmitt þar sem aðalmarkaðurinn er? Þetta mun vera mat stjórnar og forstöðumanna Sláturfélags Suðurlands og ég mun ekki halda öðru fram en það geti verið rétt.

Það sem fékk mig til að koma hér upp var kannske fyrst og fremst það að ekki hefur komið hér fram að eitt af vandamálum sláturhúsanna í dag er að sláturkostnaður er stórlega vanmetinn í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins s.l. líklega tvö ár. Þetta er vitanlega vegna hins mikla þrýstings að reyna að halda verðinu á landbúnaðarafurðum niðri. En þetta kemur niður á afurðasölufélögunum þannig að þau eiga erfiðara með að borga bændum út það afurðaverð sem þeir eiga að fá og eiga rétt á.

Í annan stað hafa kröfurnar til bættra sláturhúsa, til vöruvöndunar og heilbrigðisþjónustu vaxið alveg stórkostlega á undanförnum árum. Er það ekki af hinu góða? Er ekki verið að tryggja hag neytandans líka með því að vinna að almennri vöruvöndun í landinu og framleiðslu góðrar vöru?

Hitt er svo annað mál að ég hef ekki mikla trú á því að hægt væri að nýta sláturhúsin, nema þá á einstaka stað, til annars en slátrunar vegna þess að þar sem er blandaður búskapur, mjólkurframleiðsla og sauðfjárbúskapur, verða sláturhúsin meira og minna notuð allt árið. Þar sem ég er kunnugastur er sláturhúsið t.d. opnað til slátrunar einu sinni til tvisvar í mánuði vegna slátrunar nautgripa.

Ég veit ekki hvort ég hef ástæðu til að lengja þessa umr. meira. Ég vildi aðeins að þetta kæmi fram um notkunartíma sláturhúsanna. Í 4–6 vikur er slátrað þar á hverjum degi. Þetta hlýtur því að verða ákaflega dýr rekstur. Og eins og ég sagði áðan eru stöðugt meiri kröfur gerðar til bættra húsakynna. Ég held þess vegna að nauðsynlegt sé, eins og hér hefur komið fram, að Byggðasjóður komi til skjalanna og grípi inn í á einn eða annan hátt. En hins ber svo líka að gæta að það hlýtur að þurfa að setja eitthvert lágmark fyrir því að hægt sé að byggja sláturhús og reka það þar sem framleiðslan er lítil. Annars verður engin nýting á fjármagninu.